fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Flokkur liðinna tíma brýst um

Eyjan
Miðvikudaginn 13. nóvember 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á miðopnu Morgunblaðsins í gær birtist grein eftir Guðna Ágústsson til stuðnings hans gamla valdaflokki, Framsóknarflokknum, sem nú mælist með 5,8 prósenta fylgi og fjóra þingmenn í þremur skoðanakönnunum Morgunblaðsins í röð. Sú var tíð að Framsóknarflokkurinn náði fylgi fjórðungs kjósenda og hafði mikil áhrif í landsstjórninni. Það var á þeim tímum þegar Guðni var ungur og efnilegur stjórnmálamaður, fyrir hálfri öld. Svo varð hann öflugur stjórnmálamaður og fylgi flokksins var áfram mikið. En nú er öldin önnur.

Orðið á götunni er að gangi nýjasta skoðanakönnun Morgunblaðsins eftir muni enginn af fjórum ráðherrum Framsóknarflokksins ná endurkjöri til þings. Það er sýnt í sundurgreiningu á fylgi flokksins eftir kjördæmum sem birt er í sama tölublaði og grein Guðna. Það yrði saga til næsta bæjar. En gleymum því ekki að meira en tvær vikur eru til kosninganna.

Hver skyldi vera ástæða þess að fylgi Framsóknar mælist svona lítið í skoðanakönnunum þar sem svo virðist sem kjósendur vilji refsa fráfarandi ráðherrum flokksins með því að fella þá út af Alþingi? Orðið á götunni er að skýringin sé sú að kjósendur dæma flokkinn og forystu hans af verkum sínum í þau sjö ár sem flokkurinn hefur tekið þátt í mistækri vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og síðar Bjarna Benediktssonar.

Í fráfarandi ríkisstjórn hefur fjölmargt farið úrskeiðis. Hér eru nefnd nokkur dæmi: Þannig hafa skuldir ríkissjóðs tvöfaldast, verðbólga hefur verið miklu hærri en í nágrannalöndum, fólk og fyrirtæki hafa mátt búa við okurvexti, kyrrstaða hefur ríkt í orkuframleiðslu sem hefur neikvæð áhrif í atvinnulífinu, Íslendingar eru að missa tökin á innstreymi útlendinga, ríkisbáknið þenst út, opinberum stofnunum fer fjölgandi og sumar þeirra ganga sjálfala, biðlistar lengjast í heilbrigðiskerfinu og stöðnun hefur ríkt í samgöngumálum þar sem formaður Framsóknarflokksins hefur verið í forsvari megnið af sjö árum núverandi vinstri stjórnar. Þeir sem aka um vegi landsins upplifa mikinn skort á viðhaldi vega sem víða eru hættulegir. Er ekki nýjasta vígorð Framsóknarflokksins: HOLAN Í VEGINUM?

Við þessar aðstæður birtir Guðni Ágústsson grein sína sem er ákall um að Sigurður Ingi Jóhannsson leiði næstu ríkisstjórn. Guðni, sá áður ágæti stjórnmálamaður, sanni Íslendingur og þjóðernissinni, virðist vera fastur í gömlum og löngu liðnum tíma. Fólkið í landinu virðist vera á allt öðru máli en hann. Samkvæmt sundurgreiningu Morgunblaðsins á fylgi Framsóknar í nýjustu skoðanakönnun blaðsins fengi flokkurinn um 5 prósent atkvæða í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna, um sjö prósent í Suðurkjördæmi formannsins og einungis rúm tvö prósent í Suðvestur kjördæmi. Þannig fylgi myndi ekki fleyta neinum ráðherranna á þing að nýju. Þeir fjórir þingmenn sem umrædd skoðanakönnun gerir ráð fyrir kæmu allir úr norðurkjördæmunum.

„Minn tími mun koma,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, síðar formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra. Hennar tími kom – og fór svo um munaði.

Orðið á götunni er að nú séu að renna upp þau tímamót að valdatími Framsóknar hafi komið og ríkt um langt skeið en sé nú á enda. Öllum fráfarandi stjórnarflokkum verður nú refsað vegna misheppnaðrar vinstri stjórnar í sjö ár. Það er komið að skuldadögunum og þar verður Framsókn ekki undanskilin þrátt fyrir fagurgala Guðna Ágústssonar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“

Gagnrýna tíðar hækkanir á ofurlaunum borgarfulltrúa – „Af hverju gildir hið sama ekki um örorkubætur“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?

Orðið á götunni: Hvað verður um Framsóknarflokkinn? – Hver tekur við forystunni?