fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Áslaug Arna lét Gallup kanna stöðuna varðandi formennsku í flokknum

Eyjan
Sunnudaginn 13. október 2024 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og stuðningsmenn hennar hafi seint í september keypt spurningu í spurningavagni Gallup. Spurningin var eftirfarandi: Hvern eftirfarandi viltu sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins? Síðan birtust fjögur nöfn í stafrófsröð: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.

Þrátt fyrir að ekki hafi tekist að fá staðfest hvernig svör féllu er orðið á götunni að útkoman hafi verið góð fyrir Áslaugu Örnu í ljósi þess að hún hefur sig nú mikið í frammi bak við tjöldin í Sjálfstæðisflokknum og leggur ofurkapp á að stjórnarsamstarfinu verði tafarlaust slitið og efnt til kosninga, helst 23. nóvember nk.

Orðið á götunni er að Áslaug Arna meti það svo að öllu máli skipti fyrir hana að ekki verði beðið með þingkosningar fram yfir landsfund Sjálfstæðisflokksins, sem verður í febrúar á næsta ári, vegna þess að sá frestur gefi Bjarna Benediktssyni svigrúm til að búa svo um hnútana að Þórdís Kolbrún, núverandi varaformaður flokksins, verði nánast krýnd sem arftaki hans á landsfundinum.

Sagt er að mat Áslaugar Örnu og stuðningsmanna hennar á stöðunni sé það að flokkurinn muni koma mjög illa út úr kosningum hvort sem þær verði í næsta mánuði eða í vor og því blasi við að staða formanns og varaformanns verði vonlaus eftir kosningaósigur í nóvember og þá geti hún stigið fram sem bjargvættur flokksins – staða hennar verði sterk, ekki síst vegna þess að hún muni eiga stuðning Morgunblaðsins og eigenda þess.

Orðið á götunni er að nokkuð skondið sé að Áslaug Arna skuli telja sig líklega til að geta breytt ásjónu flokksins í ljósi þess að hún hefur verið einn helsti forystumaður hans og ráðherra í samfellt fimm ár. Ýmsir telja að gera þurfi meiri breytingar á forystu flokksins eigi að takast að snúa gæfuhjólinu honum í vil.

Orðið á götunni er að Áslaug Arna líti á Guðlaug Þór sem helsta keppinaut sinn um formannsembættið. Hann er einn reynslumesti forystumaður flokksins, með öfluga kosningamaskínu á bak við sig og hefur haft betur í slagnum við Áslaugu Örnu um oddvitahlutverk sjálfstæðismanna í Reykjavík á þingi. Áslaug Arna er sögð hafa minni áhyggjur af styrk Guðrúnar Hafsteinsdóttur og Þórdísar Kolbrúnar, sérstaklega ef þingkosningar verða afstaðnar þegar landsfundurinn verður í febrúar. Guðrún er talin hafa veikt mjög stöðu sína með því að brjóta lög og reglur í sambandi við frestun brottflutnings fjölskyldu Yazans Tamimi fyrir skemmstu og búist er við að Þórdís Kolbrún verði sem varaformaður flokksins mjög löskuð eftir mikinn kosningaósigur.

Orðið á götunni er að Áslaug Arna megi hins vegar hafa sig alla við ákveði Guðlaugur Þór að sækjast eftir formennskunni. Líklegt sé að hann myndi vinna þann slag, hvað sem líður stuðningi Morgunblaðsins og sægreifanna á bak við það.

Líklegt er að línur varðandi dánarvottorð ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar og kjördag skýrist á allra næstu dögum, eða jafnvel á blaðamannafundi sem Bjarni Benediktsson hefur boðað kl. 15:30. Þá bíða líka margir spenntir eftir skoðanakönnun um fylgi flokkanna, sem Gallup gerði á föstudag. Orðið á götunni er að niðurstaða hennar kunni að vera skelfileg fyrir ríkisstjórnarflokkana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson

Segir að Kristrún ætli ekki að láta neinn vafa leika á því hvernig hún metur Dag B. Eggertsson
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vestræn gildi andspænis lögmáli frumskógarins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu

Segir Vesturlönd hafa gert mistök í samskiptum sínum við Úkraínu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum