Þrumuræða Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, frá málþingi SÁÁ í byrjun mánaðar hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum. Bara á TikTok hafa rúmlega 44 þúsund horft á myndband af ræðunni.
Inga talar þarna af miklum tilfinningahita um málefni sem stendur henni nærri, fíknisjúkdóma og stöðu þeirra sem þurfa að berjast við kerfið til að fá aðstoð sem alltof oft berst ekki fyrr en það er um seinann. Sjálf hefur hún þurft að berjast við kerfið fyrir maka með áfengisfíkn og fyrir börn sín sem glíma við þennan „ógeðslega sjúkdóm“ eins og Inga kallar hann.
Inga segir í ræðu sinni:
„Það er algjörlega ólíðandi að í okkar ríka landi skuli fólk deyja á biðlistum eftir hjálp og það er ólíðandi, í okkar ríka landi, að stjórnvöld um áratugaskeið hafi sýnt fordóma og fávisku gagnvart einhverjum alvarlegasta sjúkdómi sem heimsbyggðin er að glíma við í dag.
Maðurinn minn er alkóhólisti, ég á tvö börn sem eru að glíma við þennan sjúkdóm. Þetta er ógeðslegur sjúkdómur og það verður að viðurkenna hann sem slíkan. Og börnin okkar, unga fólkið og allir eiga rétt á því að fá þá hjálp sem að þarfir þeirra krefjast. Þau eiga rétt á því þegar þau hafa farið í langtímameðferð að samfélagið taki utan um þau.
Ég hef verið með barnið mitt í fanginu sem hefur reynt að svipta sig lífi. Ég hef þurft að ganga á milli meðferðarstofnana, maðurinn minn er með Parkinson, og horfa upp á sjúkdóminn versna, út af því hversu ofboðslega mikill fjölskyldusjúkdómur þetta er.
Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu og gera þetta með stæl. Það á ENGINN að þurfa að vera á bið. Það á ENGINN að deyja á biðlista. Og það á ENGINN að voga sér að tala um hvað við séum rík og frábær þjóð þegar hundruðir einstaklinga deyja hér á biðlista á hverju einasta ári. Þannig að það vita það allir hvað ég brenn fyrir þessum málaflokki. Og það mun ekki breytast.“
@flokkurfolksins Burt með biðlista! Inga með þrumuræðu á málþingi SÁÁ #islensktiktok #islenskt ♬ original sound – Flokkur fólksins