Færsla Eggerts Gunnarssonar dýralæknis í gær um Kristrúnu Frostadóttir, formann Samfylkingarinnar, vakti mikla athygli. Í færslunni gagnrýnir Eggert Kristrúnu fyrir að hafa tekið reynsluminni einstaklinga fram yfir Dag B. Eggertsson, formanns Borgarráðs og fyrrum borgarstjóra, og segir Eggert að með þessu hafi Kristrún lítilækkað Dag.
Dagur skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður og segir Kristrún hann hvorki hafa óskað eftir ráðherraembætti komist Samfylkingin í ríkisstjórn eða eiga von á því, hún ráði í flokknum ekki Dagur.
Eggert er faðir Dags og hann er greinilega ekki sáttur við þessa stöðu hjá Samfylkingunni. Í færslu sinni spyr hann hverjir þeir séu „svo þessir snillingar“ á vegum Kristrúnar, sem hafi til að bera meiri kosti en sonur hans til þess að verða ráðherra. Segir hann að trúlega sé það allt hið vænsta fólk, en hann telur Dag hafa meira til brunns að bera, bæði hvað varðar reynslu, þekkingu og forystuhæfileika.
Eins og fram hefur komið í fréttum svaraði Kristrún einstaklingi í Grafarvogi í einkaskilaboðum að ef honum hugnaðist Dagur ekki væri minnsta mál að strika hann af kjörseðli í kjörklefanum, Maðurinn birti svarið í íbúahópi Grafarvogs, og fjölmiðlar greindu frá í kjölfarið.
Margir töldu að stirt væri milli þessa forystufólks flokksins, og átöldu Kristrúnu fyrir að grafa undan Degi með þessum hætti og hvetja til útstrikana. Dagur var einn gesta í Silfrinu í RÚV á mánudagskvöld og játaði að sér hefði brugðið við tíðindin. Hann sagði þau Kristrúnu hafa rætt saman í kjölfar frétta af málinu, og hann sáttur og hafa lagt þetta mál fyrir aftan sig.
Af færslu föður hans að dæma er þó ljóst að faðir Dags er ekki sáttur.
Egill Helgason, fjölmiðlamaður, segist telja það hollráð fyrir kosningar að flækja ekki mál um of. „Þetta hefur mér sýnst vera markmið Kristrúnar Frostadóttur. En nú, kortéri í kosningar, gýs upp valdabarátta í Samfylkingunni. Eins og staðan er virðast líkur á stjórn til vinstri vera hverfandi.“
Margir tjá sig um málið undir færslu Egils, kona ein segir: „Alveg ótrúlegur andskoti að maðurinn [Dagur] skuli ekki sjá að hann bara spillir fyrir. Hvað halda menn að Kristrún og hennar fólk hafi tekið mörg svona símtöl……“ Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir svarar konunni: „Kristrún hefði einfaldlega átt að biðja Dag afsökunar. Það var henni um megn.“
Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, segir vörn föður Dags syni sínum til handa ekki munu ráða því hvaða flokkar komist til valda og að hér verði ekki vinstri stjórn eftir kosningar:
„Hún er lífsseig mýtan um hið splundraða vinstri og hið mjög svo skipulagða hægri. Í dag erum við með Sjálfstæðisflokk, Miðflokk, Lýðræðisflokk, Flokk Fólksins, Viðreisn og Framsókn sem er jú límið. Í öllum þessum flokkum er fólk sem einu sinni kaus Sjálfstæðisflokkinn en fór af því hann var ekki nógu eitthvað fyrir þau. Samfylkingin ákvað, reyndar ekki á landsfundi heldur þremenningaklíkan sem þar öllu ræður, að hún þyrfti að sækja til hægri. Í framboði fyrir flokkinn má núna finna fólk sem var bara í fyrradag yfirlýstir sjálfstæðismenn. Að halda að stór Samfylkingin sé trygging fyrir vinstristjórn er í besta falli vafasamur munaður bjartsýnna manna. Að pabbi Dags þyki vænt um drenginn sinn og verji, þegar á hann er ómaklega hallað, er ekki ástæða þess að hér verði ekki vinstristjórn eftir kosningar. Jöfnuður, umburðarlyndi, frjálslyndi og alþjóðahyggja eða öllu skortur á þessu er höfuð vandi Samfylkingarinnar í dag.“
Kona ein furðar sig á fjölmiðlaumfjöllun: „Mér finnst nú það sem er athyglisvert hér, að fréttafólk bæði á Rúv og Mbl þurfi að fara á fb og birta mjög eðlileg viðbrögð föður þegar ráðist er að syni hans. Er þetta það sem við ætlum að kjósa um? Mætti ég biðja um að fréttir fjalli um málefnin sem kosið verður um.“
Færsla föður Dags í heild er svona:
Kristrún hefur látið að því liggja að komi til þess að Samfylkingin myndi ríkisstjórn verði Dagur B. Eggertsson ekki ráðherraefni enda sé hann hann [að] feta sig á nýjum slóðum. Fyrir í fleti séu leiðtogar flokksins í hinum ýmsu kjördæmum. Og hverjir eru svo þessir snillingar. Fyrir utan hana sjálfa eru það:
Jóhann Páll Jóhannsson, alþingismaður til þriggja ára
Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og ritari Samfylkingarinnar
Logi Einarsson, alþingismaður og frv. formaður
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn
Alma Möller, landlæknir
Allt að sjálfsögðu hið vænsta fólk. Á móti þessu fólki er Dagur veginn og metinn og léttvægur fundinn þrátt fyrir gífurlega pólitiska reynslu, yfirburða þekkingu og síðast en ekki síst einstaka hæfileika til þess að vinna með fólki. Já, það er margt skrítið í …