Fyrr í dag fjallaði DV um þau ummæli Andrés Jónssonar, almannatengils, að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, væri mótfallin því að Halla Hrund yrði oddviti flokksins í kjördæminu. Fullyrti Andrés, sem hefur löngum verið vel tengdur inn í Samfylkinguna, þetta í viðtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni, en þar var hann gestur ásamt Þórhalli Gunnarssyni, fjölmiðlamanni, en saman stýra þeir hlaðvarpinu Bakherbergið þar sem einkum er fjallað um innlend stjórnmál.
Orðið á götunni er að saga Andrésar byggist á misskilningi og því fari fjarri að Kristrún sjái forsetaframbjóðandann fyrrverandi ekki sem álitanlegan kost fyrir Samfylkinguna. Hún yrði á heimavelli í kjördæminu en eins og Halla Hrund hélt kyrfilega á lofti í kosningabaráttu sinni þá eyddi hún öllum sumrum í æsku á bæ ömmu sinnar og afa í Vestur-Skaftafellssýslu, sem tilheyrir kjördæminu í dag, og hefur þangað sterkar taugar.
Kristrún er ekki ein um þá skoðun. Heimildir Orðsins eru að fleiri flokkar í kringum miðjuás stjórnmálanna hafi nálgast Höllu Hrund og boðið henni eftirsóknarvert sæti á listum sínum. Liggur orkumálastjóri nú undir feld en líklegt má telja að hún láti slag standa og taki þátt í annarri kosningabaráttu sinni á árinu.