fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Trúverðugleiki Miðflokksins

Eyjan
Miðvikudaginn 20. nóvember 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil umræða hefur spunnist um traust og trúverðugleika stjórnmálaflokka eftir að vandræðamál kom upp hjá Samfylkingunni vegna Þórðar Snæs Júlíussonar sem kostar hann þingsæti og hjá Sjálfstæðisflokki vegna ákvörðunar formanns flokksins að hleypa Jóni Gunnarssyni tímabundið inn í matvælaráðuneytið að því er virðist til að hræra í hvalveiðileyfamálinu.

Orðið á götunni er að ekki gangi að láta umræðuna um traust og trúverðugleika einungis snúast um þessa tvo stjórnmálaflokka þegar kjósendur geti rifjað upp vandræðamál Miðflokksins sem öll eru einnig af stærri gerðinni. Nú er svo komið að Klaustursveinarnir, fimm að tölu, eru allir komnir í framboð fyrir Miðflokkinn. Eins og menn muna var sóðalegt röfl þeirra tekið upp og birt opinberlega þar sem þeir sátu að sumbli og þvældu um nafngreinda alþingismenn, einkum konur sem fengu dónalega útreið hjá sumum þeirra. Óhætt er að segja að orðræða þeirra hafi verið fyrir neðan allar hellur og sæmi alls ekki þingmönnum sem kjörnir eru til að setja þjóðinni lög og reglur. Meðal annars um siðferði. Það skal þó tekið fram að þessir menn höfðu sig mjög mismunandi mikið í frammi. Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason skáru sig úr fyrir óviðeigandi talsmáta sem erfitt er að gleyma. Sigmundur Davíð, Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason gengu mun hægar um gleðinnar dyr en tóku þó þátt í þessu ruglaða samkvæmi.

Ekki verður hjá því komist að draga trúverðugleika Klaustursveinanna verulega í efa, enda olli framkoma þeirra víðtækri hneykslun í þjóðfélaginu. Þó að Sigmundur Davíð hafi ekki leikið aðalhlutverk þarna getur hann ekki vikist undan því að hann var heldur betur í aðalhlutverki og varð að segja af sér embætti forsætisráðherra í apríl 2016, þá formaður Framsóknarflokksins, og láta það varaformanni sínum, Sigurði Inga Jóhannssyni, í té. Það leiddi til þess að alþingiskosningum var flýtt frá vori 2017 fram á haustið 2016. Ríkisstjórnin gat því ekki lokið kjörtímabili sínu, ekki frekar en núverandi ríkisstjórn sem hrökklaðist frá í síðasta mánuði. Sigmundur lét af völdum vegna uppljóstrana fjölmiðla í svonefndum Panamamálum, en fjölskylda Sigmundar varð uppvís að því að geyma fjármuni í skattaskjóli sem vissulega er ekki gott fyrir þann sem á að veita þjóðinni leiðsögn og sýna góð fordæmi.

Þá verður ekki hjá því komist að rifja það upp að Sigríður Andersen, sem nýlega gekk í Miðflokkinn og leiðir lista hans í Reykjavík, varð að segja af sér embætti dómsmálaráðherra sem hún gegndi á vegum Sjálfstæðisflokksins. Hún vék þá mjög ósátt, að kröfu Vinstri grænna sem stilltu formanni Sjálfstæðisflokksins upp við vegg. Hann varð að fórna Sigríði sem mörgum þótti ómaklegt. Sannkölluð peðsfórn Bjarna Benediktssonar til að hafa Vinstri græna góða á kostnað Sigríðar. Hún gaf reyndar höggstað á sér með því að skipa flokksmanneskju í dómaraembætti í stað þess að velja þann hæfasta. Slíkt þykir víst ekki gott í ríkjum sem halda því fram að þau séu ekki bananalýðveldi.

Orðið á götunni er að Sigríði verði velt upp úr þessum atburðum í kosningabaráttunni en hún er næsta örugg um þingsæti og ekki þyrfti að koma á óvart að hún hreppti ráðherrastöðu komist Miðflokkurinn í ríkisstjórn. Hver veit nema hún verði dómsmálaráðherra að nýju. Það yrði persónulegur sigur af stærri gerðinni og mikið högg í andlit formanns Sjálfstæðisflokksins.

Orðið á götunni er að vegna þeirrar miklu umræðu sem hefur skapast um trúverðugleika og traust verðandi þingmanna muni Miðflokkurinn ekki komast hjá því frekar en aðrir að verða gegnumlýstur og þá muni sitthvað óheppilegt fljóta upp kjósendum til umhugsunar. Sex ára gamalt Klausturmál muni hafa afleiðingar, því miður fyrir Klaustursveina Miðflokksins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt