fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Að vinna bug á skrílmennskunni

Eyjan
Sunnudaginn 10. nóvember 2024 16:30

Helgríma sem Heinrich Schliemann fann í rústum Tróju árið 1876 og er jafnan kennd við Agamemnon konung, hinn frækna herforingja Akkea sem unnu sigur á Tróverjum eftir tíu ára umsátur um borg þeirra. Heimkomnum biðu Agamemnon grimm örlög og um þau fjallar harmleikurinn Óresteia eftir Æskýlos.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jafnvel í svefnsins draumadá
drýpur angist, svo hugans tregða
fyrir hyggindum hörfa skal.
Sem nauðugur sendir herra himins
heilaga náð.

Þessar hendingar eru úr fyrsta þætti Óresteiu (gr. Ὀρέστεια) forngríska leikritaskáldsins Æskýlosar (gr. Αἰσχύλος) í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Líklega eru vísuorðin með þeim kunnari úr forngrískum skáldskap af þeirri ástæðu einni að til þeirra vitnaði Robert F. Kennedy öldungadeildarþingmaður er hann flutti mannfjölda í Indianapolis þá fregn að kvöldi 4. apríl 1968 að prédikarinn Martin Luther King yngri, baráttumaður fyrir réttindum blökkufólks, hefði verið skotinn til bana fáeinum mínútum fyrr í Memphis. Kennedy sóttist á þeim tíma eftir útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins, en þessi ræða kom upp í huga mér í aðdraganda forsetakjörsins vestanhafs sem fram fór í liðinni viku. Tal beggja kandidata nú var með eindæmum lágkúrulegt og ólíklegt að þeim dytti í hug að vitna til dýpstu hugsuða mannsandans, hvað þá að þeir hefðu á hraðbergi hendingar úr grískum harmleikjum.

Á ensku hljóðar textinn sem Kennedy flutti svo í lausu máli: „Even in our sleep, pain which cannot forget falls drop by drop upon the heart until, in our own despair, against our will, comes wisdom through the awful grace of God.“ Framan við þetta bænakall lætur Æskýlos kórinn syngja: „Seifur leiðir dauðlega menn brautina til skilnings,“ eins og dr. Jón Gíslason, fornfræðingur og skólastjóri Verzlunarskólans, þýddi textann. Dr. Jón gat þess í inngangi þýðingar sinnar að Æskýlos tigni himnaguðinn sem réttlátan stjórnanda heimsins. Þó svo að vegir guðs séu órannsakanlegir fái mennirnir að þreifa á handleiðslu hans, réttlæti og visku. Leiðin kunni að reynast torsótt og grýtt — en hún sé leiðin til skilnings á hinum eilífu og algildu siðgæðislögmálum.

Hugsun ljáðir vængi

Grikkir unnu frækinn sigur á Persum við eyjuna Salamis árið 480 fyrir Kristburð. Þeim sigri fylgdi efnahagsleg velsæld og menning blómgaðist, þar með talið leikritun og enn eru sett á svið verk eftir Æskýlos, Sófókles, Evrípídes og Aristófenes, en aðeins agnarlítið brot verka þeirra hefur þó varðveist. Sá fyrstnefndi var uppi á árunum 525–456 og barðist við Persa á Maraþonsvöllum árið 490. Oreisteia Æskýlosar er eini heili þríleikurinn sem varðveist hefur frá blómatíma forngrískrar leikritunar.

Sigurjón Björnsson, prófessor emeritus og þýðandi, var í vikunni sem leið sæmdur franskri heiðursorðu, Chevalier de l’Ordre des Arts et des Lettres, fyrir magnaðar þýðingar sínar á verkum Honoré de Balzac, en Sigurjón hefur líka þýtt úr forngrísku og eitt sinn komst hann svo að orði að sú tunga væri töfrandi fögur og léti engan ósnortinn sem henni kynntist og bætti við: „Kliðmýkt hennar og tjáningarháttur, sveigjanleiki, samræmi, orðgnótt og dýpt er með ólíkindum. Hún ljær hugsun manns vængi og blæs hugarflugi byr í segl.“ Fyrir vikið yrðu þýðingar úr forngrísku „sjaldnast meira en fölur skuggi“. Þýska þjóðskáldið Friedrich Schiller mun hafa komist svo að orði að það væri hámark lífsnautnar að hafa lesið á frummálinu Násíkusönginn í Ódysseifskviðu. Við svo búið væri óhætt að skilja við þennan heim.

Sigurjón telur þó að íslenskan hafi til að bera „mikla yfirburði til þess að koma vel til skila grískum skáldverkum“. Bæði tungumálin séu sagnorðamál og samsetningar orða auðveldar. Málin eigi það líka sammerkt að vera „gagnsæ, hljómmikil og ljóðræn“. Yfir góðri íslensku hvíli „klassísk heiðríkja og tign líkt og í grískunni“. Sveinbjörn Egilsson sýndi þetta vel með þýðingum sínum á Hómerskviðum og blés nýju lífi í íslenskuna. Lærisveinar hans héldu uppi merkinu og ber þar vitaskuld hæst að nefna Jónas Hallgrímsson. Fyrir vikið er íslenskan lifandi mál sem gagnast á öllum sviðum tæknivædds nútímasamfélags. „Með nýsköpun eilífri í norrænu máli / neistarnir kvikna sem verða að báli,“ orti Einar Benediktsson. Frá forngrískum sagnaarfi til sjálfsskilnings Íslendinga á tuttugustu og fyrstu öldinni liggur óslitinn þráður.

Afl hugsunarinnar

Tveimur mánuðum eftir morðið á King hlaut Robert F. Kennedy sömu örlög og ræðan verður enn magnþrungnari sé haft í huga morðið á bróður hans fimm árum fyrr. Og raunar var það mágkona hans, Jacqueline, ekkja forsetans, sem kynnti fyrir honum verk Æskýlosar og fleiri forngrískra skálda. Ljóðlínurnar sem hann las úr Óreisteiu eru fluttar af kór argverskra öldunga í fyrsta hluta þríleiksins, en sá þáttur er kenndur við Agamemnon sem veginn er í kerlaug við heimkomu eftir Trójustríðið. Í lok ræðunnar gat Kennedy annarrar hendingar Æskýlosar; um nauðsyn þess að temja villimennskuna svo skapa mætti fagurt mannlíf. Hér gegnir djúpur málskilningur og söguþekking lykilhlutverki. Spilling tungumálsins er merki hnignandi siðmenningar og mannkynssagan geymir ótal dæmi um stórbrotin menningarríki sem tortímdust á undraskömmum tíma. Þetta minnir á vísuorð Stephans G. Stephanssonar: „Ið greiðasta skeið til að skrílmenna þjóð / er skemmdir á tungunni að vinna. / Frá hugsanaleysi er afturför óð / til apanna bræðrunga sinna.“

Í lok tölu sinnar bað Kennedy tilheyrendur að biðja fyrir þjóðinni og fósturjörðinni. Í kjölfar morðsins á King brutust úr óeirðir vítt og breitt um Bandaríkin þar sem 35 létu lífið og 2500 særðust. Til að skakka leikinn voru kallaðir út um sjötíu þúsund hermenn og þjóðvarðliðar. Aftur á móti ríkti kyrrð og friður í Indianapolis og er það þakkað innblásnum orðum Kennedy öldungadeildarþingmanns. Órækur vitnisburður um mátt orðsins, afl hugsunarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!