Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 0,5 prósentustig, meginvextir bankans á sjö daga bundnum innlánum fara því niður úr 9% í 8,5%. Margir hafa fagnað þessu mikilvæga skrefi en Gunnar Smári Egilsson, frambjóðandi Sósíalistaflokksins, bendir á að peningastefnan sé í raun skjaldborg um auð hinna ríku.
Hann útskýrir mál sitt í færslu hjá Sósíalistaflokknum á Facebook:
„Verðbólga utan húsnæðis var 2,8% síðustu tólf mánuði. Seðlabankinn var að lækka stýrivexti í 8,5%. Þau sem eiga peninga geta því fengið 5,5% raunvexti á auð sinn, bara af stýrivöxtum. Þetta er heimsmet. Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa og á Íslandi. Raunvextir íbúðalána eru líklega um 8,5% sem engin fjölskylda stendur undir. Stefnan er því skjaldborg utan um auðinn en niðurbrot á fjárhagslegu öryggi heimila. Þið búið í þannig samfélagi.“
Aðrir taka undir með Gunnari í athugasemdum. Einn bendir á að í Svíþjóð hafi hægri flokkar ekki vogað sér að bjóða almenningi upp á „slíka svívirðu. Þar hafi raunvextir verið neikvæðir í um áratug sem þýðir að fjármagnseigendur séu þátttakendur í samfélaginu og taki þar með verðbólgu og stýrivexti á herðar sér eins og aðrir. Hér á Íslandi þurfi bara almenningur að gjalda fyrir verðbólguna á meðan fjármagnseigendur eru í skjóli. Við það bætir annar að fjármagnstekjuskattur í Svíþjóð sé um 30%.
Ein skrifar reið: „Þetta er orðið samfélag hinna ríku, hinir mega éta það sem úti frýs. Mjög ógeðfellt“, en við þessu fékk viðkomandi svarið að landsmenn geti kosið breytingar þann 30. nóvember.