fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Kristrún missir kúlið á ögurstundu – verður Samfylkingin utan stjórnar enn eitt kjörtímabilið?

Eyjan
Fimmtudaginn 31. október 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það vekur furðu að formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir, virðist vera að missa tökin á flokki sínum þegar á hólminn er komið og styttist í kosningar. Á annað ár hefur flokkur hennar mælst með gríðarlegt fylgi og yfirburðastöðu, allt að 30 prósent í Gallupkönnunum.

Orðið á götunni er að formaðurinn hafi fyllst hroka og sé smám saman að missa jarðsamband við kjósendur og raunveruleikann. Í þeirri stuttu kosningabaráttu sem fram undan er telja margir að mestu skipti að gera ekki mistök. Formaður Samfylkingarinnar hefur þegar gert klaufaleg mistök og allt í einu er flokkurinn kominn í vörn í stað þeirrar miklu sóknar sem verið hefur í meira en heilt ár.

Orðið á götunni er að framkoman við Dag Eggertsson, fyrrum borgarstjóra og nú frambjóðanda flokksins, beri vott um reynsluleysi og skort á yfirvegun formannsins. Ekki sé unnt að skilja þann dónaskap sem Kristrún hefur sýnt honum á annan hátt en þann að hún óttist að Dagur muni skyggja á hana enda er hann þrautreyndur stjórnmálamaður sem þegar hefur náð miklum árangri. Framkoman við Dag virðist þegar farin að skaða Samfylkinguna og ætla megi að flokkurinn missi fylgi vegna málsins. Óráðlegt hafi verið að stilla Jóhanni Páli Jóhannssyni upp í oddvitasæti í Reykjavík í stað fyrrum borgarstjóra. Jóhann, sem er fyrrum blaðamaður á Stundinni, er að sönnu efnilegur stjórnmálamaður en hann er enn sem komið er að mestu óskrifað blað.

Þá vakna spurningar um það hvað gerðist varðandi framboð Guðmundar Árna Stefánssonar í Suðvesturkjördæmi. Hann er varaformaður flokksins, hokinn af pólitískri reynslu, og ætlaði sér leiðtogasæti í þessu stærsta kjördæmi landsins. Fyrirvaralaust hvarf hann út úr myndinni með þeim orðum að hann dragi sig í hlé af heilsufarsástæðum. Orðið á götunni er að svo sé ekki heldur hafi Kristrún ýtt honum til hliðar. Um þetta verður ekki fullyrt né heldur að hann sé nú í góðum gír við golfiðkanir á Spáni. Mikilvægt er að upplýst verði hvað gerðist þarna raunverulega.

Orðið á götunni er að Kristrún óttist að reyndir og hæfir stjórnmálamenn muni skyggja á hana og því vilji hún koma þeim burt úr fremstu forystu flokksins. Ef satt reynist gæti þetta reynst Samfylkingunni dýrkeypt í komandi kosningum. Víst er að skiptar skoðanir eru um ýmsa þá sem flokkurinn teflir nú fram í möguleg þingsæti. Ekki er mikil hamingja með þá alla. Vitað er að helstu ráðgjafar Kristrúnar frá upphafi formannsferils hennar hafa verið Össur Skarphéðinsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Menn velta því fyrir sér hvort þessir gömlu pólitísku stríðsmenn, Össur á áttræðisaldri og Ólafur á níræðisaldri, séu endilega þeir sem skilji stefnur og strauma nútímans manna best, þó að þeir hafi verið vel læsir á þá fyrir einhverjum áratugum.

Orðið á götunni er að mögulega séu ráðgjafarnir nú að leggja formanninum til vanhugsuð „snjallræði“. Hugsanlega bitni reynsluleysið nú á Kristrúnu Frostadóttur og valdi því að Samfylkingin missi niður ætlað fylgi sitt þegar mest á reynir.

Glutri Samfylkingin nú niður fylgi sínu með klaufalegum aðgerðum yrði það flokknum mikið áfall og gæti leitt til þess að mynduð verði ríkisstjórn án aðkomu flokksins. Enn eitt kjörtímabil utan stjórnar gæti orðið Samfylkingunni þungbært og gæti leitt til þess að Kristrúnu yrði fórnað.

Orðið á götunni er að þá væri enginn til að taka við flokknum annar en Dagur B. Eggertsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Það sem skiptir máli varðandi ESB-aðild
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð

Um 11% atkvæða gætu dottið niður dauð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna

Finnbjörn ómyrkur í máli og varar landsmenn við – Til standi að einkavæða heilbrigðiskerfið og endurtaka kvótafléttuna
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?

Leynivinaleikur leiðtoganna – Hver fékk hvað frá hverjum?