Diljá Ámundadóttir Zöega, sem sækir eftir því komast á framboðslista og þing fyrir Viðreisn í komandi alþingiskosningum, segist vilja nái hún á þing meðal annars breyta ákvæðum um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna. Sjálf hafi hún reynt það á eigin skinni að vera sagt upp í veikindaleyfi.
„Fyrir akkúrat einu ári síðan, í lok október í fyrra, fór ég að finna fyrir einhverjum breytingum á sjálfri mér. Fannst ég vera að missa fæturna, það var að molna undan mér einhvern veginn. Það var samt ekki fyrr en fjórum mánuðum síðar, eða 16. febrúar sl., sem ég leitaði til læknisins míns. Og var send samstundis í veikindaleyfi. Ég var komin í kulnun. Nánar tiltekið foreldra-kulnun. Síðasti vetur var fyrsti veturinn sem Luna þurfti ekki að leggjast inn á Barnaspítalann síðan hún fæddist og þegar sú ógn dvínaði þá var eins og taugakerfið mitt hafi hrópað upp yfir sig: “Jæja, nú þarf ég hvíld!”“
Diljá er einstæð móðir Lunu, sem fæddist á 25 viku meðgöngu árið 2018 og er með Downs-heilkenni. Diljá hefur verið opin um aðstæður þeirra mæðgna og þá glímu sem (einstæðir) foreldrar langveikra barna há oft við kerfið.
„Ég hef oft líkt verkefnum lífsins við fjallgöngur. Síðan Luna mín kom í heiminn hafa fjallshlíðarnar verið brattar upp í móti, misbrattar auðvitað, enda virkilega fallegir útsýnisstaðir þegar áfangasigrum hafa verið náð. Mér fannst ég vel skóuð og vel nestuð í þessum fjallgöngum. En ég var kannski minna meðvituð um hversu mikið magn af adrenalíni ég var með í kerfinu. Það sem adrenalín gerir fyrir okkur er að geta keyrt áfram í gegnum átök – og jafnvel án þess að finna nokkurn sársauka. Í lífi elsku stelpunnar minnar hafa komið upp alvarlegar aðstæður þar sem ég hef þurft að standa vaktina og svo halda áfram. Á þessum augnablikum er eins og ég hafi kannski tognað eða jafnvel fótbrotnað á leiðinni upp fjallið. En ekki fundið fyrir því fyrir adrenalíni. Og bara haldið áfram göngu minni án þess að hlúa að meiðslunum.
Adrenalín veitir fólki líka færi á að vera í afneitun. Afneitun er algengasti varnarhátturinn okkar. Við beitum tímabundinni afneitun til að lifa af erfiðar aðstæður, á meðan þær ganga yfir. Það sem hefur svo gerst hjá mér sl. vetur er að þegar heilsu-ógn Lunu dvínaði þá fór adrenalínið að leka úr mér og ég fór að finna fyrir eymslunum sem höfðu verið ýtt til hliðar og afneitað – og þess vegna fór ég að missa fæturnar. Ég gat ekki lengur gengið upp fjallið og þurfti tímabundið að skjóta upp tjaldbúðum í fjallshlíðinni og hvíla mig. Fá teygjubindi og gifs og heita bakstra. Þetta voru ordrur frá lækninum sem ég fékk 16. febrúar og ég skildi hlýða þeim.“
Diljá sem sat í borgarstjórn í 12 ár fyrir Besta flokkinn og síðar Viðreisn hefur menntað sig í sálgæslu hjá Endurmenntun HÍ og stundar hún nú meistaranám við Háskólann á Akureyri í sálrænum áföllum og ofbeldi. Segir hún að þrátt fyrir að hún hafi brennandi áhuga á öllu sem viðkemur afleiðingum áfalla og mikils álags hafi hún samt ekki búist við því að hún myndi fara í þessa örmögnun.
„Ég hafði ekki burði til að vera nógu læs á sjálfa mig. Ég sá flísina í augum náungans en ekki bjálkann í eigin auga. Svona er nú bara að vera mennsk. Enda tók það mig líka margar vikur að átta mig á því hversu illa haldin ég var orðin þegar ég byrjaði í veikindaleyfi. Það tekur líka sinn tíma að komast úr svokölluðu survival mode“ eftir að hafa verið inn í því að minnsta kosti sex ár. Svo ég varð að meðtaka það að þetta yrði nú líklegast soldið langhlaup.“
Dilja segist hafa verið búin með veikindaleyfi í rúma tvo mánuði þegar hún varð fyrir áfalli sem hafði töluverð áhrif á framgang mála. Hún hafi sent vinnuveitanda sínum framlengt læknisvottorð þar sem læknirinn taldi hana þurfa lengri tíma.
„Til baka fékk ég sent uppsagnarbréf. Uppsögn vegna skipulagsbreytinga. Engar launagreiðslur á uppsagnarfresti. Þetta braut mig alveg í tvennt. Fyrst og fremst vegna þess öryggis sem kippt var undan mér, ég hélt að ég væri í skjóli á meðan ég væri að ná bata, það var svolítið eins og tjaldbúðunum væri kippt ofan af mér og nú blési köldu á mig á meðan ég væri föst í fjallshlíðinni.“
Diljá segir afkomuóttann hafa heltekið hana, enda reki hún heimili á einum tekjum, og hafi hún á einum tímapunkti fengið vægt taugaáfall.
„Þetta lamaði mig alveg. Ég átti líka einstaklega erfitt með þetta vegna þess að þær tvær konur sem taka þessa ákvörðun og fylgja henni eftir án allrar samhygðar eru manneskjur sem mér þótti vænt um, hef þekkt í fjölda ára og þangað til ég fór í veikindaleyfi voru samskipti okkar virkilega góð frá mínum bæjardyrum séð. Við komumst ekki hjá því í okkar litla samfélagi að bindast mörgum böndum og þráðum og þess vegna verða svona högg ef til vill enn þyngri.“
Diljá segir tilgang skrifa sinna alls ekki vera að ata flór yfir þessa tilteknu stofnun sem hún starfaði hjá né þessa tvo stjórnendur sem ollu henni þessum mikla sársauka með þessari ákvörðun sinni; „að segja einstæðri móður langveiks og fatlaðs barns upp störfum á meðan hún er að glíma við tímabundinn heilsubrest sem rakin er til mikils álags vegna aukinnar umönnunarbyrgði.
Mig langar að beina spjótum mínum að því að þessi uppsögn er lögleg. Fólk í þessari stöðu er alfarið upp á velvild stjórnanda komið. Því miður hafði ég hana ekki.“
Diljá segir að hana langi, komist hún á þing, að gera lagabreytingu hvað þetta málefni varðar.
„Þegar mér leið sem verst í vor þá fann ég að þetta var ljósið við enda ganganna. Ég vildi að sársaukinn sem ég upplifði þá yrði til einhvers góðs og gera gagn. Ég vildi hafa áhrif á það að enginn í viðlíka viðkvæmri stöðu myndi búa þá ógn yfir sér að geta misst vinnuna, starfsöryggi sitt, ef kæmi til þess að þurfa að á tímabundnu leyfi að halda til að ná upp kröftum sínum. Á þessum tímapunkti varð draumurinn um að komast á Alþingi ljóslifandi og ég fann drifkraftinn gera mér gott – fann tilgang til að halda áfram.“
Bendir hún á að í gildi eru lög um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna, sem tóku gildi 19. maí 2000. Lögin eru stutt aðeins tvær greinar, og annað þeirra er gildistökuákvæði laganna. Í frumvarpinu með lögunum segir að
Frumvarpið er lagt fram samhliða tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Íslands á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 156, um jafna möguleika og jafnrétti til handa körlum og konum í atvinnu. Meginskuldbinding samþykktarinnar felst í 8. gr. hennar þar sem segir að fjölskylduábyrgð skuli ekki vera gild ástæða til uppsagnar. Í greinargerð segir að þar sé um að ræða nýja reglu í íslenskum vinnurétti.
Frumvarpið mun leiða til aukinna útgjalda fyrir alla launagreiðendur, þ.m.t. ríkissjóð, verði það að lögum, en þó er óvíst hversu mikið þau kunna að aukast. Ástæðan er sú að alls óvíst er í hvaða tilvikum muni reyna á lögin og því hefur ekki reynst unnt að afla upplýsinga um sambærileg tilvik á síðustu árum. Þó er óvíst að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.
Í lögunum segir að óheimilt er að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber. Með fjölskylduábyrgð er átt við skyldur starfsmanns gagnvart börnum, maka eða nánum skyldmennum sem búa á heimili hans og greinilega þarfnast umönnunar hans eða forsjár, svo sem vegna veikinda eða fötlunar.Diljá segist myndu vilja breyta lögum þessum og bæta verndandi ákvæði við þau: „Með fjölskylduábyrgð er einnig átt við veikindi rakin til álags og streitu vegna aukinnar umönnunarbyrðar.“
Diljá segist myndu vilja breyta lögum þessum og bæta verndandi ákvæði við þau: „Með fjölskylduábyrgð er einnig átt við veikindi rakin til álags og streitu vegna aukinnar umönnunarbyrðar.“
Diljá segist vona að sjálfsögðu að ekki mörg þurfi að láta að reyna á þessi lög.
„En mér finnst mikilvægt að þau séu ákveðið skjól og geti veitt öryggi fyrir þau sem þurfa á þeim að halda. Alveg eins og lög eiga að gera. Í mínum augum er þetta í raun geðheilbrigðismál. Þetta stuðlar að betri geðheilsu fram í tímann að hafa ekki ógn um að öryggi sé kippt undan þér á meðan þú ert að ná bata.
Mér finnst að Alþingi eigi að vera samansafn af fólki sem lífið hefur sent í allskonar fjallgöngur. Reynslan er svo kraftmikill mótor í hreyfiafli til að breyta til betri vegar.
Þannig lít ég á allar mínar erfiðar reynslur, þetta eru alltaf tækifæri til að vaxa og þroskast.“