fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Svarthöfði: Þórðargleði

Eyjan
Miðvikudaginn 13. nóvember 2024 18:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Internetið er skrýtin skepna. Stundum finnst þar ekki það sem leitað er að og stundum finnst þar það sem menn vildu síst að finnist og hafa jafnvel reynt að eyða. En internetið leynir á sér og allt í einu vellur fram efni sem flestir óska að aldrei hefði orðið til.

Þessar heimspekilegu vangaveltur bærðu á sér í huga Svarthöfða þegar hann opinmynntur las sig í gegnum rúmlega áratugsgamlar færslur manns sem margt bendir til að sé af öðru sauðahúsi en þorri kynbræðra hans. Skrifin forðum löðra af kvenfyrirlitningu, rembingi og hroka.

Í hópi þeirra sem gagnrýna og leiðbeina samferðamönnum

Nú ræðst tæplega við það að ýmsir hafa sérkennilegar skoðanir og viðra þær, meir að segja án þess að eftirspurn sé til staðar.

Hins vegar þegar fyrir liggur að höfundurinn hefur um árabil sem ritstjóri og álitsgjafi á Ríkisútvarpinu, skipað sér í hóp þeirra sem gagnrýna og leiðbeina samferðamönnum og talið sig hafa löggilta skoðun á flestu mögulegu og ómögulegu, og seilist nú til áhrifa sem kjörinn fulltrúi á Alþingi, þykir Svarthöfða týra, svo varlega sé að orði komist.

Satt að segja sér Svarthöfði ekki betur en sú tilraun sé á hraðri og öruggri leið að mistakast. Þeir sem hafa komið frambjóðandanum til varnar hafa ýmsir haldið því á lofti að um bernskubrek sé að ræða. Grófustu skrifin eru þó mörg hver rituð árið 2007 þegar viðkomandi er 27 ára gamall. Til að setja hlutina í samhengi var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir orðin ráðherra í ríkisstjórn Íslands á þeim aldri.

Önnur og víðari merking

Svo útbreidd er sú tilhneiging að gleðjast yfir óförum annarra að því háttarlagi hefur verið gefið sjálfstætt nafn: Þórðargleði.

Um hana skrifar Þórbergur Þórðarson sem árið 1947 skráði ævisögu sr. Árna Þórarinssonar, prófasts og kom út í sex bindum. Í einu þeirra segir sr. Árni svo frá:

Þórður hét maður og bjó á bæ nokkrum í prestakalli mínu. Einn dag á slætti kom hann út á engjar til fólks síns og fékk þá engu orði upp komið fyrir hlátri: „He-he-he-he; he-he-he-he! Nú er það skemmtilegt hjá þeim Norðlingunum. Ég var að lesa Ísafold. Ekki þornað af strái í allt sumar þar fyrir norðan. Öll hey grotnuð niður. Enginn baggi kominn í hlöðu og nú kominn höfuðdagur.“ Svo hnippir hann í mann, sem hann stóð hjá, og segir ískrandi:

„Skratti væri nú gaman að sjá, hvernig þeir taka sig út núna, greyin. He-he-he-he!“

Svarthöfði sér ekki betur en að á síðasta sólarhring hafi sú nafngift fengið aðra og víðari merkingu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sakar dómsmálaráðherra um spillingu – „Hérna, en síðan hvenær var ríkislögreglustjóri í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum? “

Sakar dómsmálaráðherra um spillingu – „Hérna, en síðan hvenær var ríkislögreglustjóri í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum? “
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Fimmta sætið

Steinunn Ólína skrifar: Fimmta sætið