fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Framboð Þórdísar Kolbrúnar í Kraganum löngu ákveðið – hluti af stærra plotti

Eyjan
Þriðjudaginn 15. október 2024 16:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athygli vakti að í Morgunblaðinu í morgun lýsti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi, því yfir að hún íhugi alvarlega að bjóða sig fram í Suðvesturkjördæmi í komandi þingkosningum.

Orðið á götunni er að Þórdís Kolbrún standi frammi fyrir djúpstæðum vanda hvað framboðsmál varðar. Hún þykir lítt hafa sinnt kjördæmi sínu á þessu kjörtímabili og talað er um að hún hafi varla sést þar á ferð, hvað þá meira.

Þá þykir Skagamönnum þeir hafa orðið illilega fyrir því sem gjarnan er lýst sem stórkostlegum dómgreindarbresti þegar Þórdís Kolbrún ákvað að loka sendiráði Íslands í Rússlandi og takmarka mjög umsvif sendiráðs Rússlands hér á landi. Ísland var eina ríkið sem lokaði sendiráði sínu í Moskvu vegna innrásar Pútíns í Úkraínu. Rússar tóku því illa og Skagamenn kenna þessu frumhlaupi Þórdísar Kolbrúnar um að Skaginn 3X, sem var með mikla starfsemi í Rússlandi, lenti í gríðarlegum rekstrarerfiðleikum og var að lokum tekinn til gjaldþrotaskipta fyrr á þessu ári. Skaginn 3X var einn stærsti og blómlegasti vinnustaðurinn á Akranesi, gamla heimabæ Þórdísar Kolbrúnar.

Orðið á götunni er að uppstillinganefnd Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi hefði án efa stillt henni upp að nýju sem oddvita listans þar en að við hafi blasað að listi flokksins, með varaformanninn í broddi fylkingar, myndi hljóta afleita kosningu, mun verri en annars staðar á landinu. Slík útkoma myndi án efa skaða mjög möguleika Þórdísar Kolbrúnar á að taka við formennsku, en búast má við því að nýr formaður Sjálfstæðisflokksins verði kosinn á landsfundi í febrúar.

Orðið á götunni er að hugmyndin um framboð Þórdísar Kolbrúnar í Kraganum sé ekki ný af nálinni. Vitað er að Bjarni Benediktsson hefur horft til hennar sem arftaka síns á formannsstóli. Ætlunin hafi verið að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherrann sjálfur, myndi leiða hana til hásætis í flokknum á landsfundinum í febrúar og hún myndi síðan, sem nýr formaður, taka sæti Bjarna sem oddviti flokksins í kjördæmi hans.

Nú hefur atburðarásin hins vegar snúist á hvolf og kosið verður til þings fyrst og síðan kemur landsfundurinn. Orðið á götunni er að nú sé ætlunin að Bjarni leiði listann í Kraganum en hætti síðan í stjórnmálum snemma á næsta ári. Þórdís Kolbrún ætli sér 2. sætið á eftir Bjarna og þegar hann segi af sér þingmennsku muni hún færast upp í oddvitasætið.

Sá er galli á gjöf Njarðar að fyrir er í 2. sætinu Jón Gunnarsson sem ætlar ekki að gefa frá sér sætið. Líklega hefur Bjarni afl til að tryggja Þórdísi Kolbrúnu sætið í uppstillingu sem fram fer um helgina en ólíklegt er að Jón og Bryndís Haraldsdóttir og Óli Björn Kárason, hinir þingmenn flokksins í Kraganum, sætti sig þegjandi við það, enda ljóst að líklegt er að 4. sætið er í mikilli hættu og jafnvel hið þriðja, verði úrslitin mjög slæm fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Orðið á götunni er að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins í bæði Suðvestur- og Norðvesturkjördæmi njóti þess að fylgjast með vandræðagangi flokksins þessa dagana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum