fbpx
Föstudagur 08.nóvember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Á hvaða plani er PLAN Samfylkingarinnar? Er ætlunin að leysa Vinstri græna af hólmi?

Eyjan
Föstudaginn 8. nóvember 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kjósendur reyna nú að átta sig á því á hvaða plani hið svokallaða PLAN Samfylkingarinnar er. Áform flokksins hljómuðu býsna vel þar til Kristrún formaður byrjaði að útskýra þau í smærri atriðum. Á undanförnum vikum hefur komið æ betur í ljós að dagar Vinstri grænna virðast vera taldir. Þegar lýst hefur verið á innihald áforma Samfylkingarinnar virðist manni að flokkurinn ætli sér að taka við hlutverki þeirra varðandi sósíalískar áherslur. Ekki síst í skattamálum.

Orðið á götunni er að skattastefna Samfylkingarinnar geti orðið flokknum fjötur um fót í kosningabaráttunni og sé í meginatriðum vanhugsuð. Kjósendur vilja ekki hærri skatta. Þeir vilja sjá ráðdeild og sparnað í rekstri ríkisins sem brugðist hefur á síðustu sjö árum þeirrar vinstri stjórnar sem nú er að hrökklast frá völdum. Það er hættulegt fyrir Samfylkinguna að fylgja skatthækkunarstefnu sinni eftir. Miðflokkurinn og Viðreisn vilja ekki hækka skatta en þess í stað lækka útgjöld ríkisins, ekki hvað síst í efstu lögum stjórnsýslunnar sem hefur þanist út. Þessir flokkar vilja ekki skattahækkanir en þeir vilja hækka leigu sem greidd er fyrir afnot af eigum ríkisins eins og t.d. fyrir aðgang að fiskimiðunum sem eru eign þjóðarinnar. Leigan af þeim, veiðileyfagjöldin, er allt of lág og hana þarf að tvöfalda, hið minnsta. Sjálfstæðisflokkurinn vill heldur ekki hækka skatta þannig að Samfylkingin er eini af stóru flokkunum sem reka grímulausa skatthækkunarstefnu. Það gæti truflað við stjórnarmyndun eftir kosningar.

Samfylkingin vill hækka fjármagnstekjuskatt í 25 prósent. Það er galið. Fráfarandi vinstri stjórn hækkaði fjármagnstekjuskatt úr 20 í 22 prósent eða um einn tíunda. Talsmenn stjórnarinnar tala samt um skattalækkanir! Orðið á götunni er að Kristrún og félagar falli í sömu gryfju og Vinstri græn og aðrir kommúnistaflokkar að gera út á að skattleggja „ríka pakkið“. En fjármagnstekjuskattur er mjög víðtækur og kemur ekki hvað síst illa við eldri kjósendur og fólk sem á eitthvað sparifé því skatturinn leggst á allar fjármagnstekjur með mjög takmörkuðum undanþágum.

Orðið á götunni er að höfundar tillagna um að skattleggja einkahlutafélög sem þeir halda fram að séu vörðuð leið til skattaundanskota og spillingar virðist ekki skilja umhverfi viðskiptalífsins þar sem félög af þessu tagi viðgangast. Ráðist er að stórum hópum kjósenda og þeir nánast vændir um skattsvik og undanskot án rökstuðnings. Þarna þykjast ýmsir kenna handbragð sósíalistanna sem Samfylkingin hefur hleypt inn á gafl hjá sér, ekki síst þeirra Jóhanns Páls Jóhannssonar og Þórðar Snæs Júlíussonar, sem eru fyrrum blaðamenn á Stundinni og Heimildinni. Báðir ættu þeir frekar heima í Vinstri grænum en boða nú fagnaðarerindi þess flokks í Samfylkingunni.

Vert er að hafa í huga að það eru býsna stórir hópar sem Samfylkingin beinir spjótum sínum að með þessari stefnu. Ekki þarf að reikna með því að þeir taki boðskap þeirra fagnandi og munu þá svara fyrir sig í komandi kosningum. Um er að ræða stéttir lækna, tannlækna, réttingatannlækna, sálfræðinga, lögfræðinga, endurskoðenda, verkfræðinga, arkitekta, ráðgjafa, að ekki sé talað um iðnaðarmenn eins og smiði, viðgerðarmenn, rafvirkja, pípulagningamenn, hrágreiðslufólk, snyrtifræðinga og aðra sem of langt er að telja upp. Þá mun skattastefna Samfylkingarinnar einnig bitna á öðrum einyrkjum í atvinnurekstri og smærri fyrirtækjum. Með öðrum orðum: Samfylkingin segir tugum þúsunda kjósenda stríð á hendur í aðdraganda kosninga. Þeir hafa tækifæri til að svara fyrir sig í lok mánaðarins. Blindu sósíalistarnir í flokknum virðast ekki hafa áttað sig á þeim mistökum sem verið er að gera.

Samfylkingin hefur tapað fylgi jafnt og þétt að undanförnu. Ekki er langt síðan skoðanakannanir mældu flokknum stuðning kjósenda sem nálgaðist 30 prósent en nú er fylgið nær 20 prósentum samkvæmt flestum könnunum. Orðið á götunni er að formaður flokksins hafi skorað stórfenglegt sjálfsmark þegar hún niðurlægði Dag B. Eggertsson, fyrrum borgarstjóra og frambjóðanda flokksins, og hvatti kjósendur til að strika nafn hans út af framboðslista flokksins. Hér er um fáheyrðan dónaskap að ræða. Þá er það ljóst að það voru mikil mistök hjá flokknum að stilla sósíalistanum Þórði Snæ Júlíussyni upp ofarlega á lista. Með því lýsir flokkurinn því yfir að hann sé á leið Vinstri grænna í stað þess að staðsetja sig betur á miðjunni og geta horft til allra átta eins og styrkur alvöru miðjuflokka felst í. Samfylkingarmönnum ætti að vera í fersku minni hvernig fór fyrir Vinstri grænum.

Orðið á götunni er að svonefnt PLAN Samfylkingarinnar sé á frekar lágu plani.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Forseti Úkraínu bregst við sigri Trump

Forseti Úkraínu bregst við sigri Trump
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Donald Trump lýsir yfir sigri og hrósar Elon Musk sérstaklega – „Hann er frábær náungi“

Donald Trump lýsir yfir sigri og hrósar Elon Musk sérstaklega – „Hann er frábær náungi“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir Kamala Harris hafa bjargað sér frá áralangri misnotkun – Æskuvinkonan sem hafði áhrif á starfsferil forsetaframbjóðandans

Segir Kamala Harris hafa bjargað sér frá áralangri misnotkun – Æskuvinkonan sem hafði áhrif á starfsferil forsetaframbjóðandans
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Musk vill spara „minnst 2.000.000.000.000 dollara“ í bandarískum ríkisútgjöldum

Musk vill spara „minnst 2.000.000.000.000 dollara“ í bandarískum ríkisútgjöldum