fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Eyjan

Thomas Möller skrifar: Færeyjar – Ísland: 14-2

Eyjan
Þriðjudaginn 15. október 2024 15:30

Thomas Möller er varaþingmaður Viðreisnar í SV kjördæmi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á netinu kemur fram að Ísland og Færeyjar hafa mæst 25 sinnum í knattspyrnu. Ísland hefur unnið 23 leiki, Færeyjar einn og einn hefur endað með jafntefli. Yfirburðir okkar leikmanna í knattspyrnu eru miklir.

Það var súrt að tapa fyrir Tyrkjum í gær 4-2. Enn súrara var þegar Danir unnu okkur fjórtán-tvö um árið.

En í hagstjórn skora Færeyingar mun fleiri mörk en við. Mér sýnist að þeir hafi unnið okkur 14-2 í þeirri íþrótt.

Skoðum samanburð á þessum tveimur nágrannalöndum

Landnám Færeyja var nokkrum áratugum á undan okkar landnámi. Þeir stofnuðu sitt þing um 900, þrjátíu árum á undan okkur. Þeir urðu kristnir árið 999, ári á undan okkur.

Löndin eiga það sameiginlegt að vera fámenn. Færeyingar eru um 55 þúsund, við nálgumst 400 þúsund íbúa. Hagvöxtur hefur verið svipaður hjá báðum þjóðum síðastliðinn áratug.

Bæði löndin eru með lítil hagkerfi sem eru stöðug og með sjálfstæða efnahagsstjórn. Bæði löndin eru utan ESB. Bæði löndin eru með fábreytta útflutningsatvinnuvegi, aðallega fiskveiðar og fiskeldi auk ferðaiðnaðar. Við erum með okkar orkugeira og álframleiðslu. Þeirra stóriðja er laxeldi.

Skoðum nánar samanburðinn og mörkin sem þeir skora:

  1. Við erum með sjálfstæðan gjaldmiðil meðan Færeyingar eru með krónu sem er gefin út af seðlabanka Danmerkur og er ekki sjálfstæður gjaldmiðill heldur sérútgáfa af dönsku krónunni. Færeyska krónan er með sama gildi og danska krónan. Færeyingar búa þannig við stöðugan gjaldmiðil með fastgengisstefnu meðan við búum við gjaldmiðil sem er á mikilli hreyfingu, aðallega niður á við enda hefur krónan okkar rýrnað um 99,9% miðað við dönsku/færeysku krónuna frá því hún var tekin upp.
  2. Færeyingar þurfa hvorki Seðlabanka né seðlabankastjóra sem kosta um 10 milljarða á ári.
  3. Þeir þurfa engan gjaldeyrisvarasjóð sem kostar okkur um 40 milljarða á ári.
  4. Færeyskir lífeyrissjóðir búa ekki við gjaldeyrishöft eins og þeir íslensku.
  5. Færeyingar eru ríkari en við en þjóðarframleiðsla þeirra á mann er um 77 þúsund dollarar eða um 7% hærri en okkar þrátt fyrir öll okkar auðævi í jarðhita, fallvötnum og álframleiðslu.
  6. Atvinnuleysi í Færeyjum er það minnsta í heiminum eða undir 1%. Atvinnuleysi á Íslandi er um fjórum sinnum meira en í Færeyjum. Þessi staðreynd sannar að fastgengi er ekki ávísun á atvinnuleysi eins og margir stjórnmálamenn á Íslandi fullyrða.
  7. Verðbólgan í Færeyjum er nú um 2,6% meðan hún er um 6% á Íslandi og hefur þeim tekist að hafa mun meiri stjórn á verðbólgunni en við síðustu 10 ár með aðhaldi í útgjöldum ríkisins. Hér á landi stendur ríkissjóður á bensíngjöfinni með stöðugri útþenslu ríkisins meðan Seðlabankinn stendur á bremsunni til að lækka vexti sem er fráleit hagstjórn sem fær falleinkunn.
  8. Vextir í Færeyjum eru nú 3,1% (20 ára lán, fastir vextir) meðan vextir á Íslandi eru um 9,4% (3ja ára lán, fastir vextir). Þessir okurvextir á Íslandi eru að valda heimilum, fyrirtækjum og hinu opinbera aukakostnaði sem nemur hundruðum milljarða króna ári hverju.
  9. Matarverð í Færeyjum er allt að 60% lægra en á Íslandi ef skoðaðar eru auglýsingar Bónuss á Íslandi og Bónuss í Færeyjum. Munar þar mestu um verð á þeim iðnaðarmatvælum sem eru með verndartolla í innflutningi hér á landi en slíkir tollar eru óþekkt fyrirbrigði í Færeyjum.
  10. Færeyski ríkissjóðurinn skuldar um 7% af þjóðarframleiðslunni meðan okkar ríkissjóður skuldar um 66% af þjóðarframleiðslu.
  11. Vextir sem íslenska ríkið borgar af sínum skuldum eru um þrefalt hærri en vextir þeir sem Færeyskir ríkissjóðurinn borgar. Vaxtakostnaður okkar er því margfalt hærri en hjá Færeyjum.
  12. Færeyingum hefur tekist að halda rekstri ríkissjóðs síns í ágætu jafnvægi meðan okkar ríkissjóður hefur verið rekinn með halla meira eða minna síðastliðin 10 ár.
  13. Færeyjar eru eitt kjördæmi sem þýðir að atkvæðavægi er jafnt hjá öllum kjósendum. Við erum með allt að tvöfalt vægi atkvæða í vissum kjördæmum sem þýðir að við sem búum á Suðvesturhorninu erum í raun aðeins með hálft atkvæði í komandi Alþingiskosningum þann 30. nóvember næstkomandi.
  14. Biðlistar í heilbrigðiskerfi Færeyja eru nánast óþekkt fyrirbrigði meðan við búum við biðlista á nánast öllum sviðum heilbrigðisþjónustu.

Hvað getum við lært af Færeyingum

Bæði hagkerfin eru einföld og fábreytt. Eini raunverulegi munurinn á þeim er sá að við erum með „sjálfstæðan“ flöktandi gjaldmiðil meðan Færeyingar eru með stöðugan gjaldmiðil sem býr við fast gengi enda tengdur við dönsku krónuna og þar með evruna.

Má því segja að Færeyingar eru í raun með evru.

Samt eru þeir með eitt lægsta atvinnuleysið í heiminum. Þar fóru helstu rökin fyrir krónunni okkar sem hamrað hefur verð á síðastliðna áratugi af stjórnmálaflokkum og seðlabankastjóra.

Þó að okkar króna hafi hugsanlega gagnast okkur í áföllum þegar fiskveiðar voru aðalatvinnugrein okkar hefur hún líka verið uppspretta vandamála, vaxtaálags, eignarýrnunar og mikilla sveiflna í efnahagslífinu, jafnvel talin vera ein aðal orsök efnahagshrunsins 2008.

Krónan okkar kostar okkur mikið. Hún veldur vaxtaálagi sem kostar þjóðina um 400 milljarða á ári. Hún tryggir fákeppni og samkeppnisleysi í bankastarfsemi og tryggingaþjónustu. Hún kallar á agaleysi þar sem hún getur leiðrétt hagstjórnarmistök.

Það sem Færeyingar geta lært af okkur er:

  1. Okkar frábæru lífeyrissjóðir.
  2. Nýting okkar á jarðhita.

Niðurstaða mín er þessi:

  • Þeir hafa í raun unnið okkur 14-2 í hagstjórn og opinberum rekstri eins og samantekin hér að ofan sýnir.
  • Við getum því lært mikið af Færeyingum hvað varðar hagstjórn, gjaldmiðilsmál og aðhald í ríkisfjármálum.
  • Ísland hefur alla burði til að njóta verulegs ábata af því að gerast þátttakandi í alþjóðlegri mynt.
  • Agi í ríkisfjármálum er hornsteinn stöðugleika í landinu okkar.
  • Jafnt vægi atkvæða er lykillinn að sátt milli landshluta.
  • Svo bora þeir göng gegnum fjöll og undir firði meðan við höfum dregið lappirnar ár eftir ár í þeim efnum.

Viðreisn er eini flokkurinn á Alþingi sem af alvöru hefur það á sinni stefnuskrá að fara „Færeyjaleiðina“ í gjaldmiðilsmálum; jafna vægi atkvæða, lækka matvælakostnað, hagræða í ríkisrekstri og útrýma biðlistum í heilbrigðiskerfinu.

Höfundur er varaþingmaður Viðreisnar í Suðvestur kjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum