fbpx
Fimmtudagur 31.október 2024
EyjanFastir pennar

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 30. október 2024 20:27

Mynd: Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir nokkrum dögum var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjaness yfir konu sem lagði með hnífi til kærasta síns svo hann hlaut af tvö stungusár en særðist ekki lífshættulega.

DV greindi frá málinu á þriðjudagskvöld:

Kona sem stakk kærasta sinn bar við neyðarvörn en var sakfelld – Hlaut áverka víða um líkamann eftir manninn

Konan bar við sjálfsvörn (neyðarvörn), kærastinn hafði misþyrmt henni, ekki í fyrsta skipti. Hún var með mikla áverka eftir manninn en var ekki flutt á slysadeild heldur í fangelsi. Daginn eftir fór hún sjálf á slysa- og bráðamóttöku til að leita sér læknishjálpar vegna árásar mannsins. Í dómnum er greint svo frá áverkunum sem fundust á henni þar:

„Skoðun leiddi í ljós hrufl/maráverka yfir kjálkasvæði vinstra megin og var ákærða mjög aum þar og einnig við þreifingu inn í munnholið vinstra megin. Hún var einnig með vægt mar vinstra megin á enni og marin á víð og dreif um líkamann. Fyrst og fremst beggja megin yfir efri útlimum og yfir baki. Einnig yfir neðri hluta síðu og á neðri útlim hægra megin. Ákærða var þannig með fjölda mar- og yfirborðsáverka dreift um líkamann þ.e. á andliti, útlimum, baki og kvið en ekki var þörf á frekari meðferð annarri en stuðningsmeðferð vegna meints ofbeldis og því var send beiðni um eftirfylgd á áfallateymi Landspítalans.“

Fyrir dómi skýrði konan svo frá ofbeldi mannsins gagnvart sér:

„Ákærða, X, sagði að hún og brotaþoli hafi verið í sambandi þegar atvikið varð en þau hafi ekki haldið saman heimili. Áður en umrætt atvik varð hafi brotaþoli margoft gerst sekur um ofbeldi gagnvart ákærðu m.a. gengið í skrokk á henni. Þegar atvikið, sem ákært er vegna, varð hafi ákærða og brotaþoli bæði verið búin að drekka nokkra bjóra og brotaþoli hafi einnig verið búinn að drekka eina hvítvínsflösku. Þau hafi verið að rífast m.a. vegna þess að ákærða hafi hringt í sameiginlegan vin þeirra og brotaþoli verið ósáttur við það. Ákærða hafi eflaust ögrað brotaþola en hann hafi verið leiðinlegur og ákærða hafi beðið hann ítrekað um að yfirgefa heimili sitt án árangurs. Brotaþoli hafi síðan skorið samfesting utan af ákærðu, rifið í hárið á henni, hent henni í gólfið og sparkað í hana. Hún hafi verið virkilega hrædd og talið lífi sínu ógnað. Þá hafi hún m.a. hugsað hvort sonur hennar myndi vakna móðurlaus morguninn eftir. Ákærða kvaðst hafa kallað á hjálp án árangurs. Hún hafi síðan náð í hníf og stungið brotaþola í öxlina en hann hafi haldið áfram að sparka í ákærðu. Hún hafi þá náð aftur í hnífinn þar sem hann legið á gólfinu og stungið brotaþola aftan í hnéð. Hann hafi loksins hætt að sparka í ákærðu en tekið hnífinn og sagt að hann ætlaði að stinga sig meira svo málið liti verr út fyrir ákærðu. Ákærða kvaðst hafa verið með áverka um allan líkamann eftir brotaþola m.a. á höfði, baki, handleggjum og læri.“

Fyrir utan hið hryllilega ofbeldi sem maðurinn beitti konuna magnaði það upp skelfingu hennar að fimm ára sonur hennar var sofandi í íbúðinni. Henni varð hugsað til þess hvort hann myndi vakna móðurlaus.

Átti konan að velja sér hættuminna vopn?

Konan játaði að hafa stungið manninn en neitaði sök í ákæru um sérstaklega hættulega líkamsárás. Bar konan við neyðarvörn.

Dómari í málinu, Ingi Tryggvason, féllst ekki ekki á að um neyðarvörn hafi verið að ræða. Hann gerir þó grein fyrir því í niðurstöðu sinni að konan hafi verið með áverka eftir manninn. Hann dregur einnig fram að verulegur munur sé á hæð og líkamsburðum konunnar og mannsins og megi ráða af því að maðurinn hafi haft líkamlega yfirburði gegn konunni. Engu að síður lýsir hann þessari árás á konuna sem átökum þeirra tveggja og sem „ryskingum“.

Hann segir síðan:

„Þrátt fyrir það verður ekki fullyrt að lífi ákærðu hafi verið ógnað og henni hafi verið nauðsynlegt að grípa til hnífs, sem er hættulegt vopn, til að verjast brotaþola.“

Hnífur er hættulegt vopn. Kona sem er að verða fyrir hrottafullri árás og er viti sínu fjær af skelfingu þarf væntanlega að velja sér vopn til varnar sem er ekki of hættulegt, eða hvað? Dómarinn segir ennfremur:

„Er ekki fallist á að verknaður ákærðu hafi verið henni réttmæt neyðarvörn í skilningi 1. mgr. 12. gr. hegningarlaganna. Þá er ekki hægt að leggja til grundvallar að yfir ákærðu hafi vofað, eða verið byrjuð, ólögmæt árás sem hafi getað réttlætt þessar athafnir hennar. Þá er ekki heldur hægt að miða við að ákærða hafi orðið svo skefld eða forviða, að hún hafi ekki getað gætt sín fullkomlega, þannig að 2. mgr. lagagreinarinnar geti átt við. Með aðgerðum sínum fór ákærða út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar.“

Að deila við dómarann

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég hef ekki faglegar forsendur til að deila við héraðsdómara. Ég er ekki löglærður. Ég er almenningur. Ég hef að vísu vegna starfa minna við blaðamennsku eflaust lesið fleiri dóma og verið viðstaddur fleiri réttarhöld en gengur og gerist, en engu að síður, við skulum bara segja að ég sé almenningur. Ég er óbreyttur borgari sem las yfir dóm í sakamáli, ég las yfir lýsingar á því sem í dómnum er kallað „átök“ á milli tveggja manneskja, en það sem ég les úr þessu er bara árás á konu og sambandsofbeldi. Sorgar- og hryllingssögu sem er allt of algengt viðfangsefni blaðamanna eins og mín, vegna þess að ofbeldi af þessu tagi er allt of algengt í samfélaginu.

Ég sé sjálfvörn, neyðarvörn. Dómarinn sá konu sem gerst hefur sek um glæp.

Í umfjöllun um kynbundið ofbeldi hefur verið deilt á yfirvöld fyrir að vernda ekki nægilega vel konur fyrir ofbeldismönnum. Þeir gangi lausir eftir yfirheyrslur, komist þráfaldlega upp með að brjóta nálgunarbönn og séu oft ekki úrskurðaðir í nálgunarbann þegar full ástæða virðist til þess.

Ljóst er að oft er yfirvöldum vandi á höndum í þessum málum og vandasamt er að vernda þolendur fyrir einbeittum ofbeldismönnum og gæta jafnframt að reglum réttarríkisins. En er ekki fokið í flest skjól þegar farið er að ákæra og sakfella konur sem grípa til sjálfsvarnar gegn ofbeldismönnum?

Dæmd til milljónaskuldar

Konan var dæmd í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða samtals í miskabætur og málskostnað vel yfir tvær milljónir króna. Af lýsingum á málsaðilum í dómnum má leiða líkur að því að hún sé engin borgunarmanneskja fyrir þeirri skuld. Það ætlar að reynast henni dýrkeypt að hafa í örvæntingu sinni varið hendur sínar með hættulegu vopni.

Dóminn má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Besta ákvörðunin
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
28.09.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: 23. september 1241

Óttar Guðmundsson skrifar: 23. september 1241
EyjanFastir pennar
27.09.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun
EyjanFastir pennar
21.09.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Lögfræðingar og lögfræðiálit

Óttar Guðmundsson skrifar: Lögfræðingar og lögfræðiálit
EyjanFastir pennar
20.09.2024

Steinunn Ólína skrifar: Með kveðju til allra sem syrgja

Steinunn Ólína skrifar: Með kveðju til allra sem syrgja