fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Mistök sósíalista og sjálfstæðismanna gætu skotið líflínu til Vinstri grænna

Eyjan
Miðvikudaginn 30. október 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menn voru farnir að halda að Sósíalistaflokkur Íslands ætlaði að sýna þau klókindi að tefla Gunnari Smára Egilssyni ekki fram í framboð að þessu sinni og treysta alfarið á getu hinnar vinsælu Sönnu Magdalenu Mörtudóttur til að draga fylgi að flokknum. En á síðustu stundu gat Gunnar Smári ekki haldið aftur af löngun sinni til að komast á þing og tók efsta sæti á lista flokksins í Reykjavík norður.

Orðið á götunni er að þetta skref Gunnars Smára geri það að verkum að sá byr sem flokkur hans hefur notið að undanförnu vegna Sönnu Magdalenu kunni nú að stöðvast og ganga til baka. Það yrðu þá góðar fréttir fyrir Vinstri græna sem eiga nú mjög í vök að verjast ef marka má skoðanakannanir og gætu fallið út af þingi. Þessir tveir sósíalistaflokkar sækja fylgi sitt mikið til í sömu hópa kjósenda. Þannig gætu mistök hjá öðrum flokkanna hjálpað hinum þegar til kosninga kemur.

Flestum er ljóst að Gunnar Smári Egilsson er nánast allsráðandi í Sósíalistaflokknum. Orðið á götunni er hins vegar að hann sé illa þokkaður hjá þorra kjósenda og því sé eins víst að framboð hans í efsta sæti í Reykjavík fæli kjósendur frá flokknum. Brandarinn um „flokk mannsins“ hafi átt ágætlega við um Sósíalistaflokkinn vegna þess hve Gunnar Smári virðist vera þar allsráðandi. Framboð hans eykur líkurnar á því að Vinstri græn gætu bætt stöðu sína.

Svo virðist sem Vinstri græn hafi misst að mestu tengsl sín við kjósendur eins og ítrekað hefur komið fram í skoðanakönnunum sem mæla flokkinn svo lítinn að hann kæmi ekki manni á þing. Fátt virðist geta bjargað flokknum nema mistök annarra flokka sem gætu gagnast Vinstri grænum.

Orðið á götunni er að sama gildi um þau mistök sem Bjarni Benediktsson gerði með því að setja Jón Gunnarsson tímabundið inn í matvælaráðuneytið, að því er virðist einkum til að ólmast í málefnum Hvals hf. sem hefur þegar sent inn kröfur um að fá nú úthlutað langtímaleyfum til hvaladráps. Í starfsstjórn er ekki ætlast til þess að málefni af þessu tagi séu til afgreiðslu. Samt telja margir að Jón Gunnarsson og Bjarni séu til alls vísir þegar kemur að veitingu hvalveiðileyfa. Verði þau veitt núna má ætla að ný ríkisstjórn dragi slíkar vafasamar ákvarðanir strax til baka.

Hitt er annað mál að brölt vegna hagsmuna Hvals hf. mun ekki gera annað en að hjálpa Vinstri grænum í baráttu sinni upp á líf og dauða í komandi kosningum.

Orðið á götunni er að það hljóti að teljast grátbroslegt ef hlutskipti Jóns Gunnarssonar og Gunnars Smára Egilssonar verður það að bjarga Vinstri grænum frá því að falla af þingi. Varla hafi ætlunin verið að skjóta líflínu þangað yfir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt