fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Eyjan
Föstudaginn 1. nóvember 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar við skoðum leiðtoga heimsins má sjá vaxandi einræðistilburði pólitískra foringja. Íslendingar eru fljótir að pikka upp stefnur og strauma svo þessi tíska hefur auðvitað borist til landsins.

Spurningin nú er hvort við veljum leiðtogaræði eða höldum okkur við lýðræðið. Viljum við vera teymd eða halda um tauminn af ábyrgð? Það hefur afleiðingar að treysta í blindni en við kjósendur eru ekki börn í leit að misvitrum foreldrum. Kjósendur eru fullorðnir einstaklingar.

Íslendingar eru í töluverðri æfingu í gagnrýnislausri persónudýrkun og ef við kjósum án ígrundunar eigum við hættu á fá yfir okkur fólk sem fer svo bara sínu fram þvert á fögur fyrirheit um annað.

Lýðræði krefst þátttöku og samábyrgðar allra. Ef við missum áhuga á því að standa vörð um lýðræðið missum við það endanlega í hendur stjórnlyndra eins og er að raungerast um allar trissur.

Steinunn Ólína les okkur pistilinn hér:

Steinunn Ólina pistill 5 - 011124.mp4
play-sharp-fill

Steinunn Ólina pistill 5 - 011124.mp4

Þegar við skoðum leiðtoga þeirra stjórnmálaflokka sem nú gefa kost á sér á Íslandi er vert að velta því fyrir sér hvað það er að vera góður leiðtogi.

Grundvallaratriði er að við getum treyst þeim. Hver sem er getur öskrað: Ég er með plan! Treystið mér!

Hvaða ábyrgð axlar sá sem lofar öllu fögru? Enga, nema auðvitað að hann standi við orð sín. Ef viðkomandi er þekktur af öðru, þá má búast við að loforð hans séu lítils virði.

Er sá sem hæst talar og er frekastur endilega traustsins verður? Ekkert endilega. Er sá þingmaður sem liggur ekkert á hjarta og ber aldrei neitt mál fram betur geymdur við annan starfa? Þarf stjórnmálafólk ekki að hafa i einhvern snefil af hugsjónum um betri heim? Og þurfum við ekki að trúa að þær hugsjónir séu byggðar á ástríðu en séu ekki bara orðin tóm?

Hvað er það sem prýðir góð leiðtogaefni sem allir stjórnmálamenn ættu auðvitað í grunninn að vera? Ég ætla að svara þessu fyrir mig mér til skemmtunar og ég hvet ykkur til hins sama.

Samfélagsvinir

Góð leiðtogaefni eru vinnusöm, tala mannamál, ljúga ekki, snúa ekki staðreyndum á hvolf og skorast ekki undan ábyrgð. Þau ávinna sér traust með heilindum. Þau setja alltaf almannahagsmuni ofar persónulegum ávinningi og taka sínar ákvarðanir af ábyrgð og ævinlega fyrir opnum tjöldum.

Gott stjórnmálafólk lítur á hlutverk sitt sem þjónustuhlutverk fremur en valdastöðu. Þau deila valdi með öðrum af örlæti enda eru þau í samvinnu við aðra um bættan hag allra. Góðir stjórnmálaleiðtogar eru reiðubúnir til að leggjast í óeigingjarna vinnu til þess að bæta velferð samfélagsins með því að setja í algjöran forgang lýðheilsu, menntun, efnahagslega festu og öryggi.

Getan til að hugsa um aðra

Góð leiðtogaefni þurfa að mínu mati líka að búa yfir tilfinningagreind og innsæi. Þau sýna samkennd og skilning á þörfum og áskorunum fólksins í landinu. Þau eiga auðvelt með að tengjast ólíkum hópum, tala máli þeirra svo trúverðugt sé, taka gagnrýni á uppbyggilegan hátt og hafa getu til að þræða stigu flókinna félagslegra mála.

Leiðtogum er skylt að vinna að jöfnuði og félagslegum réttindum öllum til handa og mega ekki vera blindir á þá sem berskjaldaðir eða jaðarsettir eru. Jafnréttissinna og sanngjarnir leiðtogar leggja svo áherslu á fjölbreytileika og innlimun allra í samfélaginu. Þar þarf að koma til mannskilningurinn mesti og eðlislægt fordómaleysi. Við eigum að gera kröfu um slíka eiginleika, því það er öllum fyrir bestu.

Að gangast við breyskleika sínum

Góðir leiðtogar þurfa að geta staðið í flóknum málamiðlunum, þeir þurfa að geta tekið ákvarðanir með stuttum fyrirvara, hafa getu til að meta afleiðingar og það sem mest er um vert að bera ábyrgð á niðurstöðunum hvort sem þær reynast til bóta eða ekki. Að gangast við gjörðum sínum eykur traust almennings á stjórnmálaleiðtogum því við vitum öll að okkur getur skjátlast. Þess vegna skapar það traust á leiðtoga ef þau horfast í augu við það sem miður fer og viðurkenna það af einlægni og heiðarleika.

Það að vera leiðtogi í lýðræðisríki snýst að mínu viti ekki um að stjórna, drottna og ráða heldur að láta að stjórn þeirra sem trúa á og vilja lýðræðislega stjórnarhætti. Ef einhver nær kjöri sem leiðtogi þá ber viðkomandi skylda til að leggja allt í sölurnar ekki bara fyrir þá sem hann kusu heldur hlusta eftir og koma til móts við raddir sem flestra sem í samfélaginu búa. Á þessu hefur verið mikill misbrestur á okkar Alþingi þar sem flokkar eyða meiri tíma í að skara eld að eigin köku en sinna störfum í almannaþágu.

Nú þurfum við fólk sem elskar land og þjóð, ekkert minna!

Sérúrræði fyrir fullfríska?

Er Alþingi að breytast í verndaðan vinnustað fyrir fólk sem vill prófa eitthvað nýtt eða jafnvel bara koma sér þægilega fyrir á efri árum?

Daglega birtast fréttir af nýjum þingmannsefnum sem eru mörg hver eins og í starfskynningu en líka gömlum sem virðast bara hugsa að komast inn í hlýjuna aftur og jafnvel á nýjum stað.

Nýju andlitin kunna að verða fyrirtaks þingmenn en við fáum lítinn tíma til að kynnast þeim í raun. Sum af nýju andlitunum þekkjum við betur og höfum þá einhverja vitneskju að byggja á. Lítum vandlega yfir feril betur þekktari andlita á þessum vettvangi sem nú gefa aftur kost á sér og metum störf þeirra gaumgæfilega. Munum að við erum að ráða fólk í hörkuvinnu en ekki til hvíldarinnlagnar.

Yfirlæti eða alþýðleiki

Margir af þeim leiðtogum flokkanna sem nú eru í framboði sýna og hafa sýnt af sér stjórnlyndi sem mér líkar ekki alls kostar við. Ég fyrir mína parta hrífst ekki af strong-man týpunni hvort sem hún birtist hjá körlum eða konum.

Við þekkjum stjórnmálafólk sem semur sérleiðir ef því hentar og þau sem segja ósatt kinnroðalaust. Sumir sækjast aðeins eftir ráðherrastóli og sýna þingstörfum þar með vanvirðingu. Slíku fólki er hampað af fylgitunglum sem meðvirk styðja oflátunga sem segja að ekkert nema ráðherrastóll dugi þeim, annars bara hreinlega nenni þau ekki þessu brölti. Hvað segir það um álit þeirra á þinginu okkar?

Við höfum ekki efni á því að halda fleiri sjálfshátíðir fyrir einstaka stjórnmálagæðinga á sérleið fram hjá Alþingi. Við þurfum ósköp einfaldlega harðduglegt fólk með hjartað á réttum stað sem við treystum til að vinna óeigingjarnt starf fyrir alla kjósendur.

Við erum ekki bara að velja ráðherra heldur einvalalið til að starfa á alþingi Íslendinga sem er lýðræðislegur vinnustaður þar sem í raun allir sem fá þar vinnu í okkar umboði ættu að sameinast um að bæta hag lands og þjóðar.

Viljum við sömu útkomu og áður?

Hvað eigum við að kjósa? Þessar skyndikosningar sem okkur er þröngvað í núna eru skipulögð flétta forsætisráðherra sem veit að erfiðara er að taka upplýstar ákvarðanir með svo litlum fyrirvara. Hann treystir því að þessi glundroðastemmning verði til þess að við kjósum af hræðslu við hið óþekkta, það sem við þegar þekkjum allt of vel. Nú auðvitað hann sjálfan.

Það er of lítill tími til undirbúnings fyrir marga flokka og fyrir vikið verður kynningu á mörgum þeim sem nú er kastað í framlínuna í asa ábótavant. En nýjum andlitum fylgir samt von og í hana verðum við að halda og láta á það reyna.

Eitt er víst að ef við eftirlátum sama fólkinu sviðið og áður þá eru engar líkur á breyttum stjórnarháttum á Íslandi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
Hide picture