fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Samfylkingin slaufaði Þórði – hvað gerir Sjálfstæðisflokkurinn við Jón Gunnarsson?

Eyjan
Þriðjudaginn 19. nóvember 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins ekur sér af gleði yfir örlögum Þórðar Snæs Júlíussonar og Samfylkingarinnar vegna klúðursins sem framboð Þórðar reyndist vera. Hann varð uppvís að skrifum á netinu sem voru bæði dónaleg, ljót og báru vott um stæka kvenfyrirlitningu. Ekki er slíkt til að hjálpa þegar komið er út í kosningabaráttu. Ljótt innræti Þórðar var afhjúpað og Samfylkingin sá ekki annan kost en ýta honum út af listanum sem þó getur ekki tekið gildi formlega fyrr en eftir kosningar þegar hann mun segja sig frá þingmennsku hljóti hann kosningu.

Orðið á götunni er að öll athyglin sem mál Þórðar fékk í síðustu viku hafi tímabundið beint athygli frá Jóni Gunnarssyni sem mikill styr hefur staðið um vegna þeirrar ákvörðunar formanns Sjálfstæðisflokksins að staðsetja hann tímabundið í matvælaráðuneytinu sem aðstoðarmann sinn. Erlent njósnafyrirtæki náði upplýsingum frá syni hans sem fullyrti að Jón ætlaði að vinna að því fyrir Bjarna Benediktsson að gefa út veiðileyfi til fimm ára til hvaladráps fyrir Hval hf. og vin þeirra beggja, Kristján Loftsson.

Þegar mál Þórðar er út af borðinu hlýtur athyglin að beinast að Jóni Gunnarssyni að nýju því að upplýsingarnar sem fengust hjá syni hans og hafa verið birtar eftir upptökum í Heimildinni eru með þeim hætti að við blasir grímulaus spilling og áform um að misnota takmarkaðar heimildir í þröngum tímaramma til að gefa út veiðileyfi til Hvals hf. Jón Gunnarsson tók sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi og skipar 5. sætir sem verður fráleitt þingsæti ef marka má allar skoðanakannanir um þessar mundir. Jón þykir samt ekki skreyta listann eftir þær afhjúpanir sem birtar hafa verið og eru hafðar beint eftir 46 ára gömlum syni hans. Hann er fullorðinn maður sem hlýtur að vita hvað hann segir. Orðið á götunni er að flokknum sé engin þægð í nærveru Jóna á framboðslistanum.

Orðið á götunni er að í ljósi þess hversu snöggur Sjálfstæðisflokkurinn var að víkja manni sem eftirlýstur var í Póllandi af framboðslista sínum í Reykjavík norður sé þess nú beðið með nokkurri eftirvæntingu hvernig flokkurinn taki á máli Jóns. Vitaskuld megi svo setja sjálfan formanninn undir sama hatt og Jón vegna þess að hann hafi að sönnu verið lykilþátttakandi í plottinu um að umboðslaus starfsstjórn skaffaði Hval hf. langtíma hvaladrápsleyfi.

Mikill vandræðagangur var út af máli Þórðar Snæs innan Samfylkingarinnar og orðið á götunni er að framganga Kristrúnar Frostadóttur formanns hafi verið heldur klaufaleg og bera vott um reynsluleysi og jafnvel dómgreindarleysi. Það er í annað skiptið á stuttum tíma sem hún gerir mistök sem kosta flokk hennar eitthvert fylgistap. Þá er vísað til þeirrar fáheyrðu framkomu sem hún varð uppvís að gagnvart Degi B. Eggertssyni, frambjóðanda flokksins og fyrrum borgarstjóra, en hún hvatti kjósanda til að strika hann út og fullyrti að hann væri ekki ráðherraefni flokksins, raunar yrði hann í algeru aukahlutverki á Alþingi. Önnur eins framkoma formanns stjórnmálaflokks hefur ekki sést áður á Íslandi.

Orðið á götunni er að Þórður Snær Júlíusson hafi alls ekki ætlað að víkja af lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Honum var sagt upp störfum hjá Heimildinni í ágúst síðastliðnum eftir átök, valdabaráttu, innan miðilsins þar sem hann og Helgi Seljan biðu lægri hlut og var Þórði sagt upp í kjölfarið. Enginn fjölmiðill hefur viljað ráða Þórð Snæ til starfa, ekki einu sinni RÚV sem jafnan stendur þó opið fyrir hörðum sósíalistum eins og Þórður er. Að komast á þing var hreint atvinnudæmi fyrir hann eftir brottvísunina frá Heimildinni en mánaðarlaun þingmanna eru ekki undir 1,5 milljón króna þannig að eftir nokkru er að slægjast fyrir atvinnulaust fólk!

Helsti stuðningsmaður Þórðar, bæði innan stjórnar Heimildarinnar og innan Samfylkingarinnar, hefur verið Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir, sem eitt sinn var ritari Samfylkingarinnar. Hann varð undir á báðum stöðum í þeirri viðleitni að standa með vini sínum Þórði Snæ. Það virðist ekki hafa verið nógu góður málstaður til að styðja þó Vilhjálmur muni ekki hafa dregið neitt af sér í viðleitni sinni til að tryggja stöðu Þórðar. Úr varð hálfgerður stormur í tebolla – eða kannski fellibylur í fingurbjörg?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt