fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Diljá Mist hæðist að Miðflokksmönnum – „Það borgar sig að mæta í vinnuna“

Eyjan
Mánudaginn 18. nóvember 2024 13:43

Diljá Mist Einarsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Síðasti þingfundur fyrir kosningar var á Alþingi í dag. Raunar voru þrír þingfundir með stuttu millibili. Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins var á meðal viðstaddra en það virðist ekki hafa átt við um alla þingmenn og á Facebook-síðu sinni hæðist Diljá að tveggja manna þingflokki Miðflokksins fyrir að annars vegar mæta ekki og hins vegar fyrir að hafa bersýnilega fylgst illa með þingstörfunum undanfarið:

„Í dag var 50% mæting hjá þingflokki Miðflokks í þingstörf, sem er vel yfir meðaltali. Þar notaði þingmaður þeirra tækifærið og skammaði mig fyrir afgreiðslu efnahags- og viðskiptanefndar við að hækka álögur á jarðefnaeldsneyti. Þingmenn Miðflokks hafa lítið tekið þátt í þingstörfum undanfarnar vikur (og reyndar almennt) og hafa því greinilega misst af því að við vísuðum þar frá kílómetragjaldsmálinu og lækkuðum fyrirhugaðar álögur á eldsneyti um helming. Það borgar sig að mæta í vinnuna.“

Fylgdist hann með?

Þarna er Diljá Mist væntanlega að vísa í ræðu Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins sem sagði:

„Virðulegur forseti. Hér kemur eins og skrattinn úr sauðarleggnum gríðarlega mikil hækkun á kolefnisgjöldum sem ekki var gert ráð fyrir þegar málið var lagt fram í byrjun, sem sagt bandormurinn. Bara til að halda því til haga þá endar gjald sem upphaflega stóð í 13,45 kr. í 21,40 eftir þessa breytingu. Gjald sem stóð í 11,70 endar í 18,60 og svona koll af kolli. Þetta er auðvitað gríðarlega mikil hækkun og kaldhæðnislegt að þetta sé lausnin til að bregðast við mögulegu fýlukasti hæstvirts  fjármálaráðherra vegna afgreiðslu á kílómetragjaldi. En það er ágætt að það liggi fyrir að háttvirtur þingmaður Diljá Mist Einarsdóttir leiði þetta hér inn í þingsalinn.“

Bergþór virðist gagnstætt því sem Diljá Mist fullyrðir, hafa verið meðvitaður um að umdeildu frumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar um kílómetragjald hafi verið slegið á frest en á þingfundi síðastliðinn föstudag var niðurstaðan að vísa því aftur til ríkisstjórnarinnar.

Í síðustu viku lagði meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar til að í ljósi að ekki yrði af frumvarpi um kílómetragjald að kolefnisgjald yrði hækkað um 2,5, prósent.

Þingmennirnir vísa ekki í tilteknar greinar í þessum bandormi ( breyting á ýmsum lögum, innsk. DV) en allar breytingartillögur meirihluta efnahags og viðskiptanefndar um hækkanir á gjöldum á eldsneyti voru samþykktar síðasta föstudag. Það verður því ekki betur séð en að það sé rétt hjá Diljá Mist að þessar hækkanir hafi ekki átt að koma Bergþóri á óvart í dag.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt