Maskína birti nýja könnun á fylgi flokkanna í dag ásamt áhugaverðri sundurliðun þar sem má sjá hvernig flokkarnir eru að höfða til ólíkra hópa. Hér verður því rýnt nánar í tölurnar og minnt á að reglan um 5% fylgi gildir helst um úthlutun jöfnunarsæta en útilokar ekki að flokkur sem mælist undir 5% á landsvísu fái inn kjördæmakjörna þingmenn.
Vekur þar helst athygli að Sjálfstæðisflokkurinn virðist ná gífurlega illa til landsmanna sem tilheyra tekjulægsta hópnum, eða sem hafa laun lægri en 550 þúsund á mánuði. Þar mælist flokkurinn með aðeins 3,8%. Flokkurinn nýtur aðeins betra fylgis meðal næsta tekjuhóps, með 550-799 þúsund á mánuði en þar mælist fylgið 8%. Eins mælist flokkurinn með nokkuð lítið fylgi meðal landsmanna sem aðeins hafa lokið skyldunámi, eða 7,1%. Hvað varðar skiptingu hópa eftir búsetu þá nær flokkurinn best til kjósenda á Suðurlandi og Reykjanesi þar sem hann mælist með 18,5% en verst nær hann til Norðurlands þar sem hann mælist með 7,8% og svo Vesturlands og Vestfjarða þar sem fylgið mælist 7,9%.
Flokkur fólksins virðist höfða best til tekjulægasta hópsins og mælist þar með 23,6%. Flokkurinn höfðar minnst til tekjuhæstu landsmanna, þeirra sem hafa 1,6 milljón á mánuði eða meira, þar mælist flokkurinn með 2,9%. Eins höfðar flokkurinn meira til landsbyggðarinnar heldur en höfuðborgarsvæðisins. Í Reykjavík mælist hann með 8% og 7,9% hjá nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Flokkurinn mælist svo með 12,8% á Suðurlandi og Reykjanesi og 12,3% á Norðurlandi. Hvað varðar skiptingu hópa eftir menntun mælist flokkurinn stærstur meðal þeirra sem lokið hafa grunnskólaprófi, eða 20,5% en lægst meðal þeirra sem hafa lokið háskólaprófi, eða 2,5%.
Þegar horft er á Framsókn mælist flokkurinn heilt yfir með 7,3% en þetta segir ekki alla söguna. Flokkurinn er stærstur allra flokka á Norðurlandi þar sem hann mælist með 18,8% en nýtur töluverðra óvinsælda í Reykjavík þar sem fylgið mælist aðeins 3,1%. Framsókn höfðar helst til tekjuhópsins sem er með laun á bilinu milljón til 1.199 þúsund á mánuði en þar mælist fylgið 12,6%.
Vinstri Græn eru í kröppum dans á landsvísu og mælist fylgið heilt yfir 3,4%. Flokkurinn nýtur mestu vinsældanna á Norðurlandi þar sem fylgið mælist 5,4% en lægst mælist það á Austurlandi, 1,2%.
Miðflokkurinn mælist í heildina með 12,6% en marktækur munur er á fylginu hvað varðar kynjaskiptingu. Flokkurinn mælist með 16,7% meðal karlmanna en aðeins 8,1 prósent meðal kvenna. Hvað varðar aldursskiptingu höfðar Miðflokkurinn síst til ungra kjósenda en hann mælist með 6,9% meðal kjósenda á aldrinum 18-29 ára. Best mælist hann meðal kjósenda sem eru 60 ára og eldri þar sem fylgið nemur 16%. Hvað varðar menntunarstig er Miðflokkurinn vinsælli meðal þeirra sem eru iðnmenntaðir eða með framhaldsskólapróf, þar er fylgið 16,9 prósent en mælist aðeins 7,2% meðal háskólamenntaðra. Fylgið dreifist svo nokkuð jafnt eftir tekjuhópum, eini hópurinn sem sker sig úr með áberandi hætti er sá sem er með laun á bilinu 550-799 þúsund á mánuði, en þar mælist fylgið 8,3%.
Hvað Samfylkinguna varðar þá mælist flokkurinn stærstur á landsvísu með 20,1% en virðist höfða síður til íbúa á Norðurlands heldur en annarra landshluta. Þar mælist flokkurinn aðeins með 12,9%. Samfylkingin höfðar helst til háskólagenginna þar sem fylgið mælist 26,4% en nær síður til landsmanna sem aðeins hafa lokið skyldunámi, eða 12,4%.
Viðreisn mælist í heildina með 19,9%. Fylgið dreifist nokkuð jafnt eftir aldri kjósenda nema hjá landsmönnum sem eru 60 ára og eldri en þar mælist flokkurinn aðeins með 11,1%. Flokkurinn höfðar betur til íbúa á höfuðborgarsvæðinu en til landsbyggðarinnar og mælist lægst hjá kjósendum á Austurlandi þar sem fylgið nemur 11,9%. Viðreisn höfðar best til háskólagenginna, 24,8% en nær þó ágætlega til kjósenda sem lokið hafa grunnskólaprófi, 16,9%.
Sósíalistaflokkurinn hefur verið á nokkru flugi og mælist í heildina með 6,3%. Mestra vinsælda nýtur hann meðal hópa kjósenda sem eru annars vegar með laun á bilinu 550-799 þúsund á mánuði og hins vegar með milljón til 1.199 þúsund á mánuði. Hjá báðum hópum mælist fylgið 10,5%. Mest er fylgi flokksins í Reykjavík þar sem það mælist 7,8% og hvað menntun varðar höfðar flokkurinn helst til þeirra sem lokið hafa grunnskólaprófi en þar mælist fylgið 9,9%. Flokkurinn höfðar minnst til tekjuhæstu kjósenda, en þar mælist fylgið 2,2%.
Píratar hafa misst mikið fylgi samkvæmt skoðanakönnunum og mælast á landsvísu með aðeins 5,1%. Mestra vinsælda nýtur flokkurinn meðal kjósenda á aldrinum 30-39 ára, þar sem hann mælist með 8,9%. Hann mælist best á Norðurlandi þar sem fylgið nemur 5,9% en nær síður til Suðurlands og Reykjaness þar sem fylgið er aðeins 1,3%. Píratar höfða mest til kjósenda með lægstu tekjurnar en þar mælist fylgið 7,4%.
Lýðræðisflokkurinn mælist aðeins með 2,1 prósent á landsvísu en mælist þó með 5% á Suðurlandi og Reykjanesi. Flokkurinn höfðar minnst til kjósenda með laun á bilinu 800-999 þúsund á mánuði en þar nemur fylgið 0,4%.
Ábyrg framtíð mælist best meðal kjósenda á aldrinum 40-49% en jafnvel þar nemur fylgið aðeins 1,1%.