fbpx
Mánudagur 30.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Fyrrum forseti þverbrýtur trúnað við fjölda fólks

Eyjan
Laugardaginn 5. október 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Algengt er að dagbækur, eða efni úr dagbókum stjórnmálamanna, séu gerðar opinberar að þeim gengnum og þegar flestir þeirra sem koma við sögu eru fallnir frá. Oft er beðið með slíkar birtingar í fjölda áratuga eða jafnvel heila öld. Beðið er með birtingar dagbóka til að sýna því fólki sem kemur við sögu sjálfsagða virðingu og tillitssemi. Því er ekki til að dreifa að þessu sinni. Ólafur Ragnar Grímsson hugsar ekki um að sýna virðingu eða tillitssemi. Hann slær fram völdum dagbókarfærslum sínum sem í flestum tilvikum einkennast af ávirðingum og harðri gagnrýni á það fólk sem kemur við sögu. Tilgangur bókarinnar virðist vera sá að upphefja Ólaf á kostnað flestra þeirra sem komu við sögu í stjórnmálum á Íslandi á þeim tíma sem fjallað er um á árunum 2004 til 2011. Bókin einkennist einnig af hégóma og snobbi höfundarins.

Orðið á götunni er að Ólafi Ragnari liggi sérstaklega illt orð til sjálfstæðismanna. Það sem birt er í bókinni um Davíð Oddsson sé svo yfirgengilegt að helst megi líkja því við einelti. Hann vandar Birni Bjarnasyni heldur ekki kveðjur, hreytir öðru hvoru skætingi í Þorstein Pálsson og gerir almennt lítið úr ráðherrum flokksins. Sumt af því er einfalt rugl sem fellur auðveldlega um sjálft sig. Þannig skrifar hann að Geir Haarde og Árna Mathiesen, sem stóðu í stórræðum fyrir Íslands hönd í hruninu haustið 2008, væru svo miklir „aumingjar“ að þeir gætu ekki talað við útlendinga. Ber hann Össur Skarphéðinsson fyrir þessu slúðri. Rétt er að minna á að bæði Geir og Árni eru menntaðir erlendis og vel mæltir á enska tungu og reyndar fleiri tungumál. Ólafur gerir mikið úr því að sumir ráðherrar séu ekki sleipir tungumálamenn og nefnir hann oft í bókinni Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í því samhengi. Allt er þetta gert til að undirstrika hve góður hann sjálfur sé að tjá sig á ensku – rétt eins og það sé fáum gefið!

Það sem birt er í bókinni úr dagbókarfærslum Ólafs Ragnars einkennist mjög mikið af slúðri. Hann virðist hafa lagt sig fram um að bera flökkusögur og róg á milli manna. Ólafur virðist hafa lagt sig mjög fram um að vera í stöðugu sambandi við ráðherra ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hver höndin var þar upp á móti annarri, heyra skoðanir einstakra manna og klögumál milli manna sem hann bar svo áfram eins og úrvalsútgáfa af Gróu á Leiti. Vert er að hafa í huga að hér var ekki á ferðinni einhver venjulegur borgari sem getur auðvitað leyft sér að bera sögur og slúður milli manna. Hér var á ferðinni forseti landsins í 20 ár sem leyfði sér að fara niður á þetta plan.

Orðið á götunni er að það séu vitanlega mikil tíðindi að upplýst sé frá fyrstu hendi að íslenskir stjórnmálamenn hafi á þessum tíma ekki getað átt trúnaðarsamtöl við forseta landsins. Ljóst er að hann sveik þá sem ætluðust til trúnaðar af honum. Það eru mikil óheilindi og beinlínis dónaskapur sem Ólafur Ragnar viðurkennir á sig núna – að því er virðist bæði glaður og stoltur.

Það eru einnig mikil tíðindi að hann viðurkennir að hafa verið á fullri ferð að tjaldabaki við að reyna að halda vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur saman en hún starfaði nánast lifandi dauð frá haustinu 2009 og allt til loka kjörtímabilsins, lengst af rúin trausti og fylgi. Ólafur lagði mikið á sig til að sætta ágreining Ögmundar Jónassonar við Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur sem var stöðugur og mikill. Þá var Ólafur ekki að hugsa um þjóðarhag, eins og honum hefði borið, heldur að ímynd vinstri manna á Íslandi mætti ekki skaðast af átökum og klúðri vinstri stjórnarinnar. Ólafur gerir mikið úr þeim sögulegu tíðindum að vinstri vinir hans væru komnir til valda og hann vildi halda þeim sem lengst við völd á Íslandi. Orðið á götunni er að í þeirri umfjöllun reyni hann ekki að blekkja lesendur með því að hann væri að reyna að vera forseti allrar þjóðarinnar. Hann hafi einungis verið forseti vinstri manna. Gamli komminn reyndi að vera leiðtogi sinna manna á bak við tjöldin þótt hann hefði að sönnu ekki verið kjörinn til þess verkefnis.

Í dagbókarfærslunum kemur fram að hann taldi sig vera að leggja grunn að áframhaldandi vinstri stjórn á Íslandi að loknu kjörtímabilinu 2009 til 2013. Sem betur fer varð honum ekki að þeirri ósk sinni. Vinstri grænum og Samfylkingunni var sparkað út í ystu myrkur í kosningunum 2013 og það er fyrst núna sem Samfylkingin er að rétta úr kútnum ef marka má allar skoðanakannanir sem hafa birst í meira en heilt ár. Vinstri græn eru hins vegar á leið út úr íslenskum stjórnmálum ef marka má sömu kannanir.

Tilgangur Ólafs Ragnars með því að birta í bók valda kafla úr hugleiðingum sínum er greinilega að upphefja sjálfan sig á kostnað margra helstu stjórnmálamanna síðari ára hér á landi. Orðið á götunni er að í þeirri viðleitni gangi hann alveg fram af brúninni og hagi sér ekki eins og forseti eða stjórnmálamaður sem vandur sé að virðingu sinni. Hann birtist sem svikari sem ekki var unnt að ræða við í trúnaði.

Ólafur sýnir fjölmörgum stjórnmálamönnum dónaskap sem mun ekki lyfta honum til virðingar. Í viðleitni hans til að reyna að hafa áhrif á sögu Íslands á þessum tíma sér í hag eru slegin vindhögg. Fólkið sem verður fyrir mestum ávirðingum í bókinni mun ekki bíða neinn skaða af. Yfirkeyrsla höfundarins er það mikil og misheppnuð. Þetta gildir um alla sem spjótum er beint að. Þar á meðal eru Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Davíð Oddsson, Svavar Gestsson, Ögmundur Jónasson, Björn Bjarnason, Indriði Þorláksson og fjöldi annarra.

Orðið á götunni er að lesendum þessarar bókar megi vera ljóst að Ólafur Ragnar Grímsson unir því illa að vera ekki lengur forseti Íslands til að reyna að stýra öllu að tjaldabaki og ráðskast með málefni þjóðarinnar. Það tókst að koma honum úr embætti árið 2016 þótt hann íhugaði þá að reyna að sitja áfram á Bessastöðum. Síðustu átta ár hefur þjóðin haft forseta sem skildi hlutverk sitt og þjónaði allri þjóðinni en ekki einhverjum samflokksmönnum eða samherjum. Það var mikill léttir. Ólafur Ragnar Grímsson mun vafalaust reyna áfram að leggja sitt af mörkum til að skrifa söguna sér í hag þótt efast megi um að það muni takast vel úr því sem komið er. Fyrr á þessu ári reyndi hann að eigna sér gerð þjóðarsáttarinnar árið 1990 en öllum sem stóðu að þeirri mikilvægu sátt ber saman um að hann hafi þar hvergi komið nærri. Hvað skyldi hann reyna næst?

Orðið á götunni er að Ólafur Ragnar Grímsson trúi því sjálfur að hann hafi gerst bjargvættur þjóðarinnar í Icesave deilunni. Hið grátbroslega við það allt saman er að fram að hruni var hann talinn vera „klappstýra útrásarinnar“ sem lagði ásamt öðru grunninn að þeim vanda sem við var að fást eftir hrun. Það er ekki nefnt í bókinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
Eyjan
Fyrir 1 viku

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs

Bæjarstjóri Kópavogs vill afnema sérréttindi opinberra starfsmanna – Vísar í umdeilda úttekt Viðskiptaráðs
Eyjan
Fyrir 1 viku

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“

Nýir ráðherrar fá lyklana í dag – „Þetta er bara mjög góð tilfinning“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Íslensk verslun óttast að dragast aftur úr í samkeppni við erlenda ef hún færi ekki að selja áfengi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 1 viku

Boða til blaðamannafundar á morgun

Boða til blaðamannafundar á morgun
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina

Stjórnarsáttmáli verður kynntur um helgina