Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að undanþága kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum brjóti gegn stjórnarskrá. Þar með hafi undanþágan ekki lagagildi. Dómurinn rakti að þegar frumvarpið þar sem þessa undanþágu mátti finna hafi fyrst verið lagt fram í nóvember 2023. Síðan fór það til meðferðar hjá atvinnuveganefnd en þegar frumvarpið kom þaðan höfðu verið gerðar svo miklar breytingar að í raun væri um nýtt frumvarp að ræða enda átti það fátt sameiginlegt með upprunalegu skjali annað en þingmálsnúmer og heiti. Þar með hafi ekki verið fullnægt skilyrðum stjórnarskrár um að frumvarp skuli rætt í minnst þremur umræðum áður en það er lögfest.
Margir höfðu séð þessa niðurstöðu í hendi sér, enda var frumvarpið harðlega gagnrýnt. Lögmaðurinn Sveinn Andri Sveinsson skrifar á Facebook að hér sé um enn eitt dæmið að ræða þar sem Sjálfstæðisflokkur sýnir sitt raunverulega andlit.
„Það er alveg sama hvað Sjálfstæðisflokkurinn básúnar í myndböndum og flottri grafík um atvinnufrelsi eða hagsmuni neytenda. Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins:
Þvert á ákvæði stjórnarskrárinnar og þrátt fyrir viðvaranir annarra þingmanna, þ.á m. Viðreisnar, tróðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, í samstarfi við Framsókn og VG, viðbótarákvæði á síðustu stundu í búvörulögin, þar sem skjólstæðingar ríkisstjórnarflokkanna í búvöruframleiðslu voru undanþegnir samkeppnislögum.
Þeir þingmenn sem tóku þátt í þessu svínaríi ættu að sjá sóma sinn í því að láta öðrum um að taka sæti á þingi.“
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, minnir á að Píratar hafi krafist frávísunar á frumvarpinu og bent á að svo víðtækar breytingar hefðu verið gerðar á því í meðför atvinnuveganefndar að hefja æti umræðu ferlið að nýju. Meirihlutinn ásamt Miðflokki hafi fellt frávísunartillöguna:
„Þórhildur Sunna Ævarsdóttir fyrir hönd okkar Pírata lagði fram frávísunartillögu þegar búvörulögin voru samþykkt. Í ræðu sinni sagði hún meðal annars: ,,Hér er um það eðlismiklar breytingar að ræða að rétt væri að frumvarpið færi aftur í gegnum þrjár umræður. Því ætti með réttu að vísa þessu máli aftur til ríkisstjórnarinnar til þess að það geti farið í almennilegt samráð“
Framsókn, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri grænir og Miðflokkurinn felldu tillögu Sunnu og samþykktu svo þetta brot á stjórnarskrá. Vinnubrögð skipta máli. Að bera virðingu fyrir lýðræðislegum ferlum, þingsköpum og stjórnarskrá skiptir máli. Píratar vinna faglega og ávallt að hagsmunum almennings. Við förum ekki á svig við grunnreglur lýðræðisins til að þjóna sérhagsmunum.“
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir að fólk hefði betur hlustað á Pírata þegar lögin voru samþykkt:
„Það er orðið pínu þreytandi hversu oft „told you so“ er orðin raunin vegna þessarar ríkisstjórnar. Enn og aftur skaði vegna yfirgangssemi og ólýðræðislegra starfshátta.
Pælið í því, bara ef það væri hlustað aðeins. Þá væri þetta allt miklu betur gert.
Þetta er eitt af því sem þarf að gera öðruvísi en áður. Kjóstu Pírata fyrir betra lýðræði.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, minnir sjálf á frávísunartillögu sína. Hún hafi varað við nákvæmlega því að um stjórnarskrárbrot væri að ræða.
„Áður en búvörulögin voru samþykkt lagði ég til frávísunartillögu fyrir hönd okkar Píratar (ef) og varaði við nákvæmlega þessu stjórnarskrárbroti. Þá sagði ég: ,,Hér er um það eðlismiklar breytingar að ræða að rétt væri að frumvarpið færi aftur í gegnum þrjár umræður. Því ætti með réttu að vísa þessu máli aftur til ríkisstjórnarinnar til þess að það geti farið í almennilegt samráð“
Framsókn, Sjálfstæðisflokkur, Vinstri grænir og Miðflokkurinn felldu tillöguna og samþykktu svo þetta brot á stjórnarskrá.
Vinnubrögð skipta máli. Að bera virðingu fyrir lýðræðislegum ferlum, þingsköpum og stjórnarskrá skiptir máli. Píratar vinna faglega og ávallt að hagsmunum almennings. Við förum ekki á svig við grunnreglur lýðræðisins til að þjóna sérhagsmunum.“
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og frambjóðandi Flokks fólksins, segir að það hljóti nú alltaf að vera stórfrétt þegar Alþingi brýtur gegn stjórnarskrá. VR og Neytendasamtökin hafi stutt við málsókn í þessu máli sem sé áfellisdóttur yfir vinnubrögðum Alþingis.
„Það hlýtur að vera stórfrétt þegar Alþingi brýtur gegn stjórnarskrá.
Að láta verkin tala þegar barist er gegn spillingu. Ég er því afar stoltur af þessari niðurstöðu.
VR og Neytendasamtökin studdu við þessa málsókn. „Þessi dómur er áfellisdómur yfir vinnubrögðum Alþingis en sýnir svart á hvítu að hagsmunaðilar geta ekki komið bakdyramegin að lagasetningu þingsins,“ segir Halla Gunnarsdóttir, varaformaður VR og starfandi formaður. „Það er mikilvægt að Samkeppniseftirlitið taki sameiningar kjötafurðarstöðva til tafarlausrar skoðunar til hagsbóta fyrir neytendur og að Alþingi læri af þessu,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.“
Pawel Bartoszek, frambjóðandi Viðreisnar, skrifar: „Ríkisstjórnin 2021-2024 kveður með okkur með 60 milljarða halla á fjárlögum og dómi um að þau hafi brotið stjórnarskrá við lagasetningu. Takk í bili.“