fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Eyjan
Föstudaginn 18. október 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í komandi kosningum þarf að ræða aðalatriði og láta flokkana ekki villa okkur sýn með því að skipa okkur í hópa með eða á móti í hverjum þeim atriðum sem þeim sýnist að tryggi þeim fylgi landsmanna. Nú verðum við að standa saman öll sem eitt. Eitt lið sem spilar fyrir hönd Íslands.

30. nóvember næstkomandi kjósum við um landnæðið, miðin og náttúruna. Ekkert annað. Sameignina okkar. Undirstöðuatriði sem varða framtíð okkar. Auðæfin og möguleikana sem þau skapa til að búa í haginn fyrir velferð landsmanna.

Hér les Steinunn Ólína okkur pistilinn:

Steinunn Ólina pistill 3 - 181024.mp4
play-sharp-fill

Steinunn Ólina pistill 3 - 181024.mp4

Þeir möguleikar munu tapast að eilífu ef við kjósum yfir okkur fólk sem heimilar frekari gjafakvótagjörninga eða útsölutilboð til erlendra aðila sem vilja nýta hér allt sem fyrir er. Ef við töpum frekara eignarhaldi á okkar auðlindum getum við gleymt því að staða heimilanna í húsnæðis- eða velferðarmálum breytist til batnaðar.

Sá sem selur frá sér mjólkurkúna þarf eftirleiðis að kaupa eða sníkja alla mjólk. Þetta er svona einfalt.

Nú vitum við að eitt grænþvottafyrirtækið, Carbfix, fékk fyrirgreiðslu og styrki án þess að talað væri við okkur. Carbfix, með loforð í vasanum frá bæjaryfirvöldum í Hafnarfirði árið 2021, fékk Evrópustyrk í okkar nafni byggt á þessu loforði. Ekki var þetta rætt á þingi, ekki voru bæjarbúar í Hafnarfirði spurðir. Allt fór þetta fram án vitundar almennings. Svona á vitanlega ekki að líðast í lýðræðisríki.

En svona er þessu farið víða um land, búið að semja, ráðstafa og fyrirgreiða, alltaf utan þings. Hvers virði er þingið okkar ef stjórnmálamenn og ráðafólk láta lýðræðið lönd og leið og fara bara sínu fram? Einskis virði. Við höfum ekkert við slíkt fólk að gera. Nú skulum við kjósa föðurlandsvini ekki föðurlandssvikara.

Reiðir eru þeir nú sem komu ekki lagareldisfrumvarpinu handónýta í gegnum þingið í vetur en áfram munu þeir sæta lagi. Það má ekki gerast. Vonandi munu óp þeirra sem ætla sér álnir í vindorkuruglinu heyrast landshorna á milli eftir næstu kosningar. Og bara svei þeim, sem eru byrjaðir að mylja niður fjöllin okkar í útflutningssalla. Hverskonar fólk selur fjöll eða telur sig geta selt fjöll? Hver á fjall? Fjallið á sig sjálft! Við erum ljónheppin að njóta þess!

Við getum gert svo miklu betur.

Fyrirgreiðslufólkið hringinn í kringum landið sem hefur tekið að sér að greiða fyrir óskapnaðinum sem fylgir brunaútsölu á landsins gæðum, með stimamýkt við erlenda og innlenda ágirndarsjúklinga verður að sjá að sér. Hætta að halla sér að óskammfeilnu valdafólki fremur en að fólkinu sínu, nágrönnum sínum sem í bæjarfélögunum búa. Þessar klíkur þarf að leysa upp.

Sókn eftir yfirráðum á vatns- og rafmagnsmarkaði á heimsvísu hefur aldrei verið meiri, við verðum einfaldlega að tryggja orkuframleiðslu og vatnsöryggi þjóðarinnar með skilyrðislausu eignarhaldi þjóðarinnar. Við eigum að virkja en gera það sjálf og hafa af því tekjur sem öllum nýtast. Landnæði á Íslandi er eftirsótt og mun verða enn eftirsóttara þegar fram líða stundir. Við verðum að hafa vit til að fara vel með það sem okkur var gefið en ekki selja það frá okkur eins og asnar.

Frá 2018 hafa stjórnvöld holað innan velferðarkerfið, eftirlitsstofnanir, bæjar og sveitastjórnir hafa markvisst verið veiktar og beinlínis staðið í vegi fyrir frumsköpun í atvinnulífinu á landsbyggðinni. Spyrjið skapandi frumkvöðla hvernig staðan sé úti á landi, því ekkert má það framkvæma í byggðum landsins sem valdhafar geta ekki gert sér og sínum að fyrir fram féþúfu á kostnað heildarinnar.

Fjársveltum sveitarfélögum á Íslandi hafa miskunnarlaust verið boðnar dúsur fyrir greiðann. Þessi leikur er leikinn víða um heim. Sá leikur að ógeðfelld fyrirtæki fara um lönd og leita uppi spilltar ríkisstjórnir sem eru tilbúnar að selja undan löndum sínum auðæfi sem skapa gríðarlegar tekjur, fyrir skyndigróða örfárra heimamanna.

Þessu fylgir ætíð fagurgali stjórnvalda um uppbyggingu, trygga og bjarta framtíð.

Og við því gleypir úrvinda og vonlítið fólk. Falskar vonir vakna.

Svo er uppgripavinna stutta stund en áður en við er litið er sú atvinna sem eftir stendur skipuð erlendu láglaunafólki sem hægt er að misbjóða auðveldlega í skjóli vondra vinnulaga. Örlítið seinna standa eftir mygluð mannvirki „gjafir frá fyrirtækjum“ sem sveitarfélagið hefur ekki efni á að halda við. Loftlausir hoppubelgir á grasflöt sem enginn nýtir.

Við verðum að passa eigur okkar. Við verðum að hætta að selja ömmu okkar. Annars getum við gleymt því að eiga hér nokkra framtíð.

Látum ekki breyta Íslandi í mengandi verstöð fyrir fátækt farandverkafólk.

Við megum ekki fara illa með íslenska jörð, við eigum ekki þetta land og okkur ber að skila því betur en við komum að því.

Ef við stöndum ekki í lappirnar og erum sammála um aðalatriðin höfum við tapað fyrir fullt og allt.

Um þetta kjósum við í alþingiskosningunum í nóvember.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn

Ágúst Borgþór skrifar: Að dæma konu fyrir sjálfsvörn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvort gekk Sigríður Andersen í Miðflokkinn eða öfugt?

Svarthöfði skrifar: Hvort gekk Sigríður Andersen í Miðflokkinn eða öfugt?
EyjanFastir pennar
13.10.2024

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði

Björn Jón skrifar – Að hætta tilgangslausu streði
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins
EyjanFastir pennar
06.10.2024

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna

Björn Jón skrifar – Fjölmiðlamálið og eyðilegging stjórnmálanna
EyjanFastir pennar
05.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískustu ummæli aldarinnar á Íslandi

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitískustu ummæli aldarinnar á Íslandi
Hide picture