fbpx
Föstudagur 14.mars 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Eyjan
Laugardaginn 19. október 2024 13:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar þrír býsna verkkvíðnir stjórnmálaflokkar, sem hafa setið að völdum um árabil og varið hver annan með kjafti og klóm, taka upp á því að hraða sér eins hratt hver frá öðrum, og raunar hver sem betur getur, svo að segja með æluna í hálsinum, verður vitaskuld til harla afkáralegur farsi.

Það má allt eins líkja þeirri atburðarás, sem landsmenn hafa glápt á síðustu dagana í íslenskri pólitík, við leikhús fáránleikans. Og hefði kannski verið við hæfi að senda það út í ruglaðri útsendingu, svo aðrir en innmúraðir hefðu komist hjá því að kíkja á prógrammið.

En svona eru nú engu að síður stjórnmál veruleikans þegar persónur og leikendur við stjórnarborðið geta ekki lengur hylmt yfir uppsafnaða andúð og óþol, hver í annars garð, og raunar meðfæddan ímugust ef út í slíkt er farið. Það sem hafði verið reynt að fela með á að giska vel skrifaðri fléttu og handriti, svo og yfirveguðum leiktilþrifum, lengst af, var í rauninni bara illa skrifaður skáldskapur þegar sagan var skoðuð ofan í kjölinn.

Svo mjög raunar að aðalleikararnir héldu ekki lengur þræði.

Og þegar kom loks að leikslokum vissu þeir raunar ekki í hvaða leikriti þeir voru, svo sem skilningur þeirra á starfsstjórn ber vitni um.

En landsmálin eru ekki leikur einn, hvað þá sýndarmennska. Það mega þau aldrei vera. Og er í því efni nauðsynlegt og nærtækast að grípa til orða Finnbjörns A. Hermannssonar, forseta Alþýðusambands Íslands, sem lét hafa eftir sér þau ummæli á dögunum að landsmenn þurfi nú um stundir að hræðast fremur mannanna verk en öflin í iðrum jarðar. Það má lesa þann þunga dóm úr orðum hans að samstarfsflokkarnir í þessum ofantéða sýndarveruleika hafi í heil sjö ár sofið á verðinum – og gætt fremur eigin hagsmuna en íslensku þjóðarinnar. Fyrir vikið séu „sérhagsmunir að verða ofan á gagnvart hagsmunum almennings, meðal annars á sviði orkumála, heilbrigðiskerfisins og velferðarmála,“ segir forseti ASÍ og bætir því við að þessi þróun sé án samráðs við almenning – og andlag alls þessa sé að „fjármagnseigendur hagnast á meðan auknar byrðar eru settar á almenning.“

„Það sem átti að búa til stöðugleika fæddi fátt annað af sér en stöðnun, stjórnlyndi, spillingu og sjálfsvinavæðingu sem ekki var einu sinni reynt að fela fyrir nokkrum manni.“

Hér er auðvitað komin lykilástæða þess að VG mælast með allt niður undir 2,2 prósent í könnunum þegar röskur mánuður er til þingkosninga. Flokksmenn týndu erindinu. Og þeim var kannski bara sama um það í skiptum fyrir kæruleysi meðvirkninnar.

Þess vegna er það æði ósannfærandi, svo ekki sé meira sagt, að einmitt þessi flokkur sem límdi samstarfið saman, raknar allt í einu úr rotinu og man eftir inntaki sínu. Sú glögga og yfirvegaða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lýsir þessu býsna vel í pistli sínum í vikunni. „Nú er stjórnin í andarslitrunum og þá fyllast þau heilögum anda og vilja alls ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum í starfsstjórn í sex vikur,“ skrifar hún og spyr hvernig beri að skilja þetta. „Í þessu endurspeglast skýrar en oft áður að hjá VG er ímyndin allt en inntakið aukaatriði,“ bætir hún við, svo svíður undan.

Stjórnmál hins ómögulega sem stunduð hafa verið síðustu sjö árin eru mögulega versta pólitíkin sem var í boði frá efnahagshruninu. Það sem átti að búa til stöðugleika fæddi fátt annað af sér en stöðnun, stjórnlyndi, spillingu og sjálfsvinavæðingu sem ekki var einu sinni reynt að fela fyrir nokkrum manni.

Aldrei fyrr í stjórnmálasögunni hér á landi hefur formaður og ráðherra flokks verið verðlaunaður svo ríkulega fyrir afsögn sína og afglöp að hann var leiddur inni forsætisráðuneytið af fyrrum mesta andstæðingi sínum. En þetta helst sem varast vann, varð þó að að koma yfir hann, svo vitnað sé í Passíusálmana, sem líklega er við hæfi.

Því ef til vill er enn og aftur svo komið að Guð verði að blessa Ísland.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Gamla Sovétið leggur hægrinu lið

Svarthöfði skrifar: Gamla Sovétið leggur hægrinu lið
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Rofið traust

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Rofið traust
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Klæðnaður þingmanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Klæðnaður þingmanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ekki vera undirsáti – vertu skapandi þátttakandi

Steinunn Ólína skrifar: Ekki vera undirsáti – vertu skapandi þátttakandi
EyjanFastir pennar
13.02.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Innviðir eru súrefnisæðarnar

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Innviðir eru súrefnisæðarnar
EyjanFastir pennar
12.02.2025

Thomas Möller skrifar: Verum viðbúin!

Thomas Möller skrifar: Verum viðbúin!
EyjanFastir pennar
06.02.2025

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Gervistéttarfélagið „Vanvirðing“ er aðför að öllu launafólki á Íslandi

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Gervistéttarfélagið „Vanvirðing“ er aðför að öllu launafólki á Íslandi
EyjanFastir pennar
02.02.2025

Björn Jón skrifar: Að eiga sæti við borðið

Björn Jón skrifar: Að eiga sæti við borðið