Framboðslistar Viðreisnar í Reykjavík fyrir komandi alþingiskosningar voru samþykktir á fundi svæðisráðs flokksins í kvöld, 24. október.
Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, leiðir listann í Reykjavíkurkjördæmi norður. Í öðru sæti er Pawel Bartoszek, stærðfræðingur. Þriðja sætið skipar Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, og í fjórða sæti er Katrín Sigríður Júlíu Steingrímsdóttir, klínískur barnasálfræðingur. Pétur Björgvin Sveinsson, markaðssérfræðingur, er í fimmta sætinu og Eva Pandora Baldursdóttir, verkefnastjóri stjórnsýslumála, er í því sjötta.
Hanna Katrín segist fyrst og fremst þakklát fyrir það mikla traust sem henni er sýnt.
„Svo er ég algjörlega í skýjunum með þennan sterka og fjölbreytta lista sem við erum að tefla fram. Það verður óhemju gaman að fara inn í þessa kosningabaráttu með öllu þessu frábæra fólki. Viðreisn hefur nýtt tímann vel undanfarin ár. Við höfum hlustað á fólkið og erum, í þeim anda, að setja fram lausnir sem fólk hefur kallað eftir úti í samfélaginu um árabil. Ég gæti ekki verið spenntari fyrir komandi vikum. Við hreinlega iðum í skinninu,“ segir Hanna Katrín.
Í Reykjavíkurkjördæmi suður er það Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður og fyrrverandi saksóknari, sem leiðir listann. Jón Gnarr, listamaður og fyrrverandi borgarstjóri, skipar annað sætið og Aðalsteinn Leifsson, fyrrverandi ríkissáttasemjari, er í þriðja sæti. Diljá Ámundadóttir Zoega, fyrrverandi varaborgarfulltrúi og sálgætir, er í fjórða sæti, Auður Finnbogadóttir, stefnustjóri Kópavogsbæjar, er í því fimmta og Gunnar Guðjónsson, ráðgjafi á BUGL, er í því sjötta.
Þorbjörg segir flokkinn fara bjartan inn í komandi kosningabaráttu.
„Við finnum meðbyr og skynjum breytingar í loftinu. Fólk vill breytingar. Að því leyti er okkar verkefni alveg skýrt. Að Viðreisn komist í ríkisstjórn svo hægt sé að fara að vinna að hagsmunum fólks og fyrirtækja. Við vitum að það er hægt að gera miklu betur en til þess að svo megi verða þarf alvöru hagsstjórn. Koma böndum á vextina og verðbólguna. Það er ekkert eðlilegt við þá vexti sem fólk þarf að borga af húsnæðislánum og það er heldur ekkert eðlilegt að búðarferð kosti hálfan handlegginn. Þetta er ástand sem bítur barnafjölskyldur einna helst.
Þorbjörg segir það jafnframt algjört forgangsmál hjá Viðreisn að hugað verði betur að líðan ungs fólks.
„Heilbrigðisþjónusta og skólarnir okkar gegna lykilhlutverki þar. Þessa þjónustu viljum við efla. Við ætlum að byrja á að því að forgangsraða í þágu barna. Það er löngu kominn tími á það.“
Framboðslisti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í heild sinni:
Framboðslisti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður í heild sinni: