fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Vandamál okkar eru léttvæg

Eyjan
Sunnudaginn 17. nóvember 2024 14:00

Prómeþeifur í fjötrum, verk flæmska málarans Peter Paul Rubens frá árunum 1612 – 1618. Verkið er varðveitt í Palais des Beaux-Arts í Lille í Frakklandi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í kosningabaráttu er vaninn að ráðandi öfl leggi verk sín í dóm kjósenda og haldi þá á lofti þeim baráttumálum sem þau telja sig hafa náð fram á líðandi kjörtímabili. Á slíku örlar vart nú í aðdraganda alþingiskosninga, fráfarandi ríkisstjórnarflokkar fengu það litlu áorkað af helstu hugðarefnum að þeir telja vænlegast að tala um eitthvað allt annað í kosningabaráttunni og lái þeim hver sem vill. Enda sem þungu fargi væri af þjóðinni létt þegar Bjarni Benediktsson tilkynnti endalok skammlífs annars ráðuneytis síns, framhald alltof langlífrar samstjórnar sömu flokka. Sá bölmóður sem ég skynjaði í þjóðfélaginu var staðfestur í könnunum; við blasti að ýmis vandasömustu úrlausnarefni þjóðfélagsins yrðu ekki leyst í tíð stjórnarinnar, þar sem hver höndin var upp á móti annarri, og vandamálin þá enn um hríð látin reka á reiðanum.  

Hvers vegna þarf réttlátur maður að þjást? 

Þetta er svo sem ekkert nýtt og því má halda fram að flest vandræði Íslendinga umliðna áratugi hafi verið sjálfskaparvíti. Við getum heimfært það upp á líf einstaklingsins, hver er sinnar gæfu smiður og menn uppskera svo sem þeir sá. Vandkvæði geta þó einnig stafað af óviðráðanleg ytri atvikum og maðurinn, jafnt sem heilu þjóðfélögin, glímt við óbærilega þjáningu án þess að hafa á nokkurn hátt til þess unnið. Um þetta fjallar Jobsbók en kjarni hennar er sú knýjandi spurning hvers vegna réttlátur maður þjáist. 

Hvert áfallið eftir annað dynur á Job. Hann glatar ættmennum sínum, fjármunum og heilsu, en er þess óafvitandi að hörmungarnar höfðu þann tilgang að reyna guðhræðslu hans og réttsýni. Angist Jobs er óskapleg: „Ég vildi að Guði þóknaðist að merja mig sundur, / rétta út höndina og skera lífsþráð minn sundur!“ En þrátt fyrir kvalræðið snýr hann ekki baki við Guði sínum. Hann vill þó ekki iðrast synda sem hann hefur ekki sér vitandi drýgt — refsing geti þá aðeins verið réttlætanleg séu reglur þeim skýrar sem brotið hefur gegn þeim. Job glímir við þá spurningu hvers vegna sá þjáist sem ekki hefur til þess unnið. 

Píslarvætti Prómeþeifs 

Fyrir viku gerði ég hér að umtalsefni Óresteiu Æskýlosar, eina harmleik skáldsins sem varðveist hefur í fullri lengd. Hlutar fleiri verka hafa þó varðveist, en þar á meðal er Prómeþeifur fjötraður, sem líkt og Óresteia byggir á arfhelgum goðsögnum, þar sem oft má kenna einkenni jarðneskrar tilveru — goðsagan virðist vera leið dauðlegra manna til sjálfsskilnings. Þar má sjá ýmis líkindi við kvalræði Jobs en ef til vill er þó fleira sem skilur á milli. 

Prómeþeifur þýðir hinn forvitri. Hann var af ætt Títana er lotið höfðu í lægra haldi fyrir hinum unga Seifi en Prómeþeifur hafði snúist á sveif með hinum nýja guði. Prómeþeifur sá aumur á mannkyni og kenndi því að brjóta land til akuryrkju, temja uxa fyrir plóg, nýta sér jurtir í lækningaskyni og ekki nóg með það heldur færði hann þeim stafróf. Höfuðsök Prómeþeifs var þó að ræna eldinum en af honum eru framfarir mannkyns sprottnar. Í refsingarskyni var Prómeþeifur fluttur til útjaðars heimsins þar sem á hann var lagður fjötur og kroppar örn lifur hans án afláts. Í goðsögunni kemur Herakles fram að lokum og leysir fjötrana af Prómeþeifi, en sá hluti sögunnar er í glötuðum hlutum verks Æskýlosar. 

Í leit að sjálfsskilningi 

Sigurður A. Magnússon rithöfundur bar saman þessi tvö meistaraverk menningarsögunnar, Jobsbók og Prómeþeif fjötraðan, í grein sem birtist í hausthefti Skírnis 1993 og velti um leið upp muninum á Grikkjum og Gyðingum. Hinir fyrrnefndu hafi verið hugsæismenn en síðarnefndu raunsæismenn. Fyrir Grikkjum hefði ekkert verið ógerlegt eða óhugsanlegt — enda höfðu þeir unnið sigur á mesta herveldi heims, þar sem var við ofurefli að etja. Jobsbók ætti þó margt skylt með grísku harmleikjunum, þar væri lýst „linnulausri leit einlægs og heiðarlegs manns að tilgangi bölsins“.  

Sigurður bætti því við að í harmleikjunum grísku birtist barátta milli hugsæis og raunsæis. Kórinn í verkunum hvetji hetjuna óaflátanlega til gætni en allt komi fyrir ekki. Því megi velta upp hvort Prómeþeifur sé táknmynd hins óttalausa manns sem geti með hugdirfsku og þrautseigju við áraunir orðið ósigrandi, en sjálfur hafði Æskýlos barist við Persa á Maraþonsvöllum. Sigurður bætir því við að harmleikurinn lýsi „leit einstaklings að sjálfsþekkingu sem einungis fáist fyrir mikla þjáningu“. 

Hinir sjálfsköpuðu erfiðleikar hér í okkar samtíma eru hjóm eitt í samanburði við margvíslegar píslir sem heilu þjóðirnar mega þola — án þess að hafa neitt til saka unnið. En til að standast þvílíkar áraunir þarf óvenjulegan siðferðisstyrk og áleitin spurning hversu vel takist til við að rækta í fólki slíkan styrk á tímum þegar menn barma sér öllum stundum yfir léttvægum og auðleystum vandkvæðum, almennir borgarar jafnt sem forystumenn þjóðarinnar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!