fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Eyjan
Föstudaginn 11. október 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erum við manneskjurnar ekki bara hluti af heild? Hefur hvert og eitt okkar ekki það hlutverk að vinna með öðrum svo að allir megi betri framgangs njóta? Svo samfélög megi vera uppbyggjandi þarf eitt að styðja við annað. Er ekki nokkuð augljóst að sú hugsun sé í það minnsta líklegri til ávinnings fyrir alla en sú öndverða hugsun að manneskjunum sé ætlað að vinna að eigin ávinningi og skeyta ekki um þó það komi niður á öðrum?

Hér má sjá og heyra Steinunni Ólínu flytja okkur pistilinn:

Steinunn Ólina pistill 2
play-sharp-fill

Steinunn Ólina pistill 2

Landið okkar er líka hluti af heild því landnæði á jörðinni eru takmörkuð gæði og því ættum við að gæta landsins og auðæfanna svo öllum megi nýtast sem best. Frekleg framganga mannanna með náttúru eyðileggingu, landsupptöku, sérdæld og eignasýki verður óhjákvæmilega til þess að allir líða fyrir. Bæði náttúra og þjóð.

Ef við hugsum um landið okkar eins og líkama þá væri best að við ræktuðum hann og hirtum í bróðerni svo að sem heilbrigðastur mætti vera. Okkur myndi aldrei detta í hug að sýkja æðakerfi líkama okkar vísvitandi nema að við séum orðin svo veik að okkur sé í raun sama um okkur sjálf. Við myndum aldrei vísvitandi raska jafnvægi náttúru landsins nema vegna óbærilegrar vanlíðanar, fíknar og virðingarleysi gagnvart okkur sjálfum og öðrum.

Í aftengdri veröld þar sem því verðmætamati er haldið að okkur að veraldlegur auður og völd séu keppikeflin mikilvægustu og að hamingjan snúist um eitthvað annað en innileg samskipti við annað fólk, ná fíknirnar auðveldlega yfirhöndinni.

Ágirnd er fíknisjúkdómur, alvarlegur fíknisjúkdómur og ekkert minna alvarlegur sjúkdómur en þeir fíknisjúkdómar sem oftar ber á góma. Sá sem er í fíkn þarf sífellt að fylla upp í tómarúm og þjáist heiftarlega ef þörfinni er ekki fullnægt og reyndar líka þó henni sé fullnægt.

Við verðum að finna til með þeim ágjörnu, þau eiga um sárt að binda eins og aðrir sem af fíkn þjást, því sú meinvilla stendur í þeim að aðeins ef þau eigi meira og helst meira en aðrir séu þau einhvers virði. Þau ágjörnu þjást af innanmeini, skorti á sjálfstrausti og sjálfsvirði sem þau reyna að plástra yfir með því að auðgast enn frekar. Sárið snýst um að sanna eitthvað því þau vita ekki sjálf hvað eru raunverulegir verðleikar þeirra. Sumsé þau trúa ekki að þau ein og sér séu einhvers virði og að þau væru það líka þótt fátæk og valdalaus væru.

Á bak við ágirndarfíkn býr samkvæmt sálvísindunum oft gríðarlegur ótti, áföll í æsku eða ógreind undirliggjandi andleg veikindi. Það að græða og sýna vald sitt örvar sömu stöðvar heilans og hjá þeim sem er með matarfíkn og ræðst til atlögu við allt of stóra köku, eða áfengissjúkling sem seilist í sopann.

Fá dýr utan mannsins drepa af þeirri ástæðu einni að safna upp forða og enn færri drepa sér til skemmtunar. Minkurinn gerir það þegar hann er ungur og vitlaus. Manneskjan og minkurinn.

Það er óendanlega sár og andstyggilegur vanmáttur sem brýst út í ágirnd og því fylgir víst mikill einmanaleiki að vera ofboðslega ríkur og skapar vitanlega aðskilnað frá öðrum. Og skömm eflaust. Sömu fylgifiskar og allra annarra fíknisjúkdóma líka.

Í samfélagi þar sem lítið er skeytt um náungann og fleiri upplifa sig einmana eiga fíknisjúkdómar greiðan aðgang að manneskjunum. Ágirndin breiðist út eins og smitsjúkdómur. Í samfélagi þar sem auðsöfnun og völd eru æðstar dyggða lætur eitthvað undan, brotnar.

Ungar samfélagsmiðlastjörnur á Íslandi hafa nýlega gert sér mat úr hörmulegum atburðum líðandi stundar þar sem tvær barnungar stúlkur voru myrtar. Samfélagsmiðlastjörnurnar sáu sér leik á borði og framleiddu varning eða „merch“ í minningu stúlknanna, þar sem lítill hluti af ágóða rennur til góðra málefna.

Þetta er svo óumræðanlega sorgleg birtingarmynd græðginnar. Á öllu skal græða ef á því finnst nokkur flötur. Því þá ertu að gera það gott! Algjör siðvilla.

Óhaminni ágirnd fylgir fylgisfiskurinn, varnarháttur óttans, sjálfbirgingshátturinn, sem reyndar hangir við alla aðra fíknisjúkdóma, sem í tilfelli ágirndarinnar lýgur því að þér að þú sökum eigna þinna og auðs sért yfir aðra hafinn þótt svo augljóslega innaneymdin og hin sjálfskipaða útlegð úr samfélagi fólks vaxi sífellt og fíkniatferlið allt særi nærumhverfið.

Við vitum að bágt á sá sem reynir að lækna þjáningar sínar með lyfjum eða áfengi, mat, áhættufíkn, kaupsýki, eignasöfnun og valdasýki. Sá sem slær umbúðum um sárið og deyfir þar með eigin vanlíðan stutta stund en hreykir sér svo af því að þurfa engrar aðstoðar við.

Þau sem mest eru af ágirnd kvalin og eru sífellt eru að mála sig meira og meira út í horn í okkar samfélagi þurfa á aðstoð að halda. Það þarf einhvern veginn að hjálpa þeim að læra að raunveruleg auðævi verða aldrei metin til fjár.

Þetta er margt ágætis fólk sem þarfnast bara að vera leitt af villu síns vegar. Nú munu þau hlæja ef þau lesa, en það eru eðlileg sjúkdómseinkenni. Afneitunin er fyrsta og sterkasta vörnin. Ég, sem alltaf er að eignast meira og meira! Ég sem öllu ræð!

Ekkert hræðast þau sem af ágirnd þjást meira en að við sjáum hvað þau eru lítil og þjáð í raun og veru.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
10.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin

Þorsteinn Pálsson skrifar: Fyrstu framvirku stjórnarslitin
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið
EyjanFastir pennar
29.09.2024

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki

Björn Jón skrifar: Að vera menningarríki
Hide picture