fbpx
Mánudagur 28.október 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 1 um ESB: Fyrir hvað stendur ríkjasambandið?

Eyjan
Sunnudaginn 27. október 2024 06:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir hægri flokkar Evrópu, hægri-hægri, voru lengi andstæðingar ESB. Leituðu þeir allra leiða til að gera bandalagið tortryggilegt, telja fólki trú um, að stóru þjóðirnar réðu öllu og að þær smærri hefðu ekkert að segja, að öllu væri miðstýrt í Brussel, sem allt er alrangt, og var reynt á allan hátt, að varpa rýrð á þýðingu og starfsemi ríkjasambandsins.

Breytt afstaða hjá flestum

Í millitíðinni hafa þessir flokkar, AfD Þýzkalandi, „Frelsisflokkur“ Wilders Hollandi, Front National/Le Pen Frakklandi, og, nú síðast, Bræður Ítalíu/Giorgia Meloni, vent kvæði sínu í kross og lýst yfir stuðningi við ESB.

Meloni t.a.m. hefur unnir mjög náið og vel með framkvæmdastjórn og öðrum þjóðarleiðtogum í ESB eftir valdatöku sína á Ítalíu. Þessir flokkar eru nú alveg hættir að tala um að leggja niður ESB, og eru farnir yfir í tal um að hafa áhrif á ESB innan frá.

Allir, sem skoða málið vel og vendilega, átta sig auðvitað ekki aðeins á gífurlegri þýðingu ESB fyrir frelsi, velferð og öryggi Evrópu, heldur líka á því hvernig ESB tryggir okkur betra og öruggara líf; meira frelsi, velferð og lífsgæði.

Íslenzkir þjóðernissinnar undantekning

Undarlegt nokk eru þó enn öfl í gangi, hér uppi á Íslandi, auðvitað yzt á hægri kantinum, sem rembast við að reyna að setja ESB í vont ljós. Er þar spilað með hálfsannleik, tímapunktar og málsatriði slitin úr samhengi og tengd svo með villandi hætti, vitnað í gamlar umsagnir og mál, sem ekkert gildi hafa lengur, aukaatriði gerð að aðalatriðum o.s.frv.

Þetta allt í þeirri vitneskju að margir hér viti tiltölulega lítið um ESB, þannig að vandalítið sé að villa um fyrir þeim.

Vert er því að rifja þetta upp

Á hverjum einasta degi, og oft á dag, erum við með hluti – alls kyns varning; matvöru, fatnað, heimilisbúnað, áhöld og verkfæri, líka öll rafmagnstæki, vélar, farartæki og bílinn okkar – í höndunum, þar sem einmitt ESB hefur tryggt okkur mestu möguleg þægindi, umhverfisvænar lausnir og umfram allt öryggi og gæði í notkun.

Allt, sem við erum með í höndunum og notum, sem er CE-merkt, hefur þurft að uppfylla stífar kröfur og prófanir ESB um vænar lausnir fyrir neytendur og aðra notendur, lágmarks orkunotkun, minnsta mögulega umhverfisspillingu og, eins og áður segir, hámarks öryggi og endingu.

Þessi starfsþáttur ESB er einn af lykilþáttum sambandsins, hvað varðar okkar daglega líf; trygging hagsmuna og velfarnaðar þegna þess.

Grunn áherzlumál ESB

Baráttan fyrir „virðingu mannsins“ og sameiginleg mannréttindi okkar – frelsi til orðs og æðis – standa efst á blaði hjá ESB. Eru 1. einkunnarorð sambandsins.

Næst má telja jafnréttisbaráttuna; baráttuna fyrir jafnrétti kynjanna, hörundsdökkra, hinsegin fólks, fatlaðra og allra annarra sem minna mega sín gagnvart þeim sem meira mega sín, en líka baráttuna fyrir vernd kvenna gegn ofbeldi.

Heilbrigðismál ofarlega á baugi hjá ESB

ESB leggur mikla áherzlu á sameiginlega heilbrigðisvelferð okkar, ekki sízt á sviði hollustu, heilnæms lífs, forvarna og fyrirbyggjandi aðgerða.

Forystuhlutverk ESB í því að láta þróa og útvega öllum aðildarríkjunum 27, svo og Íslandi og Noregi, bóluefni gegn COVID er auðvitað skýrt dæmi um það.

Hluti af sömu viðleitni ESB er samstilling sjúkratrygginga í Evrópu, sem leiddi til útgáfu hins evrópska sjúkratryggingarkorts sem veitir Íslendingum aðgang að sjúkraþjónustu og sjúkratryggingu í 27 öðrum evrópskum löndum.

Neytendaréttur og ferða-, dvalar- og athafnafrelsi ofarlega á blaði

ESB vinnur líka skipulega að því að tryggja okkar sameiginlega neytendarétt og neytendavernd.

Það hefur knúið fram sanngjörn símakjör fyrir alla ESB- og EES-símanotendur, þar sem menn geta hringt á eigin heimagjaldi um alla álfuna, styrkt réttindi ferðamanna gagnvart flugfélögum og annarri ferðaþjónustu, tryggt neytendum sanngjörn þjónustugjöld banka o.s.frv.

Það óskoraða ferðafrelsi, dvalarfrelsi, námsfrelsi og starfsfrelsi, sem við njótum um mest alla Evrópu, sem hluta af ESB-fjórfrelsinu, er auðvitað líka ESB að þakka.

ESB heldur alþjóðlegum stórfyrirtækjum „á mottunni“

Það sama gildir, þegar kemur að baráttunni gegn verðsamráði, einokun og markaðsmisnotkun alþjóðlegra stórfyrirtækja og auðhringa.

Þar vakir ESB yfir hagsmunum okkar og velferð og bregst hart við þegar neytendur eða almenningur eru beittir órétti eða yfirgangi.

Menntun og tæknilegar framfarið í hávegum höfð

ESB leggur mikla áherzlu á okkar sameiginlegu evrópsku menningararfleifð svo og á framsækna menntun og menningu íbúa álfunnar og fjármögnun hennar.

ESB er leiðandi afl á sviði sameiginlegrar tæknilegrar framþróunar, innleiðingu stafrænna lausna og gervigreindar og fjármögnun slíkrar framtíðartækni í Evrópu.

Úthlutanir og styrkir, líka til íslenzkra einstaklinga og fyrirtækja, eru ríflegar og fjölmargar.

Leiðandi í heiminum í dýra-, náttúru- og umhverfisvernd

Þegar kemur að umhverfisvernd, minnkun mengunar og eiturefna og baráttunni gegn spillingu lofts, láðs og lagar, eyðingu dýra, náttúru og skóglendis, ekki bara í Evrópu heldur um allan heim, gegnir ESB óumdeildu forystuhlutverki.

Gjaldmiðillinn, evra, þó einna þýðingarmest

Sameiginlegur gjaldmiðill ESB, evran, sem 26 þjóðir nýta nú og njóta, er sennilega eitt þýðingarmesta framlag sambandsins til öryggis og velferðar þessara þjóða.

Evran hefur tryggt einhverja lægstu vexti í heimi, nú t.a.m. að meðaltali 3-4% fyrir langtíma húsnæðislán og 4-7% fyrir annars konar fjármagn, sem er rétt um einn þriðji af krónu-vöxtum hér.

Í ESB-löndunum er ekki um verð- eða vísitölubindingu lána að ræða, þar vita allir hvað þeir skulda og þurfa að borga á hverjum tíma.

Til að geta tekið upp evruna, þurfa þau ríki sem þess óska fyrst að verða fullgilt aðildarríki. Eftir það, tekur það 2-3 ár.

Höfundur er samfélagsrýnir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Willum Þór leiðir Framsókn í Suðvesturkjördæmi

Willum Þór leiðir Framsókn í Suðvesturkjördæmi
Eyjan
Í gær

Kristrún leiðir Samfylkinguna í Reykjavík norður – „Við ætlum að hrista upp í kerfinu“

Kristrún leiðir Samfylkinguna í Reykjavík norður – „Við ætlum að hrista upp í kerfinu“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ný könnun: Viðreisn stærri en Sjálfstæðisflokkurinn – VG í kjallaranum

Ný könnun: Viðreisn stærri en Sjálfstæðisflokkurinn – VG í kjallaranum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gunnar Smári segir atkvæðaþröskuldinn í alþingiskosningum of háan

Gunnar Smári segir atkvæðaþröskuldinn í alþingiskosningum of háan