fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Hvort gekk Sigríður Andersen í Miðflokkinn eða öfugt?

Svarthöfði
Fimmtudaginn 24. október 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svo sem fram hefur komið áður er Svarthöfði mikill áhugamaður um pólitík. Mætti jafnvel kalla hann nörd á því sviði og væri það ekki ofsagt. Hann man þá tíma er fjórflokkurinn var og hét. Það var á tímum kalda stríðsins og allt í mjög föstum skorðum. Milli stórveldanna ríkti ógnarjafnvægi og í pólitíkinni hér heima voru stundum átök en alltaf var þó system á galskapnum.

Fyrir kom að menn urðu fúlir og klufu sig út úr sínum flokkum vegna óánægju með röðun á lista eða aðgang að bitlingum. Þá stofnuðu þeir nýja flokka eða fóru í sérframboð og þá helst undir tvöföldum listabókstaf móðurflokksins. Yfirleitt komu svo týndu synirnir aftur heim áður en langt um leið. Lítið var um að menn væru að færa sig milli fjórflokkanna.

Á þessu voru þó undantekningar og þar má helstan nefna fimmta forseta lýðveldisins, Ólaf Ragnar Grímsson, sem byrjaði sem framsóknarmaður, klauf sig þaðan út með Möðruvellingum og fór yfir í Samtök frjálslyndra og vinstri manna áður en hann færði sig yfir í Alþýðubandalagið og varð formaður þess flokks og ráðherra.

Svarthöfði verður að játa að það kom honum sumpart á óvart þegar Sigríður Andersen var kynnt til leiks sem oddviti Miðflokksins í Reykjavík. Sigríður er það sem gjarnan er kallað grjóthart vesturbæjaríhald, sem fá ef nokkur dæmi eru um að hafi sést með önnur barmmerki en fálkann og X-D. Að sönnu hefur hún tilheyrt þeim hluta Sjálfstæðisflokksins sem íhaldssamastur er hvað varðar kristin gildi og hreinleika þjóðarinnar.

Sigríður Andersen hefur aðhyllst það sem sumir kalla nýfrjálshyggu í efnahagsmálum. Ríkið skal alls engu hlutverki hafa að gegna öðru en því að halda uppi öflugri löggæslu, vel læstum landamærum og tryggja að hér fái kristin gildi og kirkja að eflast og blómstra, samt með þjóðlegu ívafi.

Svarthöfði sér í hendi sér að þegar kemur að landamærunum, kristnum gildum og kirkjunni og þjóðlega ívafinu passar Sigríður Andersen við Miðflokkinn eins og flís við rass. Hins vegar er hann hugsi yfir því hvort þetta sé raunin í öllum málaflokkum.

Sem fyrr segir er Svarthöfði pólitískt nörd. Hann verður að gera þá játningu að lengi hefur hann fylgst með stjórnmálamanninum Sigríði Andersen af áhuga, enda fer hún ekki í grafgötur með sínar skoðanir. Ein birtingarmynd þessa er að Svarthöfði hefur klippt út og límt í möppu hverja einustu grein sem Sigríður hefur skrifað í Morgunblaðið síðustu tvo áratugina hið minnsta. Eru möppurnar nú orðnar fjórar.

Eitthvað rámaði Svarthöfða í að einhvern tíma hefði Sigríður Andersen skriflega viðrað skoðanir sem ganga þvert gegn stefnu Miðflokksins í landbúnaðarmálum og hugmyndafræði flokksins í byggðamálum. Leitin tók drjúga stund enda greinarnar margar sem þurfti að fletta í gegnum.

En, viti menn! Hinn 28. febrúar, hlaupárið 2016, birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins grein eftir Sigríði Á. Andersen undir yfirskriftinni: Áratugur án ávinnings.

Í greininni fjallar Sigríður um að ríkið hafi sölsað undir sig landbúnaðinn á Íslandi og að í gegnum búvörusamninga fari milljarðar á milljarða ofan í að styrkja íslenskan landbúnað, svipuð fjárhæð árlega og Háskóli Íslands fær á fjárlögum. Hún gagnrýnir að í nýjum búvörusamningum séu engin fyrirheit um að draga úr ríkisstyrkjum.

Orðrétt skrifar hún:

Sjálfsagt verða bændur ekki sviptir ríkisframlögum sem þeir hafa notið í áratugi „yfir nótt“. En hvað með á 10 árum? Væri það ekki raunhæfur aðlögunartími?

Hafi áður verið stemning fyrir því að framkvæmdavaldið geti ákveðið til 10 ára að færa tiltekinni atvinnugrein tugi milljarða á ári úr vösum skattgreiðenda þá er sá tími liðinn.

Ja hérna! Er það nú orðin stefna Miðflokksins að afnema alla styrki til íslensks landbúnaðar? Eða er nýfrjálshyggjumanneskjan Sigríður Andersen allt í einu fylgjandi því að fjármunum sé mokað úr ríkissjóði til styrktar tiltekinni atvinnugrein?

Svarthöfði minnist þess að aðildarviðræður Arnars Þórs Jónssonar við Miðflokkinn strönduðu nýlega á því að Miðflokksmönnum fannst Arnar Þór vilja að Miðflokkurinn gengi í Arnar Þór en ekki öfugt.

Hver skyldi staðan vera gagnvart Sigríði Andersen? Gekk hún í Miðflokkinn eða gekk Miðflokkurinn í Sigríði Andersen?

Svarthöfði bíður spenntur eftir svari við þeirri spurningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin