fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Ásmundur Einar: Meiri skilningur á fjárfestingarþörf í fólki hjá núverandi fjármálaráðherra en þeim fyrrverandi

Eyjan
Mánudaginn 4. nóvember 2024 14:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ekki hefur verið pólitískur skilningur á því að nauðsynlegt er að fjárfesta í þeim innflytjendum sem hingað koma og halda upp hagkerfinu og atvinnulífinu. Það þarf að kenna þeim íslensku og atvinnulífið þarf að koma að borðinu og axla sína ábyrgð. Jafnvel hið hægri sinnaða OECD leggur áherslu á að við Íslendingar verðum að fjárfesta í innflytjendum. Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér:

Einnig er hægt að hlusta á Spotify

„OECD skilaði skýrslu hérna í september sem sagði: Íslenskt samfélag verður að vera tilbúið til að fjárfesta í innflytjendum, íslenskukennslu og öðru slíku, og ég hef ekki séð þessa ágætu hægri flokka, sem hafa verið að tala með þeim hætti að það þurfi að tempra útlendingana, vera tilbúna til þess að tala fyrir því að við værum að fjárfesta í þessu fólki með þeim hætti. Þvert á móti hafa þeir verið að tala um niðurskurð og jafnvel hagræðingu þegar kemur að þessum málum,“ segir Ásmundur Einar.

Hann segir reynsluna hafa sýnt að ekki sé mikill vilji til þess að setja fjármagn í þessa þætti. „Ef við tökum t.a.m. leik- og grunnskóla, það fjármagn sem mitt ráðuneyti hefur til að sinna leik- og grunnskólanámi fyrir utan bara rekstur skólanna, þá er ég að tala um þróun, stuðning og allt það, þá hefur það verið af mjög skornum skammti undanfarin ár og það er ekki fyrr en núna, í góðri samvinnu við núverandi fjármálaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, þar sem okkur er að takast í þessum fjárlögum að hækka það um 50 prósent.“

Gekk illa að tjónka við Bjarna í þessum málum?

„Ja, sko, mér finnst, þegar við erum að tala um fjárfestingar í fólki, þá finnst mér vera skilningsleysi á því í stjórnmálum almennt að það þurfi þá raunverulega að fjárfesta í fólkinu, það þarf raunverulega með tækjum og tólum og ef við erum einhvers staðar í innviðaskuld þá er það þarna gagnvart þessu fólki, fólkinu sem kemur hingað, heldur uppi hagkerfinu, og rannsóknir sýna okkur, miðað við hvað við sem búum hérna erum döpur í barneignum, að við þurfum meira fólk erlendis frá á næstu árum til þess að sinna hér störfum og halda uppi atvinnulífi. Þá verðum við að vera tilbúin til þess að fjárfesta í nákvæmlega þessu fólki.“

Ásmundur Einar segir að mögulega þurfi atvinnulífið að koma sterkar inn og axla ábyrgð á þessu. „Þegar við erum komin í orðræðu um að það eigi bara að skikka innflytjendurna til að læra íslensku þá þarftu líka að velta fyrir þér ábyrgð þeirra sem reka atvinnulífið og er þá kannski spurning hvort við eigum að eyrnamerkja ákveðna skattprósentu af tryggingagjaldi eða einhverju öðru sem rynni beint til íslenskukennslu þessara einstaklinga, eða íslenskukennslu þeirra barna sem þeir eiga, vegna þess að það er alveg ljóst í mínum huga að við munum ekki leysa þetta nema fara af svona skynsemi í umræðuna. Umræða um það að‘ það eigi bara að fækka útlendingum til þess að fækka þeim, hún er ekki skynsöm, hvorki fyrir hagkerfið né fyrir þessa einstaklinga, en þá verðum við að vera tilbúin til þess að skilja að það þarf að fjárfesta í þessu fólki, það þarf að vera tilbúið pólitískt til þess að setja fjármagn í það og það þarf að gerast annað hvort með forgangsröðun fjármagns í þá áttina eða þá að afla þess fjármagns og það eru ekki mín orð, það eru orð OECD, sem menn hafa nú stundum sagt að sé hægri sinnaðra en það sem er vinstra megin við miðjuna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt