fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Ábyrgðarleysi og aumingjaskapur Vinstri grænna – óheilindi og aumingjaskapur sjálfstæðismanna?

Eyjan
Föstudaginn 1. nóvember 2024 08:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Baráttan fyrir hvalveiðibanni hefur verið ofarlega á stefnuskrá Vinstri grænna um langa hríð og er það því sorgleg staðreynd að ekki hefur verið veitt meira af stórhveli, langreyði, síðustu áratugi, en einmitt síðustu 7 árin í stjórnar- og forsætisráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur/Vinstri grænna.

Vinstri grænir hafa nú í 3 ár haft tækifæri til að standa við þetta stefnumark sitt sem þau voru auðvitað að hluta til kosin út á, því sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, nú matvælaráðuneytið, jafn furðuleg og sú nafngift í raun er, hefur verið í þeirra höndum.

Fyrst fór Svandís Svavarsdóttir fyrir þessu ráðuneyti 28.11.21 til 23.01.24, svo sjálf Katrín Jakobsdóttir 23.01.24 til 03.04.24, svo Svandís aftur 03.04.24-09.04.24 og loks tók Bjarkey Olsen við þessu mikilvæga kefli fyrir flokkinn 09.04.24 til 17.10.24.

Í stað þess að standa við þá stefnu sína, að banna frekari hvalveiðar – reyndar þurfti það ekki til, því síðasta hvalveiðileyfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, holl- og klíkuvinar Kristjáns Loftssonar, rann út 2023 – og hefði það því dugað Vinstri grænum einfaldlega að gefa ekki út frekari leyfi.

Þar vantaði þó stefnufestu og styrk, eins og reyndar hefur einkennt Vinstri græna í síðustu stjórnum, þó leiddar væri af formanni þeirra, Katrínu, og hafa ráðherrarnir slegið úr og í án nokkurrar skýrrar línu, sem einfaldlega hefði átt að vera: „Við veitum ekkert nýtt leyfi.“

Fyrir því var og er urmull góðra og gildra raka, meðal annars skýr og afdráttarlaus afstaða Fagráðs um velferð dýra um að veiðar stórhvela samræmist ekki markmiðum laga um velferð dýra og geti það aldrei, en, bein skorti í nef og skýra og afdráttarlausa afstöðu, skv. gamalli og skýrri stefnumörkun, og mátti því helzt líkja handhöfn ráðherranna á málinu við fíflagang með heita kartöflu.

Engu að síður héngu þessir ráðherrar á málinu, settu umsókn Kristjáns Loftssonar um nýtt veiðileyfi aftarlega á merina, eins og gott var, og stóðu því vonir hvala- og dýravina, undirritaður þar meðtalinn, til þess að málið héngi óafgreitt í biðstöðu út kjörtímabilið. Í framhaldinu stóðu vonir til þess að ný ríkisstjórn, sem væri nokkru umhverfis-, dýra- og náttúrverndarsinnaðri en sú sem nú situr tæki við og lokaði þessum umdeilda og ljóta atvinnuvegi, þar sem lífið er murkað úr háþróuðum og fágætum dýrum, sem spila mikilvægt hlutverk í lífríki sjávar, lífskeðjunni þar, með 100-ára gömlum tólum og aðferðum, fyrir fullt og allt.

En hvað gerðist? Svandís Svavarsdóttir ímyndaði sér, svona upp á sitt einsdæmi, að hún gæti stjórnað starfstíma/starfslokum þeirrar ríkisstjórnar sem sat, fannst við hæfi að hún sæti fram á næsta vor, sem fór fremur illa í Bjarna Ben sem taldi sig vera aðalmanninn, ekkert peð heldur kónginn á taflborðinu.

Henti hann sér því í stjórnarslit án samráðs við Pétur eða Pál, Sigurð Inga eða Svandísi, en sú síðarnefnda móðgaðist svo við þessa fléttu Bjarna að hún neitaði að taka þátt í þeirri starfsstjórn, sem við tók, í nokkrar vikur eða par mánuði, þar til ný ríkisstjórn hefði verið mynduð. Hafði hún þó unnið náið með og metið þetta sama samstarf mikils í 7 ár.

Hér vaknar auðvitað spurningin um hvort menn, kjörnir fulltrúar, megi bara henda öllu frá sér ef þeir verða fyrir smá móðgum. Svari hér hver fyrir sig. Afleiðingin af þessari geðþóttaákvörðun, fýlu, er hins vegar skýr.

Bjarni Benediktsson hremmir fyrir bragðið matvælaráðuneytið og þar með valdið yfir samþykki fyrir veitingu eða höfnun nýs hvalveiðileyfis.

Hvers konar manndómur og ábyrgð var þarna í gangi hjá Vinstri grænum? Voru þeim þeirra stefnu- og áherzlumál, í þeim ráðuneytum sem þau réðu fyrir, þeim ekki dýrmætari en svo að þau mættu bara fara á silfurfati yfir til D og B þannig að Bjarni Ben og Sigurður Ingi gætu ráðskast með þau að eigin geðþótta og leitt þau til lykta að sinni vild!??

Annað eins bjálfaleikrit.

Það er reyndar hefð fyrir því í öllum siðmenntuðum löndum að starfsstjórnir taki ekki af skarið í umdeildum málum, geri aðeins það brýnasta til að halda stjórnkerfinu gangandi þar til ný og rétt og formlega kjörin stjórn tekur við.

Samkvæmt því ætti Bjarni Ben alls ekki að hrófla við stórlega umdeildu hvalveiðimáli í tíma þessarar starfsstjórnar, ekki sízt þar sem endurteknar skoðanakannanir sýna að skýr meirihluti kjósenda stendur gegn hvalveiðum.

Það kemur nú í ljós, hvort Bjarni Ben og D virða viðteknar leikreglur siðmenntaðra manna eða henda sér í enn eina vafasama og siðlausa fléttu með því heiðra samherja sinn og hollvin D, Kristján Loftsson, með því að gefa út nýtt hvalveiðileyfi á tíma starfsstjórnarinnar.

Enn einu sinni má nú manninn Bjarna Benediktsson, hans heiðarleika og manndóm, líka sjálfsvirðingu, reyna. Í leiðinni mun reyna á gott, gegnt og heiðarlegt sjálfstæðisfólk, aðra ráðherra flokksins og þingflokksformann, en þetta er mál þeirra allra.

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni.   

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Skólamál: Afglöp hjá ráðherra – nokkur ár er langur tími í æsku eins barns

Skólamál: Afglöp hjá ráðherra – nokkur ár er langur tími í æsku eins barns
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sakar dómsmálaráðherra um spillingu – „Hérna, en síðan hvenær var ríkislögreglustjóri í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum? “

Sakar dómsmálaráðherra um spillingu – „Hérna, en síðan hvenær var ríkislögreglustjóri í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum? “