fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Eyjan
Fimmtudaginn 7. nóvember 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í aðdraganda kosninga beina frambjóðendur athyglinni helst að þeim málum sem ætla má að séu heitustu umræðuefnin við eldhúsborðin á heimilum landsmanna.

Vextir húsbyggjenda, biðlistar, skólar og atvinnan eru eðlilega nærtæk umræðuefni. Önnur mál, sem virðast fjarlægari, geta þó haft jafn mikil eða meiri áhrif á heimilisbúskapinn. Frambjóðendur þurfa líka að vera vakandi fyrir þeim.

Ónýtt tækifæri

Fjölþjóðlegt samstarf hefur til að mynda afgerandi áhrif á starfsumhverfi fyrirtækja, afkomu heimila og þau lífsgæði sem felast í velferðarkerfinu.

Við erum háðari utanríkisviðskiptum en flestar aðrar þjóðir og við erum algjörlega háð öðrum þjóðum um öryggi og varnir landsins.

Greiðir gagnvegir frá höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins inn á eldhúsborðin hér heima hafa afgerandi áhrif á vöxt og viðgang samfélagsins. Án þessara tengsla væri samfélagið allt annað og viðfangsefnin sem rædd eru við eldhúsborðin snúnari.

Í þessu ljósi sætir nokkurri furðu að aðeins einn stjórnmálaflokkur skuli núna ræða hagsmuni heimilanna í þessu víða samhengi og horfa til tækifæra sem ekki hafa verið nýtt.

Kosningar eiga einmitt að snúast um ónýtt tækifæri.

Erfiðasta viðfangsefnið

Eitt torleystasta viðfangsefnið sem rætt er við eldhúsborðin um þessar mundir er ofurþungi vaxta af húsnæðislánum.

Hvort sem vextir hækka eða lækka eru þeir alltaf tvöfalt til þrefalt hærri en í grannlöndunum. Af sjálfu leiðir að það er alltaf tvöfalt og stundum þrefalt erfiðara fyrir ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið hér.

Það ætti að vera umhugsunarefni að einmitt á þessu sviði, þar sem erfiðleikarnir eru mestir, erum við ekki aðilar að alþjóðlegu samstarfi. Það segir sína sögu.

Þetta hefur þó ekki alltaf verið svona. Á tveimur mestu framfaraáratugum í atvinnuþróun síðustu aldar átti Ísland aðild að tvenns konar fjölþjóðlegu gjaldmiðlasamstarfi. Á báðum þessum tímabilum léttist róðurinn við eldhúsborðin.

Sund eða úthaf

Með því að hagnýta okkur ný tækifæri í alþjóðlegu gjaldmiðlasamstarfi eins og við höfum tvívegis gert áður getum við sannarlega bætt stöðu heimila og fyrirtækja.

Hitt er ekki síður eftirsóknarvert að með því móti getum við jafnað óþolandi aðstöðumun í samfélaginu. Efnahagslegt framfaramál getur líka verið mikilvægt jafnréttismál.

Landfræðilega er það bara sund sem skilur að bónda í Landeyjum og útvegsbónda í Vestmannaeyjum. Það er hins vegar heilt úthaf sem skilur þá að þegar kemur að vöxtum og afborgunum lána vegna fjárfestinga í fjósum og frystihúsum

Hvers á bóndinn að gjalda? Er ekki kominn tími til að jafna möguleika hans?

Aukinn jöfnuður gerist ekki bara með hærri sköttum og meiri millifærslum. Stundum skila kerfisbreytingar meiri árangri. Það getur borgað sig að víkka sjóndeildarhringinn.

Það ætti að vera andstætt náttúrulögmálunum að skilja bónda í Landeyjum og útvegsbónda í Vestmannaeyjum efnahagslega í sundur með heilu úthafi. Þetta þarf að ræða í kosningum.

Tvær hliðar á sama peningi

Á viðsjárverðum tímum skipta öryggishagsmunir landsins miklu máli. Á undanförnum misserum hafa stríðsátök í okkar heimsálfu verið umræðuefni við eldhúsborðin.

Af sjálfu leiðir að þau ættu að vera eitt af umræðuefnum frambjóðenda þegar þeir nálgast kjósendur.

Það er fagnaðarefni að breið sátt ríkir nú um nauðsyn alþjóðlegs samstarfs á þessu sviði. En hvað sem því líður er þetta svo mikilvægur þáttur utanríkisstefnunnar að stjórnmálin skulda þjóðinni meiri og dýpri umræður um þau efni.

Til að mynda er mikilvægt að ræða órjúfanlegt samhengi milli alþjóðlegs samstarfs á sviði varnar- og öryggismála annars vegar og efnahagsmála hins vegar. Í raun eru þetta tvær hliðar á sama peningi.

Fæðuöryggi kallar til að mynda á ríkara alþjóðlegt samstarf en ekki frekari einangrun. Loftslagsmálin eru annað dæmi um nauðsyn samstarfs.

Vítamínsprauta

Kjarni málsins er sá að það er ekki hægt að sleppa því að ræða stöðu Íslands í umheiminum og sóknarfærin sem felast í nýjum skrefum í alþjóðlegri samvinnu.

Þau hafa alltaf skilað landinu fram á við. Alþjóðleg samvinna virkar einfaldlega eins og vítamínsprauta beint í æð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
01.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið