Samfylkingin vill herða reglur um AirBnB og liðka fyrir því að hægt sé að breyta atvinnuhúsnæði, t.d. skrifstofuhúsnæði sem stendur autt, í íbúðarhúsnæði. Einnig vill Samfylkingin breyta skipulagslögum til að liðka fyrir uppbyggingu einingahúsnæðis, færanlegra eininga. Þetta kemur fram í tillögum að bráðaaðgerðum í húsnæðismálum sem kynntar voru í dag. Flokkurinn býður Kristrúnu Frostadóttur fram sem forsætisráðherra en hún yrði einnig góður fjármálaráðherra. Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður og oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.
Þið bjóðið Kristrúnu fram sem forsætisráðherra. Er það ófrávíkjanleg krafa Samfylkingarinnar að Kristrún verði forsætisráðherra fari flokkurinn í ríkisstjórn?
„Það er eðlilegt að sá flokkur sem er stærstur í kosningum taki við forsætisráðuneytinu, hvað þá ef flokkurinn vinnur einmitt kosningasigur, tvöfaldar sig og hvað þá þrefaldar, ef það gengur svo vel, við skulum spyrja að leikslokum. En, nei, það er ekki þannig, auðvitað skiptir líka máli að vera með sterkan fjármálaráðherra,“ segir Jóhann Páll.
Hann segir Samfylkinguna leggja mjög mikla áherslu á efnahagsmálin og velferðarmálin. „Það skiptir máli að vera með öflugan verkstjóra í forsætisráðuneytinu eða fjármálaráðuneytinu. Fjármálaráðuneytið hefur reyndar gríðarleg völd …“
„Já, stundum virkar það jafnvel þannig. Það kannski fer að einhverju leyti eftir því hvers konar samningar eru gerðir þegar ríkisstjórn er mynduð. Hún myndi standa sig vel þar líka.“
Þú nefndir bráðaaðgerðir í húsnæðismálum, sem þið eruð að kynna í dag. Hverjar eru þessar bráðaaðgerðir?
„Ef við horfum á þróunina þá er staðan sú að frá 2013 hefur fjölskyldum á Íslandi fjölgað um tæplega 50 þúsund á meðan íbúðum hefur fjölgað um 27 þúsund þannig að það er stórkostlegt misræmi þarna milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði. Þetta þýðir auðvitað að fasteignaverð hefur rokið upp, leiguverð hefur rokið upp og staðan er mjög alvarleg. Það er farið að ráðast í síauknum mæli af því hverra manna þú ert hvort þú getir yfir höfuð eignast þak yfir höfuðið.“
Fólk þarf að búa svo vel að eiga foreldra sem geta gefið því heimanmund.
„Já, einmitt, það er málið. Svo er það auðvitað leigumarkaðurinn þar sem fólk er að hrekjast milli hverfa, jafnvel lítil börn sem eru að skipta um grunnskóla á mánaða- eða örfárra ára fresti. Þetta er ekki boðlegt. Það þarf mjög afgerandi aðgerðir bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Þegar við tölum um bráðaaðgerðir í húsnæðismálum þá erum við að tala um aðgerðir sem er hægt að ráðast í núna á næstu tveimur árum til þess að fjölga íbúðum sem er búið í, umfram það sem gert er ráð fyrir í áætlunum stjórnvalda,“ segir Jóhann Páll.
„Við teljum að með því að taka stjórn á AirBnB, með því að herða þar aðeins reglurnar, þó þannig að fólk geti áfram leigt út heimili sitt í 90 daga og jafnvel einn sumarbústað. Með því að herða reglur um þetta og með því að auka eftirlit með AirBnB og með því að færa ákvörðunarvaldið um dagafjölda og jafnvel hámarkstekjur til sveitarfélaga og fleiri svona aðgerðir sé hægt að koma talsvert fleiri íbúðum í umferð, sem eru núna í skammtímaleigu til ferðamanna – koma þeim í umferð, annars vegar í langtímaleigu og hins vegar inn á eignamarkað.“
Hann segir að einnig þurfi að breyta skipulagslögum til að liðka fyrir uppbyggingu á einingahúsnæði, færanlegu húsnæði. „Þetta er í rauninni eitthvað sem hefði átt að gerast strax eftir að jarðhræringarnar í Grindavík fóru að láta á sér kræla. Ég veit nú reyndar að Grindavíkurnefndin hefur aðeins verið að skoða þetta – liðka fyrir því að það sé hægt að setja upp einingahúsnæði án þessara hefðbundnu og tímafreku deiliskipulagsbreytinga.
Í þriðja lagi þá viljum við liðka fyrir rýmabreytingum á byggingarreglugerð og í skipulags- og mannvirkjalögum, að það sé auðveldara að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir, m.a. skrifstofuhúsnæði – mikið af því stendur núna tómt og er jafnvel í eigu ríkisins.“