Tómas Ellert Tómasson byggingarverkfræðingur sem sóttist eftir oddvitasæti Miðflokksins í Suðurkjördæmi hefur dregið framboð sitt til baka.
Í færslu á Facebook síðu sinni í morgun skrifar hann:
„Kæru vinir og félagar. Ég hef ákveðið að draga framboð mitt á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi til baka af persónulegum ástæðum. Ég þakka kærlega fyrir stuðninginn og hvatninguna. Þið vitið hver þið eruð ❤“
Í Orðinu á götunni hér á Eyjunni í gærkvöldi kom fram að valdabarátta væri að tjaldabaki hjá Miðflokknum í kjördæminu og að fylgismenn Karls Gauta Hjaltasonar lögreglustjóra í Vestmannaeyjum berðust af krafti gegn framboði Tómasar, sem þyki tákn nýrra tíma á meðan Karl Gauti er sagður fulltrúi fortíðarinnar.
Þá kom einnig fram að þessi valdabarátta væri talin tengjast átökum Tómasar Ellerts við Leó Árnason, eiganda fasteignafélagsins Sigtúns, sem rekur nýja miðbæinn á Selfossi, en Tómas greindi frá því á sínum tíma að Leó hefði reynt að múta honum með fjárhagsaðstoð í kosningabaráttu Miðflokksins á Selfossi gegn því að flokkurinn félli frá því að bærinn gerði tilboð í gamla Landsbankahúsið á Selfossi.
Þá kom einnig fram að Leó er viðskiptafélagi Kristjáns Vilhelmssonar, eins eiganda Samherja.
Heimildir eyjunnar herma að líklegasta niðurstaðan í framboðsmálum Miðflokksins í Suðurkjördæmi sé nú sú að Karl Gauti Hjaltason, sem áður sat á þingi fyrir Flokk fólksins og síðar Miðflokkinn eftir að honum var vikið úr flokki fólksins í kjölfar Klausturbarsmálsins, verði oddviti flokksins í komandi kosningum. Það mun þó ekki vera að fullu frágengið.
Tómas Ellert vildi engu bæta við yfirlýsingu sína á Facebook er Eyjan ræddi við hann í morgun. Sagðist hann vera sáttur við sína ákvörðun.
Samkvæmt heimildum Eyjunnar kann einhverra tíðinda vera að vænta af framboðsmálum í Suðurkjördæmi síðar í dag.