fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Eyjan
Laugardaginn 26. október 2024 13:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslendingar eru þjóða vanastir sveiflum af öllu tagi, og má þar nefna fiskgengd, grassprettu og viðkomu villtra dýrastofna, að ekki sé nú talað um blessað norðurhjaraveðrið, en þess utan byltir náttúran sér reglulega með oft og tíðum hrikalegum afleiðingum svo jafnvel fólk í öðrum álfum þarf að fresta ferðum og flugi.

Og allt er þetta Frónverjanum í blóð borið, ásamt líka efnahagnum, því krónan hefur sveiflast eins og visnað lauf í vindi allt frá því bjartsýnustu vormenn Íslands afréðu að prófa hana á píndri þjóð við dagsbrún nýrrar aldar. Allar götur síðan hefur gjaldmiðillinn sá arna farið ránshendi í fyrirtækjum og heimilum með endurteknum gengisfellingum – sem er íslenskt fagurmæli yfir tekjumissi – og viðvarandi vaxtaokri og verðbólgufári.

Á Framsóknarmáli heitir þetta að hafa veifingsháttinn í blóðinu.

En nú bregður líka svo við að sveiflurnar eru farnar að æra alla stjórnmálaflokka – og ekki bara á miðjunni þar sem gamla bændaflokknum er tíðrætt um genagalla þjóðarinnar – heldur miklu heldur út til jaðranna. Ýkta vinstrið og ysta hægrið er farið af hjörunum. Og má vart á milli sjá hvort gjögtir meira. Gamla hurðin hangir í dyrastafnum eins og hvert annað úr sér gengið ónýti.

Veldur hér mestu að fordæmalaust flakk er runnið á feyskið fastafylgi flokkanna. Það á enginn lengur neitt í pólitík. Aldni Sjálfstæðisflokkurinn sem fór löngum með himinskautum í huga þjóðarinnar á síðustu öld og aðeins fram á þá nýju, situr nú allt í einu uppi með einsleitni sína. Sú var tíðin að hann var mesta breiðfylking íslenskra stjórnmála sem höfðaði svo vel og jafnt til frjálslyndra manna og íhaldskurfa að meira og minna allir landsmenn gátu samsamað sig stærsta stjórnmálaafli þjóðarinnar sem allir aðrir flokkar – í tvístri sínu og tilvistarkreppu – öfunduðu sakir samstöðu og eindrægni. Hægrið var heilt. Vinstrið var valt. Og þannig átti það sjálfsagt bara að vera að því er fólki fannst; vinstrið vældi, en hægrið hélt völdum.

„Það sem einkum hefur breyst á nýrri öld er að almenningur er vaxinn upp úr einni skoðun.“

Það sem einkum hefur breyst á nýrri öld er að almenningur er vaxinn upp úr einni skoðun. Hann er reiðubúinn að máta sig við fleiri sjónarmið en hann fékk með fermingarfræðslunni forðum daga þar sem flokksskírteini voru afhent innan um Jesúmyndirnar. Það er liðin tíð.

Þess utan hafa hefðbundin stjórnmálaöfl beðið hnekki sakir hruns og spillingar – og þegar við bætist viðvarandi málamiðlunarþóf þar sem ráðandi öfl eru uppteknari af eigin völdum en hagsmunum allrar alþýðunnar, er ekki nema von að valdið gefi eftir.

Og landsmenn kjósa fremur fólk en flokka. Það er enn ein breytingin.

Fyrir vikið er sveiflan meiri en nokkru sinni. Sjálfstæðisflokkurinn sem hreppti 24,4 prósent atkvæða í þingkosningunum 2021, sem var afleit niðurstaða fyrir hann, mælist nú með ræfilsleg 14 prósentin. Framsóknarflokkurinn sem fékk þá 17,3 af hundraði má þakka fyrir 8 prósent í fylgismælingum. Vinstri græn fara úr 12,6 í 2,2 að því er nýleg mæling sýnir. Á hinn bóginn rís Samfylkingin úr 9.9 prósentum í námunda við fjórðungsfylgi á meðal þjóðarinnar og Miðflokkurinn nærfellt þrefaldar vinsældir sínar úr 5,5 prósentum í nálega 15 af hundraði. Og það segir auðvitað mergjaða sögu að Viðreisn er að ná fleiri og hvassari vopnum en gamli flokkurinn sem hann hefur á stundum verið talinn hafa klofnað úr.

Merkilegast af öllu er að hægrið er klofnara en nokkru sinni. Meira að segja villta vinstrið í eina tíð hefði ekki getað boðið upp á álíka óreglu og nú er að sjá á halta hægrinu. Flóttamannabúðirnar í kringum gamla Sjálfstæðisflokkinn eru farnar að breiða úr sér um allt land. Fyrst var það Viðreisn og nú er það Lýðræðisflokkurinn, að ekki sé talað um Miðflokkinn sem meitlar hvern steininn af öðrum úr aðframkomnum flokki Bjarna Benediktssonar.

„Það sem einkum hefur breyst á nýrri öld er að almenningur er vaxinn upp úr einni skoðun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
13.10.2024

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins
EyjanFastir pennar
06.10.2024

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna
EyjanFastir pennar
05.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískustu ummæli aldarinnar á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískustu ummæli aldarinnar á Íslandi