Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum og fyrrverandi þingmaður, mun leiða lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Félagsfundur Miðflokksins í Suðurkjördæmi samþykkti í kvöld tillögu uppstillingarnefndar um framboð listans í kjördæminu.
Næstu sæti munu þau Heiðbrá Ólafsdóttir og Ólafur Ísleifsson skipa.
„Þeir sem kannast við mig vita að ég hlakka til að geysast um hið víðfema Suðurkjördæmi og hitta sem allra flesta á næstu vikum. Við stefnum að því að snúa stjórnmálunum úr kyrrstöðu í að gangsetja fjölmörg aðkallandi verkefni,” skrifar Karl Gauti í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann greinir frá tíðindunum.
Þar kemur fram að hann hyggist taka sér leyfi frá störfum lögreglustjóra á meðan kosningabaráttunni stendur.