fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Eyjan
Miðvikudaginn 20. nóvember 2024 06:06

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjörtur J. Guðmundsson, sem titlar sig „Sagnfræðing og alþjóðastjórnmálafræðing (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)“, sennilega lengsti titill á Íslandi – ekki endilega gæðamerki – birti í síðustu viku grein á Vísi með fyrirsögninni

„Verðbólga í boði Viðreisnar“

Hjörtur hefur ýmislegt frá sér sent sem illa stenzt það sem satt er og rétt og heggur hann hér í sama knérunn. Illþyrmilega. Í raun er með ólíkindum hvað drengurinn leyfir sér að bera á borð fyrir ágæta lesendur  Vísis, líka oft Mogga, og nú kjósendur. Á Mogga skrifar hann mikið á leiðaraopnu, virðist dálætisdrengur Davíðs Oddssonar. Sækjast sér um líkir.

Hvar er virðingin við lesendur, svo að ekki sé talað um sjálfsvirðinguna, má spyrja þegar nefnd grein Hjartar er lesin?

Hvernig í ósköpunum á Viðreisn, með 1 mann í borgarstjórn af 23 og 5 á þingi, í stjórnaraðstöðu – ekki í ríkisstjórn, án ráðherra – að bera ábyrgð á verðbólgunni á Íslandi!?

Ég verð bara að segja, Hjörtur J., þú mættir skammast þín fyrir svona ómerkilegan málflutning því þú veizt auðvitað miklu betur.

Sök Viðreisnar á annars vegar að vera sú, að borgarstjórn Reykjavíkur hafi úthlutað of fáum lóðum síðustu árin og að það hafi leitt til lóðarskorts, sem aftur hafi leitt til verðbólgu.

Um lóðaúthlutanir Reykjavíkurborgar má eflaust deila, hvort hér hafi verið staðið vel að verki eða ekki, en í borgarstjórn eru 23 fulltrúar, þar af á Viðreisn 1.

Skyldi einhverjum öðrum en Hirti J. detta í hug og reyna að fullyrða að þessi eini fulltrúi Viðreisnar af 23 skuli ráða þar öllu um lóðaframboð!?? Er hægt að kalla þetta annað en rugl á háu stigi!?

Það er auðvitað margt annað, sem hefur tafið fyrir byggingu húsnæðis í Reykjavík og annars staðar, en lóðaframboð. Margir hafa fengið lóðir, hefðu getað byggt en treystu sér ekki í það vegna okurvaxta Seðlabanka og ríkisstjórnar. Dæmi eru um að lóðir sem búið var að úthluta hafi staðið í ónýttar árum saman vegna vangetu byggingarverktaka til framkvæmda.

Hins vegar fullyrðir Hjörtur J. að verðbólgan hér sé innflutt frá Evrópu, frá Evrópusambandinu, og að Viðreisn beri ábyrgð á því!!?? Verðbólga í evrulöndunum 26 var í september 1,7%, á Íslandi er hún 5,1%. Hvernig geta Íslendingar þá verið að flytja inn verðbólgu frá Evrópu og þó að svo hefði verið, sem ekki er, hvernig gæti Viðreisn borið ábyrgð á því?

Verðbólgan var hærri í Evrópu fyrir 1-2 árum. Það gerðist í framhaldi af árás Pútíns á Úkraínu – skyldi Viðreisn hafa stjórnað henni – og þeim viðbrögðum vestrænna ríkja að hætta þá sem mest viðskiptum við Rússland með olíu og gas.

Það bar brátt að og leiddi tímabundið til verulegra hækkana á olíu, bensíni og gasi, sem aftur kynnti upp verðbólguna meðan Evrópa var að finna sér nýja orkubirgja, m.a. Noreg, en það er nú allt mest afstaðið.

Verðbólga í evrulöndum var í september, sem sagt, 1,7% og 2,1% í öllu Evrópusambandinu.

Hjörtur J. er einn þeirra sem veit ýmislegt vel en hagræðir því sínum málflutningi til stuðnings, bútar í sundur, endurraðar, umbreytir og rangfærir í trausti þess að lesendur viti lítið um málið og trúi honum.

Fyrir mér ljótur leikur, en ég hygg að margur lesandinn/kjósandinn sé betur að sér en Hjörtur heldur, sjái í gegnum þennan ljóta leik og átti sig á hvað satt er og rétt. „Fake News“, „Fake Stories“, eru, hvað sem því líður, eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra