Íslendingar búa sig undir að ganga að kjörborðinu 30. nóvember næstkomandi. Aðdragandinn er stuttur að þessu sinni og flokkarnir misvel undirbúnir fyrir kosningaslaginn. Hvað sem því líður er að teiknast upp gróf mynd af áherslumálum flokkanna, sem er efnahagsmál (verðbólga, hátt vaxtastig og ríkisfjármál), húsnæðismál, heilbrigðismál og útlendingamál. Sitthvað fleira er nefnt og auðvitaða tengist þetta allt saman og veltur, þegar allt kemur til alls, á heilbrigðu og öflugu atvinnulífi í víðasta skilningi; atvinnulífi sem býr við viðskiptafrelsi, samkeppni, virðingu fyrir réttindum og greiðum aðgangi að mörkuðum, sem og aðgangi að lánsfé á viðráðanlegum kjörum og sanngjörnu skattkerfi sem geri fyrirtækjum kleift að starfa og skapa verðmæti fyrir þjóðarbúið.
Talandi um efnahagsmál þá eru flokkarnir í yfirstandandi kosningabaráttu, að því er best verður séð, ekki sérlega uppteknir af EES-samningnum þótt ekki sé deilt mikilvægi hans fyrir íslenskt efnahagslíf. Í maí sl. var haldið málþing hér á landi í tilefni af 30 ára afmæli samningsins. Í opnunarávarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra kom fram að aðild Íslands að honum hefði verið mikið heillaspor fyrir þjóðina og að ávinningur Íslands af EES samstarfinu væri ótvíræður. Innri markaður ESB, sem EES-samningurinn veitir Íslandi aðgang að, væri í raun það sem ráðherrann nefndi kjölfestumarkaður fyrir útflutning frá Íslandi. Þá kom fram að aðgangur að innri markaðinum yrði áfram lykillinn að efnahagslegu öryggi Íslands til langframa. Þegar höfð eru í huga réttindi þau sem Íslendingar njóta á grundvelli EES-samningsins og mikilvægi hans fyrir íslenskt efnahagslíf hefði mátt ætla að Íslendingar legðu sig sérstaklega fram um að gæta þessa fjöreggs síns meðal annars með því að gæta að þeim skuldbindingum sem samningnum fylgja. Á þetta skortir hjá sumum stjórnmálamönnum.
Höfum í huga að íslenska ríkið neytir fullveldisréttinda sinna meðal annars með þátttöku í EES-samstarfinu af frjálsum vilja og samkvæmt eigin ákvörðun. Hún er byggð á að þátttaka í samstarfinu sé í þágu hagsmuna íslenskra borgara og annarra þeirra sem hér kjósa að lifa og starfa. Þetta vill gleymast hjá sumum stjórnmálamönnum og er ekki laust við að áskilnaður um fullveldi landsins sé notaður til að ala á tortryggni gagnvart EES-samstarfinu og tala um skuldbindingar sem af honum leiða, eins og um sé að ræða óréttmætan yfirgang og afskipti erlends valds af innanlandsmálum Íslendinga. Litlu breytir þótt reglurnar í raun færi borgurunum, þ.m.t. launþegum, og íslenskum aðilum í atvinnurekstri, aðallega réttindi, þótt auðvitað fylgi því líka vissar skyldur, eins og öllum réttindum. Ég hef áður sagt og endurtek hér að orðræða þessi minnti mig á söguna af Þorgeiri Hávarssyni þegar hann skreið upp úr tjörukagganum og Þórður jómsvíkingur strútharaldssonaskáld spurði hetjuna: „Hví ertu eigi geinginn við öðrum mönnum og ausinn vatni í tjöru stað?“ „Eg em íslenskur maður“, mælti Þorgeir Hávarsson “… og fýsir mig lítt að fara að siðum annarra manna“. (HKL Gerpla 25. kafli).
Lífssýn Þorgeirs Hávarssonar birtist meðal annars í andstöðu við frumvarp sem fyrst var lagt fyrir Alþingi snemma á síðasta ári, en hefur ekki enn hlotið afgreiðslu. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum sem innleiða EES-samninginn til að fullnægja skuldbindingum Íslands samkvæmt bókun 35 við hann og setja reglu sem tryggir skýrum og óskilyrtum lagaákvæðum, sem réttilega innleiða skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum, forgang fram yfir aðrar reglur íslensks réttar. Regla þessi um forgang ESB/EES-reglna er grundvallarregla í rétti sambandsins og EES-samstarfinu og byggir á þeirri einföldu hugsun að forsenda fyrir sameiginlegum markaði á sviði vöruviðskipta, þjónustu, fjármagnsflutninga og vinnuafls sé að sömu reglur gildi alls staðar á honum. Með EES-samningnum og bókun 35 gengust Íslendingar fyrir 30 árum síðan undir þá skuldbindingu að tryggja einmitt þetta. Það hefur ekki verið gert enn þá þrátt fyrir snuprur frá Eftirlitsstofnun EFTA, sem vel að merkja er stofnun sem Íslendingar áttu sjálfir þátt í að setja á fót og eiga fulla aðild að.
Stjórnmálamenn sem tala gegn bókun 35 virðast sumir ekki hafa áttað sig á að grunneðli EES-samningsins er að hann veitir einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri aðild að sameiginlegum markaði ESB og þar með fyrst og fremst réttindi á þessum kjölfestumarkaði Íslendinga þar sem búa um 450 milljónir manna. Gæta þarf þessa fjöreggs sem innri markaður ESB er fyrir Íslendinga og EES-samningurinn tryggir og rísa af heilindum undir þeirri ábyrgð sem því fylgir að fá að vera þar með. Þeir stjórnmálamenn sem ala á tortryggni gagnvart ESS-samningnum, þar með talið bókun 35, tala að mínu viti gegn réttindum Íslendinga samkvæmt honum og þar með íslenskum hagsmunum. Þeir kjósa fremur vist í tjörukagganum með Þorgeiri Hávarssyni.
Höfundur er lagaprófessor við HA.