fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Harðar deilur á bæjarráðsfundi í Kópavogi – „Fær engar upplýsingar fyrr en allt er komið á eindaga“

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 31. október 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í morgun fór fram reglubundinn fundur bæjarráðs í Kópavogi. Fundurinn var eins og venjulega lokaður en miðað við fundargerð á vef bæjarins er ljóst að ef ekki hefur verið beinlínis rifist á fundinum að þá hefur verið hart deilt. Meiri- og minnihluti ráðsins skiptust á bókunum undir fyrsta dagskrárlið en sjaldgæft er að sjá svo margar bókanir undir einum og sama dagskrárliðnum í fundargerð bæjarráða. Deiluefnið var fjárhagsáætlun bæjarins fyrir næsta ár og hvort hún væri of seint fram komin. Vildi minnihlutinn meina að meirihlutinn hefði virt ákvæði sveitarstjórnarlaga, um hvenær eigi að leggja fram fjárhagsáætlun, að vettugi sem meirihlutinn harðneitaði að hafa gert.

Á fundinum lagði Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri fram drög að fjárhagsáætlun næsta árs. Fulltrúar minnihlutaflokkanna, Viðreisnar og Vina Kópavogs, Theódóra S. Þorsteinsdóttur og Helga Jónsdóttur lögðu fram fyrstu bókunina vegna málsins ásamt áheyrnarfulltrúum Pírata og Samfylkingarinnar, Sigurbjörgu Erlu Egilsdóttur og Bergljótu Kristinsdóttur.

Í bókuninni segir að samkvæmt sveitarstjórnarlögum eigi að leggja tillögu að fjárhagsáætlun fyrir bæjarstjórn ekki síðar en 1. nóvember en enginn bæjarstjórnarfundur sé á dagskrá fyrr en 12. nóvember.  Samkvæmt lögunum eigi bæjarráð í heild sinni  að semja drög að fjárhagsáætlun.  Minnihlutanum hafi enginn kostur verið gefinn á umræðu um forsendur og forgangsröðun í fjárhagsáætlun, hvað þá að koma á framfæri áherslum og athugasemdum.  Fulltrúar minnihlutans í bæjarráði hafi alls engar upplýsingar fengið um undirbúning eða forsendur. Fyrir liggi að  útgjöld til allra málaflokka hafi hækkað um á bilinu frá 4 til 28 prósent. Í bókuninni er beinlínis fordæmt að fulltrúum nærfellt helmings kjósenda í Kópavogi sé haldið frá því að sinna skyldu sinni.

Hvað segja lögin?

Fulltrúar meirihlutaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, í bæjarráði þau Andri Steinn Hilmarsson, Hjördís Ýr Johnson og Orri Vignir Hlöðversson, ásamt bæjarstjóranum, Ásdísi Kristjánsdóttir sem jafnframt er oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn, svöruðu bókun minnihlutans snarlega með eigin bókun.

Í svari meirihlutans segir að samkvæmt 62. grein sveitarstjórnarlaga skuli bæjarráð leggja fram tillögu um fjárhagsáætlun eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Bæjarstjórn skuli fjalla um þær á tveimur fundum sem fram skuli fara með minnst tveggja vikna millibili. Að lokinni umræðu sveitarstjórnar skuli afgreiða fjárhagsáætlun, þó ekki síðar en 15. desember. Þegar kemur að fullyrðingum meirihlutans um samráðsleysi þá segir í bókuninni að í upphafi kjörtímabilsins hafi minnihlutinn sagt sig frá sameiginlegri fjárhagsáætlunarvinnu. Frá þeim tíma hafi engin ósk borist frá minnihlutanum um að taka aftur þátt í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar.

Minnihlutinn svaraði með annarri bókun þar sem segir að bæjarráð eigi samkvæmt lögum og bæjarmálasamþykkt að leggja fram til bæjarstjórnar tillögu að fjárhagsáætlun og fylgja henni eftir á fundi bæjarstjórnar eigi síðar en 1. nóvember. Sú tillaga eigi að vera unnin af bæjarráðinu í heild. Það lýsi skýrt afstöðu meirihlutans að engin umræða hafi átt sér stað innan bæjarráðs og réttur minnihlutans til áhrifa sé að engu virtur. Það sé á ábyrgð bæjarstjóra að tryggja undirbúning mála þannig að Kópavogsbær standi undir skyldum sínum lögum samkvæmt þar með skyldunni til að gefa öllum fulltrúum í bæjarráði tækifæri til að koma að sjónarmiðum og tillögum við undirbúning fjárhagsáætlunar. Tillaga meirihlutans að fjárhagsáætlun sé án umræðu eða undirbúnings. Segir að lokum í þessari bókun:

„Minnihlutinn fær engar upplýsingar fyrr en allt er komið á eindaga og sá dagur upp runninn sem ræða á málið í bæjarstjórn. Engar forsendur eru til þess að bæjarráð í heild geti afgreitt málið frá sér.“

Farið hafi verið að lögum

Meirihlutinn lagði þá fram bókun til að svara þessari annarri bókun minnihlutans. Í svarinu var eingöngu lögð áhersla á að farið hefði verið eftir sveitarstjórnarlögum við framlagningu fjárhagsáætlunarinnar og vitnað í því skyni beint í 62. grein sveitarstjórnarlaga þar sem segir meðal annars að byggðarráð leggi tillögu fyrir sveitarstjórn um fjárhagsáætlun eigi síðar en 1. nóvember og sveitarstjórn skuli fjalla um hana á tveimur fundum en afgreiða áætlunina ekki seinna en 15. desember.

Vildi meirihlutinn því meina að með því að bæjarráð vísi tillögu að fjárhagsáætlun til bæjarstjórnar 31. október sé farið eftir þessu ákvæði laganna.

Það var minnihlutinn sem átti síðasta orðið í þessum orðaskiptum með því að leggja fram sína þriðju bókun, alls þá fimmtu undir þessum dagskrárlið. Í þessari síðustu bókun lagði minnihlutinn áherslu á að það gengi ekki að leggja fram tillögu að fjárhagsáætlun daginn áður en hinn lögbundni frestur til þess rynni út. Einnig kemur fram í bókuninni að minnihlutinn lítur ekki þetta ákvæði sveitarstjórnarlaga sömu augum og meirihlutinn:

„Bæjarstjórn er fjölskipað stjórnvald sem verður að eiga umræður og afgreiða mál á formlegum fundum. Það er skylda bæjarráðsins að sjá til þess að bæjarstjórn geti rætt tillögu að fjárhagsáætlun eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Bæjarráð, sem fær mál ekki til umræðu fyrr en á eindaga, getur ekki sent málið til bæjarstjórnar.“

Að lokum samþykkti bæjarráð með þremur atkvæðum meirihlutans, gegn tveimur atkvæðum minnihlutans að vísa tillögunni að fjárhagsáætlun næsta árs til bæjarstjórnar.

Miðað við orðaskiptin sem fram koma í bókununum virðist sem að samkomulagið milli meiri- og minnihlutans í bæjarráði Kópavogs sé ekkert sérstaklega gott.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips

Arion banki sá að sér eftir að upp úr sauð á Fjármálatips
Eyjan
Í gær

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“

Gunnar bendir á sláandi staðreynd um stýrivextina – „Hvergi í veröldinni er auður hinna ríku varinn af eins miklum ákafa“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu

Kosningar: Lilja og Alma takast á um skatta og innviðafjárfestingu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“

Bregðast við stjórnarskrárbroti Alþingis – „Þetta er hið raunverulega andlit og arfleifð Sjálfstæðisflokksins“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum

Þingkosningar: Lilja segir ríkisstjórnina hafa fjárfest mikið í innviðum – Alma segir innviðskuldina ógna orkuskiptum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?