fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískustu ummæli aldarinnar á Íslandi

Eyjan
Laugardaginn 5. október 2024 13:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þau tíðkuðust breiðari spjótin í samskiptum Davíðs Oddssonar og Ólafs Ragnars Grímssonar, hvort heldur sem þeir tókust á innan þingsala þar sem skítlegt eðli bar á góma, ellegar að skeytasendingar flugu yfir Skerjafirðinum og lentu jöfnum höndum á Bessastöðum og Stjórnarráðinu eins og hverjar aðrar fýlubombur.

Það fyrrnefnda komst í hámæli á sínum tíma þegar Davíð vændi Ólaf Ragnar um að hafa farið frjálslega með auglýsingafé í fjármálaráðherratíð sinni, en þá svaraði sá síðarnefndi fyrir sig með þeim hætti sem ekki hafði áður heyrst úr ræðupúlti Alþingis. Sem þó er atað hrakyrðum.

En nú er það síðara líka komið í ljós – og er að finna innan bókfells þar sem fyrrverandi forseti Íslands fer svo hörðum orðum um forsætisráðherrann sem lengst hefur setið á stólnum í Stjórnarráðinu, vel á fjórtánda ár, að það sætir stórtíðindum. Bókin, sem ber nafnið Þjóðin og valdið, og byggð er á dagbókarfærslum Ólafs Ragnars á Bessastaðaárum hans, er raunar öll svo áhugaverð lestrar að það er sem lesandinn lifi sig inn í tilfinningalíf eins valdamesta forseta í sögu lýðveldisins á Íslandi. Og finni fyrir pirringi hans, jafnt sem óþoli og undrun.

„ … það er sem lesandinn lifi sig inn í tilfinningalíf eins valdamesta forseta í sögu lýðveldisins á Íslandi.“

Heimildargildið er ósvikið.

Einna gasalegust eru ummæli Ólafs Ragnars um Davíð í dagbókarfærslu frá 22. maí 2004 þegar fjölmiðlalögin eru í hámæli. Þar segir hann atburðarás síðustu daga hafa verið ótrúlega „og óþörf ef Davíð Oddsson og ríkisstjórnin hefðu viljað taka skynsamlega á málum. Heiftin og löngunin til að sýna valdið hefur knúið hann áfram og svo ógnar hann öllum öðrum í sínu liði,“ skrifar Ólafur Ragnar í kompur sínar þennan daginn – og eru svo sem fleiri til frásagnar. Í ævisögu Guðna Ágústssonar sem kom út 2007 og er skráð af þeim sem hér lemur lyklaborðið er kostuleg lýsing á því þegar Davíð fleygir frumvarpinu að fjölmiðlalögunum í fangið á Halldóri Ásgrímssyni formanni Framsóknarflokksins við ríkisstjórnarborðið, eftir að Halldór hafði efast um efni þess, meðal annars að það stæðist tæpast stjórnarskrána, en Davíð brást þá reiður við og æpti að Halldóri að skrifa það bara sjálfur.

En Ólafur Ragnar varpar enn sterkara ljósi á þennan atburð, svo svíður undan. Hann gefur ekkert eftir í lýsingum sem sýna fordæmalausar og einstaklega illvígar deilur milli tveggja valdamestu manna landsins við dagsbrún nýrrar aldar sem enduðu á því að forsetinn stöðvaði aðför forsætisráðherra að frjálsum fjölmiðlum með því að synja nýjum lögum um þá, fyrstur þjóðhöfðingja á Íslandi.

Og ástæðan er einfaldlega þessi, eins og nú birtist loks á prenti, tuttugu árum eftir atburðinn: „Samtal mitt við Davíð Oddsson hér á Bessastöðum 17. maí sýndi mér ótvírætt að hann virðir ekki lengur neinar stjórnarfarsreglur eða siðalögmál; er með puttana í lögreglu- og skattarannsóknum, hótar, er með dylgjur, ósvífni, nánast eins og í þriðja heims landi þar sem valdið og ógnin ráða öllu; lán að hann hefur ekki her eða leynilögreglu til að beita. Hugsar og hegðar sér eins og fasisti; valdið réttlætir allt. Út frá þessu einu væri siðferðislega rétt vegna lýðræðisins í landinu að setja honum stólinn fyrir dyrnar með því að vísa málinu til þjóðarinnar.“

Ólafur segir síðar að öll taktík Davíðs hafi gengið út á það að hann myndi skrifa undir lögin. Allar árásir hans á hann persónulega og á embættið hafi verið til þess ætlaðar „að niðurlægja mig í trausti þess að ég myndi skrifa undir,“ segir hann í annarri færslu 11. ágúst 2004.

Hér eru komin pólitískustu ummæli aldarinnar á Íslandi. Það er ekkert minna en svo. Og það er verkefni fyrir gamlan foringja og flokk að lifa með þessa fasísku einkunnargjöf um aldur og ævi.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvort gekk Sigríður Andersen í Miðflokkinn eða öfugt?

Svarthöfði skrifar: Hvort gekk Sigríður Andersen í Miðflokkinn eða öfugt?
EyjanFastir pennar
17.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
13.10.2024

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin
EyjanFastir pennar
06.10.2024

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna