fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Birgir Ármannsson níunda einnota borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins?

Eyjan
Miðvikudaginn 30. október 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birgir Ármannsson lætur nú af þingmennsku eftir 21 ár á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Birgir, sem er 56 ára, segist samt ekki vera hættur afskiptum af stjórnmálum. Orðið á götunni er að hann vilji nú spreyta sig á því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur í kosningum sem munu fara fram vorið 2026. Verði honum falið það verkefni gæti hann orðið níundi einnota borgarstjórakandidat Sjálfstæðisflokksins frá því að Davíð Oddsson lét af embætti árið 1991.

Frá því Davíð hvarf af vettvangi hafa átta manns reynt fyrir sér sem borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins og allir reynst einnota. Birgir gæti gert atlögu að því að verða sá níundi. Fyrst fékk Markús Örn Antonsson að spreyta sig, tók við borgarstjóraembættinu af Davíð 1991 en sagði af sér 70 dögum fyrir kosningar vorið 1994. Þá tók Árni Sigfússon, sem margir töldu að hefði átt að verða borgarstjóri á eftir Davíð, við og reyndi. Í kosningum vorið 2002 var reynt að tefla Birni Bjarnasyni fram en hann átti aldrei möguleika á móti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Árið 2006 leiddi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson listann og bætti stöðu flokksins þannig að hann varð borgarstjóri í 17 mánuði þar til félagar hans í flokknum sviku. Hanna Birna Kristjánsdóttir tók við um tíma og leiddi lista flokksins í kosningunum 2010 og tapaði. Halldór Halldórsson leiddi listann árið 2014 og tapaði, rétt eins og Eyþór Arnalds sem leiddi listann vorið 2018. Eyþór bætti við talsverðu fylgi en tapaði samt. Hildur Björnsdóttir er áttundi einnota leiðtoginn, en hún leiddi lista flokksins 2022, tapaði tveimur sætum í borgarstjórn, missti talsvert fylgi þannig að flokkurinn varð að sætta sig við næstlélegasta fylgi í sögunni. Hún lenti með flokkinn í minnihluta og margklofinn þrátt fyrir smæðina.

Nú styttist í að Sjálfstæðisflokkurinn verði að finna enn einn flokksmann til að reyna fyrir sér í þessu vanþakkláta verkefni. Birgir Ármannsson er nú á lausu, hokinn af pólitískri reynslu og er tilvalinn til að reyna næst.

Orðið á götunni er að Birgir Ármannsson tikki í öll boxin sem sjálfstæðismenn horfi til þegar kemur að oddvitaefni í Reykjavík: Hann er lögfræðingur að mennt. Í MR gegndi hann stöðu Inspectors Scholae eins og margir sem síðar hafa komist til metorða í Sjálfstæðisflokknum. Hann var formaður Heimdallar, í stjórn Vöku, í Stúdentaráði og í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna. Með námi var Birgir blaðamaður á Morgunblaðinu og hann starfaði hjá Verslunarráði Íslands um tíma.

Birgir hefur setið á Alþingi í 21 ár, átt sæti í fjölda nefnda og verið forseti þingsins síðustu 3 árin. Hann átti sæti í Þingvallanefnd um tíma.

Orðið á götunni er að stjórnmálamaður með þennan bakgrunn hafi allt til að bera til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í næstu borgarstjórnarkosningum og freista þess að verða níundi einnota leiðtogi flokksins í borginni frá því Davíð Oddsson hvarf af þeim vettvangi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt