fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Dýr myndi Jón Gunnarsson allur – kvalræði Sjálfstæðisflokksins ætlar engan enda að taka

Eyjan
Þriðjudaginn 12. nóvember 2024 17:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Farsinn í kringum Jón Gunnarsson tekur á sig nýjar myndir daglega. Flokkurinn hans ýtti honum út úr vonarsæti á lista sínum í Kraganum og lét hann víkja fyrir varaformanni flokksins sem lagt hafði á flótta úr kjördæmi sínu í norðvestri eftir að bakland hennar hvarf. Jón reyndist þá ekki nógu stór til að taka tapinu eins og maður. Hann rauk á dyr, fór í fýlu og hafði í hótunum. Orðið á götunni er að formaður flokksins hafi gert sér grein fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn á nú engar pólitískar innstæður til að rísa undir fýluköstum þeirra sem ýtt er úr áhrifastöðum. Hann fór því í að að lempa Jón Gunnarsson sem ljáði máls á því að róa sig gegn hæfilegri þóknun sem skyldi vera sú að hann fengi að ólmast í nokkrar vikur inni í matvælaráðuneytinu, sem er á hendi formanns flokksins tímabundið í starfsstjórn. Það varð úr og samdægurs barst pöntun frá Hval hf. um útgáfu leyfa til hvaladráps í fimm eða tíu ár.

Orðið á götunni er að hvalveiðiblæti Sjálfstæðisflokksins og dekrið í kringum Jón Gunnarsson geti orðið flokknum dýrkeypt í komandi kosningum og bætist ofan á aðrar hremmingar, en flokkurinn mældist í nýrri skoðanakönnun Morgunblaðsins einungis með 12,3 prósenta fylgi sem ætti að skila átta mönnum inn á þing. Nú eru 17 manns í þingflokknum þannig að mannfall yrði gífurlegt gengi þetta eftir. Svo dundi enn eitt áfallið yfir þegar upptökur af einkasamtölum við son Jóns þar sem hann virðist hafa talað af sér um villtustu drauma föður síns í því örstutta verkefni sem hann hefur nú fengið hjá formanni Sjálfstæðisflokksins urðu opinberar. Sonurinn upplýsti að faðir hans ætli sér þá „arfleifð“ að heimila vini sínum, Kristjáni Loftssyni, að hefja að nýju hvaladráp með leyfi ráðuneytisins til margra ára. Ljóst er að Bjarni Benediktsson gæti haft útgáfuna í hendi sér en ekki Jón aðstoðarmaður hans sem virðist eiga að leggja málið upp í hendur ráðherrans. Víst er það gegn öllum venjum, hefðum og siðum að starfsstjórn taki slíkar ákvarðanir, auk þess sem hæfi Bjarna til að hlutast til um hagsmuni Hvals hf. virðist mjög vafasamt vegna eignatengsla fjölskyldu hans við fyrirtækið.

Vont er að erlend hagsmunaöfl kaupi útsendara til að njósna um Íslendinga með því að blekkja fólk og fá það til að tala af sér. Hitt er annað mál að öllu verra er að upp á yfirborðið skuli koma svo hroðalegar upplýsingar eins og þær sem teknar voru upp orðréttar í viðtölum við son Jóns Gunnarssonar um áform föðurins. Orðið á götunni er að vart hafi sonurinn logið upp á föður sinn þeim áformum sem hann lýsti. Heimildin fékk upptökurnar sendar eins og ýmsir aðrir og valdi að birta þær. Það hefur miðillinn gert áður við svipaðar aðstæður án þess að það tengdist neinum stjórnmálaflokkum eða hagsmunasamtökum. Ekki er við öðru að búast en að svo sé einnig núna.

Orðið á götunni er að enginn vilji eða þol sé fyrir því í þjóðfélaginu að starfsstjórn veiti leyfi til hvalveiða eins og Jón Gunnarsson og Kristján vin hans dreymir um. Gangi formaður Sjálfstæðisflokksins svo langt mun hann mála flokk sinn endanlega út í horn og ekki er við öðru að búast en að ný ríkisstjórn myndi umsvifalaust afturkalla slíkt leyfi. Hvalamálið er því ekkert annað en sjálfskapað kvalræði vonsvikins og fallins stjórnmálamanns. Bröltið bitnar hins vegar ekki síst á Sjálfstæðisflokknum. Grátbroslegt er að heyra Jón  tala um þetta klúður sonar síns sem „aðför að lýðræðinu.“ Hvenær varð hann handhafi lýðræðis á Íslandi?

Orðið á götunni er að frammistaða Brynjars Níelssonar í Silfri RÚV í gærkvöldi hafi svo ekki orðið til að bæta stöðuna. Furðu vekur að flokkurinn skyldi tefla Brynjari fram í sjónvarpsþáttinn en hann skipar vonlaust sæti á lista flokksins í Reykjavík norður og var formlega hættur í stjórnmálum fyrir fáum vikum. Hann virðist nú vera afturgenginn í flokknum. Málflutningur Brynjars vegna uppljóstrana í hvalamáli Jóns Gunnarssonar var sá að þetta væri vondu fólki að kenna, reynt var að klína þessu á íslenskan stjórnmálaflokk og svo voru það ljótir fjölmiðlar sem eru alltaf svo vondir við lítilmagnann, Jón Gunnarsson, Kristján Loftsson og fleiri slík góðmenni sem eru ekki í réttum flokkum.

Orðið á götunni er að það fari þessum þjóðþekktu karlrembum illa að máta sig í hlutverk fórnarlamba.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?

Svarthöfði skrifar: Verður offitan Trump ofurefli?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins

Þórður Snær verður framkvæmdastjóri þingflokksins
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Einfeldni í varnarmálum ekki í boði – þurfum að rækta sambandið við Bandaríkin

Þorgerður Katrín: Einfeldni í varnarmálum ekki í boði – þurfum að rækta sambandið við Bandaríkin
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember

Lántaka ríkisins: Hærri vextir á ríkisvíxlum nú en í desember
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra

Katrín tekur við stjórnarformennsku af efnahags- og fjármálaráðherra