fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Eyjan
Föstudaginn 4. október 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú á næstunni munu föstudagspistlar Steinunnar Ólínu ekki aðeins birtast í rituðu formi hér á Eyjunni heldur verður einnig hægt að sjá hana og heyra flytja pistlana.

Hér les Steinunn Ólína okkur pistilinn:

Steinunn Olina 031024
play-sharp-fill

Steinunn Olina 031024

Það er fátt leiðinlegra þegar ekki fer saman hljóð og mynd. Það er einhvern veginn svo ankannalegt og skrýtið þegar látbragð og fas segir manni eitt en röddin annað.

Það má segja að þetta sé orðið hið viðtekna þegar margir íslenskir stjórnmálamenn eru annars vegar.

Röddin er hol og hugur fylgir ekki máli. Þeir trúa varla sjálfir því sem þeir segja, sem er, svo ekki sé meira sagt, bagalegt. Engin heilindi liggja að baki loforðum, ekki glittir í ástríðu fyrir efninu, gamlar lummur þykjast nýjar en reyna kinnroðalaust að selja manni uppfærsluna.

Áfram mallar hann, sami grautur í sömu skál.

Ungur ófaglærður Eflingarstarfsmaður sagði á dögunum frá starfi sínu á elliheimili hér í bæ, hvar hann þarf hluta starfsvaktar sinnar einn að sjá um tugi einstaklinga sem eins og gengur eru misvel staddir. Ég veit líka til þess að ef starfsmaður hringir sig inn veikan á öldrunarheimilum tíðkast víða af fyrirskipuðum sparnaðarástæðum að sleppa því að kalla inn aukamanneskju og því eru gjarnan starfsmenn einir vaktina sem annars tveir ættu að sinna. Ábyrgðin og álagið sem þessu fylgir er ómanneskjuleg og ósanngjörn, þetta getur vitanlega skapað óþarfa hættu, fyrir nú utan hvað launin eru smánarlega lág.

Við skulum muna að það þarf sérstaka manngerð til að gegna hjúkrunar- og umönnunarstörfum vel. Í slík störf þarf fólk sem ber umhyggju fyrir öðrum, telur það ekki eftir sér að gera öðrum til góða og lætur sér hag annarra fyrir brjósti brenna. Sum sé afar mikilvægar manneskjur í hvaða samfélagi sem er. Algjört lykilfólk sem við ættum sífellt að hampa og þakka!

Í samfélagi sem gerir út á hagnað eingöngu eru aldraðir og þeir sem þá annast náttúrlega bara afgangsstærð. Fólk með heilabilun og takmarkaða getu vegna öldrunar eru ekki hagkvæmir einstaklingar og skapa eðli máls samkvæmt ekki fjárhagslegan arð. Svo fjári léleg til vinnu. Og ekki er arðbærara að ráða faglært fólk til umönnunar aldraðra, það er of dýrt og því skal framar öllu ráða til starfanna fólk á eins lágum launum og hugsast getur svo meiri skaði fyrir þjóðarbúið hljótist ekki af tilveru aldraðra.

Það er bókstaflega allt rangt við þetta og við vitum það öll. Við verðum öll gömul svo við verðum að hafa áhuga á þessum málum, því þetta kemur okkur stórkostlega mikið við. Fyrst finnum við fyrir þessu þegar okkar eigin foreldrar þurfa á opinberri þjónusta að halda og áður en við er litið verður þetta okkar eigið hlutskipti.

Sama er upp á teningnum hvað börn varðar, því þau eru líka að mati stjórnvalda svo fjári óhagkvæm í rekstri. Börn eru hjálparvana fyrstu ár lífsins, þurfa aðstoð við flest, léleg í að búa til peninga þar sem þau skríða um og babla. Þau kunna náttúrlega ekki stafrófið svo þau geta ekki einu sinni unnið einföldustu skrifstofustörf. Það er því mikill akkur fyrir hagnaðardrifið samfélag að sýna fyrirlitningu sína á þessum þurfalingum með því að ráða sem flest ófaglært starfsfólk til starfa á leikskólum svo kostnaði við reksturinn megi halda í lágmarki.

Við skulum muna að það þarf sérstakt fólk til að starfa með ungum börnum. Í slíkt þarf mikla ástúð og hlýju, þolinmæði og elskulegheit. Sem gildir reyndar líka um þá sem sinna öldruðum.

Ekkert af þessum eiginleikum er kennt í skólum en þetta eru dýrmætustu eiginleikarnir í hvaða samfélagi sem er. Náttúrugjafir sem efla einstaklinga unga og aldna sem þurfa að dvelja langdvölum á stofnunum.

Markmið íslenskra stjórnvalda hefur um langa hríð verið aðeins eitt: Að reka samfélagið eins og fyrirtæki í einkaeigu þeirra sem allt vilja eiga hér og öllu vilja ráða. Við þetta verður ekki búið lengur. Ekki stundinni lengur. Við skulum líka vera vakandi fyrir þeirri skipulögðu innrætingu sem er verið að innleiða hér, að fólk á öllum aldri sem getur ekki aflað tekna sé drasl. Að sum störf séu ekki þess virði að greiða fyrir þau eðlileg laun og það sem verra er, þeirri innrætingu sem verður óhjákvæmilega til þegar fólki er ekki gert kleift að vinna vinnuna sína eins vel og hugsast getur vegna mannfæðar og óboðlegs álags.

Innrætingin skilar sér í eftirfarandi: Ég er einskis virði, gamalt fólk er einskis virði, börn eru einskis virði. Þetta er afmennskun í boði stjórnvalda og við vitum öll að þetta er kolrangt.

En við getum lagt okkar af mörkum og styrkt böndin fólks á milli. Með því að láta okkur þetta sinnuleysi stjórnvalda sem hratt út breiðist varða. Við getum spornað við kuldanum og ómanneskjulegheitunum með einföldum aðgerðum, skrefum sem virðast lítil en eru þó afar mikilvæg.

Það gerum við til dæmis með því að sýna hvort öðru væntumþykju og hlýju, hvar sem við komum. Með því að kynnast nágrönnum okkar svo við séum ekki ein ef eitthvað upp á kemur sem þarfnast skyndilegs viðbragðs, við gætum líka eignast nýja vini og víkkað sjóndeildarhringinn sem er auðvitað auðurinn mesti. Við verðum líka öll sem eitt að láta okkur kjarabaráttu þeirra lægst launuðu varða því það er fólkið sem daglega sinnir okkar nánustu og bestu. Þetta er frumskylda okkar og undan henni skulum við ekki víkja. Okkur munar heldur ekkert um það, þetta er sjálfsagt mál og í raun og sann okkur sjálfum og samfélaginu öllu til góða. Þetta er einfalt lögmál, ef þú ert góður við aðra, þá ertu líka góður við þig. Ef þú hirðir ekki um aðra ertu að vanrækja sjálfan þig. Allt sem við sinnum vel, vex og dafnar okkur til gleði og gæfu. Þetta ER lögmál!

Sú gamla venja á Íslandi að bjóða fólki góðan dag er að leggjast af. Einn kvartaði fyrir því í pistli að þekkja vart nágranna sína og auglýsti eftir „samfélagi“ því hann vissi vart hvar það væri að finna hér. Margir upplifa eflaust það sama og þetta er ótækt með öllu.

Við getum til að efla samfélagið okkar verið duglegri við að heilsa hvert öðru, brosa til hvert annars og sýna ókunnugum að okkur standi ekki á sama. Þannig eflum við raunvirði hvert annars, því öll erum við mikilvæg.  Ekkert færi heldur meira í taugarnar á stjórnvöldum en aukin samstaða fólksins því á sundrungu er alið markvisst svo við séum veikari til varna.

Við sem búum hérna stjórnum þessu samfélagi ef við bara viljum. Látið engan segja ykkur annað. En við gerum það ekki ef við hættum að sinna náunganum. Látum því ekki doðann og gervimennsku kaldlyndra stjórnmálanna villa okkur sýn og afvegaleiða okkur. Ekkert í hegðun stjórnvalda er til eftirbreytni og er í raun okkur og samfélaginu skaðlegt og við vitum það.

Við sjáum öll að ekki fara saman hljóð og mynd.

Njótið helgarinnar! Ég vona að allir hafi það sem allra best og ég ætla í það minnsta að heilsa öllum þeim sem ég fyrirhitti og ég hvet ykkur til að gera slíkt hið sama.

Sumum mun væntanlega bregða í brún, aðrir munu jafnvel hörfa, kannski detta um koll af undrun, jafnvel hvæsa, en ekki gefast upp og alls ekki taka fálætislegum viðbrögðum persónulega. Allir þurfa að venjast nýjum siðum en það gerist furðu fljótt.

Kærleikurinn skapar á endanum mestan eftirgefanleikann og auðvitað treystir best böndin fólks á milli.

Þetta virðist einföld aðgerð og veigalítil en ég er viss um að hún mun reynast okkur happadrjúg og stjórnvöldum skeinuhættari en þau sjá fyrir.

Ástarkveðjur!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá jöðrunum inn á miðjuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
17.11.2024

Vandamál okkar eru léttvæg

Vandamál okkar eru léttvæg
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
09.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Sérfræðingar í málefnum Bandaríkjanna
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
Hide picture