fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Sara vill leiða lista Pírata í Reykjavík –  „Vil berjast fyrir því að stjórnmálin verði meira en pólitísk leikrit“ 

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 17. október 2024 16:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sara Elísa Þórðardóttir, Sara Oskarsson listakona, hyggst bjóða sig fram í prófkjöri Pírata fyrir komandi alþingiskosningar. Í langri færslu á Facebook þar sem Sara fer yfir ástæðu þess að hún vill bjóða sig fram og hagsmunamál sín og gildi, segist hún leita eftir að leiða listann í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.

„Vinir! Hjálp óskast! Ég býð mig fram í prófkjöri Pírata fyrir komandi Alþingiskosningar á höfuðborgarsvæðinu, því ég vil berjast fyrir því að stjórnmálin verði meira en pólitísk leikrit. Ég er tilbúin í þetta af öllum hug og hjarta og leitast eftir að leiða listann í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.“

Sara sat sem varamaður suðvesturdæmis á þingi fyrir Pírata mars 2017 og maí–júní, júlí og september 2018, janúar–apríl 2019, nóvember 2020 – mars 2021 og maí 2022.

Sara er fimm barna móðir og hefur langa reynslu af móðurhlutverkinu sem foreldri, einstæð móðir, fráskilin og nú gift móðir ungbarns sem er nýbyrjað á leikskóla. Segir Sara að þessi reynsla muni gagnast á þingi þar sem þar hafi vantað málsvara foreldra, umönnunaraðila og barna.

„Við þurfum stjórnmálafólk sem talar við fólk, en ekki til þess. Það sem skiptir mestu máli fyrir mig er að hlusta og tala af einlægni, og með virðingu fyrir þeim sem við erum að þjóna. Ég vil þjóna samfélaginu af heiðarleika og af auðmýkt. Ég óska þess að við tökum sameiginlegt gildismat okkar til endurskoðunnar, að við metum mennskuna fram yfir annað.

Fjölskyldan er grunnur samfélagsins. Ég er 5 barna móðir og hef 24 ára reynslu af foreldrahlutverkinu og öllu sem að því snýr. Ég varð móðir ung að árum. Ég hef verið einstæð móðir, fráskilin móðir og nú nýgift móðir ungabarns sem var að byrja á leikskóla.

Ég veit fyrir víst að þessi reynsla mun gagnast þjóðinni inni á Alþingi vegna þess að þar hefur lengi tilfinnanlega vantað málsvara foreldra, umönnunaraðila og barna!

Ég þekki í þaula kröfurnar sem eru gerðar til foreldra og hvernig samfélagið okkar er byggt upp, veikleika þess og styrkleika. Ég þekki fórnirnar sem þarf að færa og hversu gríðarlega mikilvægt það er að samfélagið taki utan um foreldra og umönnunaraðila.

Stærsta fyrirtækið og það mikilvægasta á Íslandi eru fjölskyldur landsins. Allar tegundir og samsetningar fjölskyldna: einstæð foreldri, ungir foreldrar, fólk í námi og einning umönnunaraðilar aldraðra foreldra – sem getur á tíðum verið svipað því að vera með barn á sínu framfæri.“

Segir að leysa þurfi húsnæðisvandann

Sara segir að leysa þurfi skort á húsnæði hérlendis, ekki bara tímabundið heldur til framtíðar, vaxtaumhverfið þurfi að laga og beita þurfi sér af alvöru í málaflokknum.

„Neyðarástandið á húsnæðismarkaði þarf að leysa með afgerandi hætti og til frambúðar. Við getum ekki leyft að bróðurhluti launa fari í vaxtagreiðslur og að fólk sé fast í eilífri baráttu við að ná endum saman. Slíkt hefur áhrif inn í allt samfélagið.

Við erum að missa fólk úr landi, og það er ekki einungis vont fyrir fjölskyldur og aðstandendur heldur er það alvarlegt fyrir samfélagið allt. Á Íslandi duga varla tvær fyrirvinnur til að ná endum saman. Vaxtaumhverfið hérlendis er fjandsamlegt þeim sem hér vilja búa. Húsnæðiskrísan er óforsvaranlegt klúður sem þarfnast úrlausnar strax og þá þarf margt að koma til að stjórnmálafólk verður að fara að beita sér af alvöru í málaflokknum.

Atvinnulífið á ekki eitt að stýra samfélagsgerðinni okkar, heldur fyrst og fremst fjölskyldur og þarfir þeirra. Leikskólamálin þurfa alvöru fókus, fæðingarorlofið þarf að lengja og þarfir foreldra og barna eiga að vera í fyrirrúmi við þá vinnu.“

Sara telur að samfélag þar sem mál fjölskyldunnar eru höfð í forgrunni sé betra og jafnara samfélag. Ekki sé ásættanlegt að börn búi við fátækt, bæta þurfi geðheilbrigðismál og fjölskyldumál samfélagsins.

„Ég trúi því að samfélag þar sem fjölskyldan er í forgrunni verði jafnara og betra. Foreldrar og aðrir uppalendur ættu ekki að þurfa að lifa í stöðugum afkomukvíða. Við þurfum að skapa aðstæður þar sem fólk getur byggt upp líf sitt á traustum grunni – þar sem húsnæði og öruggt skjól eru sjálfsögð mannréttindi, ekki munaður. Það er ekki ásættanlegt að það séu börn sem búi við fátækt á Íslandi!

Ég vil vera talsmaður foreldra, fjölskyldna, umönnunaraðila á Alþingi Íslands. Ég er menntaður listamaður og hef því hæfileikann til þess að hugsa út
fyrir kassann og koma með skapandi lausnir og hugsun inn í mál sem eru stöðnuð.

Samfélagið okkar á að byggja á heiðarleika, samkennd og umhyggju fyrir fjölskyldum og framtíð barna okkar.

Fjölskyldumálin taka yfir alla þætti samfélagsins okkar og við ættum að meta aðgerðir út frá þeirri sameiginlegu þörf sem fjölskyldurnar hafa. Öruggt líf! Undir fjölskyldumálin falla; heilbrigðismál, menntamál, samgöngumál, húsnæðismál, geðheilbrigðismál og flest önnur mál samfélagsins, sem oftar eru skoðuð með gleraugum fjármagns en mannúðar og mannauðs. Því vil ég snúa við.

Fæðingartíðni hefur lækkað á Íslandi hreinlega vegna þess að ungar fjölskyldur „hafa ekki efni á” því að eignast börn, koma þaki yfir sig og sína og lifa mannsæmandi lífi. Þessu getur eitt fjármagnsríkasta samfélag jarðarinnar breytt, með öðrum og mannlegri áherslum og gildum. Ísland er, eins og er, fjölskyldufjandsamlegt.

Geðheilbrigðismál eru mér mjög hugleikin. Við verðum sem samfélag að viðurkenna að geðræn veikindi eru jafngild og jafn brýn og önnur veikindi. Sjálfsvígstölur á Íslandi eru sláandi og þar þarf að bregðast við með alvöru aðgerðum.

Geðheilbrigðismálin eru líka fjölskyldumál. Fólk sem hefur áhyggjur af afkomunni rambar stundum á barmi hyldýpis. Við getum breytt þeirri þróun með því að setja fjölskylduna í forgrunn og spyrja alltaf þegar ákvarðanir eru teknar fyrir fólkið okkar: Kemur þetta börnum okkar, feðrum, mæðrum, öfum og ömmum vel?“

Vill ekki gefast upp á Íslandi

Sara segir undir lokin að margir séu að gefast upp hérlendis og leiti út fyrir landsteinana að betra lífi. „Mig langar ekki að gefast upp á Íslandi, og ég vona að þið gerið það
ekki heldur.“

„Við erum að missa mannauð úr landi, fólk er að gefast upp og flýtur út fyrir landsteinana í leit að betra lífi. Það er grátleg og vond þróun fyrir samfélagið. Ég vil ekki að Ísland verði land þar sem fólk finnur enga von. Ég trúi því að við getum gert betur, að með samvinnu, samræðu og auðmýkt getum við skapað samfélag þar sem fólk finnur fyrir öryggi, samkennd og virðingu. Samfélag þar sem fólk upplifir að rödd þeirra skiptir máli.“

Sara segir að hjarta sitt slái hjá Pírötum og grunnstefna sé eitt fallegasta kver sem finnst:

Áhersla á rökræðu og upplýsingamiðlun sem grunnforsendu ákvarðanatöku.
Gagnrýning hugsun og upplýst stefna.
Borgararéttindi.
Friðhelgi einkalífsins.
Gagnsæi og ábyrgð.
Upplýsinga og tjáningafrelsi.
Beint lýðræði og sjálfsákvörðunarréttur.

„Ég hef töluverða reynslu af þingmennsku hafandi verið varaþingmaður síðustu þrjú kjörtímabil og veit því nákvæmlega hvað ég væri að fara út. Þekki starfið, vinnuálagið, skuldbindinguna og eldmóðinn sem þarf til að halda starfið út,“ segir Sara sem segist tilbúin í þá snörpu kosningabaráttu sem framundan er og muni leggja annað til hliðar til þess að vinna með flokknum að því að
koma sem flestum Pírötum inn á þing.

Sara segist þó þurfa hjálp í prófkjörinu sem fer fram nú um helgina hjá Pírötum.

„Þú getur skráð þig í Pírata og kosið í prófkjörinu sem fer fram nú um helgina óháð búsetu. Skráningin er án allra skuldbindinga og trúnaðarmál. Ég væri þér endalaust þakklát ef að þú skráir þig í gegnum hlekkinn hér og kjósir mig til að leiða lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“