fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Vilhjálmur Birgisson: Sjálfstæðismenn í Kópavogi kynda undir verðbólgunni svo annað eins hefur ekki sést – nýtt skattaform

Ólafur Arnarson
Fimmtudaginn 3. október 2024 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undir forystu Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi samþykkti bæjarráð í júlí 2023 að vísitölutengja gjaldskrár bæjarins og uppfæra þær í flestu tilvikum fjórum sinnum á ári. Athygli vekur að almenna reglan er að notuð sé launavísitala en ekki vísitala neysluverðs, sem jafnan er notuð til vísitölutengingar.

Sá er munurinn á þessum vísitölum að launavísitala hækkar að jafnaði mun meira en vísitala neysluverðs yfir langan tíma og því er óhætt að slá því föstu að sjálfstæðismenn í Kópavogi hafi forgöngu um umtalsverða hækkun á gjaldskrá bæjarins til framtíðar.

Þessi breyting/hækkun á gjaldskrá var samþykkt í bæjarráði 4. júlí 2023 og tók að fullu gildi um síðustu áramót. Allir bæjarráðsfulltrúar greiddu henni atkvæði nema Theodóra S. Þorsteinsdóttir, fulltrúi Viðreisnar. Hún taldi óljóst hver áhrifin yrðu af þessari breytingu og vildi því ekki ljá henni atkvæði sitt.

Í samtali við Eyjuna segir Theodóra að enn sé ekki vitað í raun hver áhrifin séu af þessari vísitölubindingu. Minnihlutinn hafi ítrekað óskað eftir upplýsingum um þau og á bæjarráðsfundi 26. september sl. lögðu fulltrúar minnihlutans fram eftirfarandi bókun:

Undirrituð árétta beiðni um að fá yfirlit yfir gjaldskrárhækkanir ársins með samanburði við gjaldskrár síðasta árs. Þau gögn sem hér eru lögð fram eru ófullnægjandi til þess að hægt sé að átta sig á hlutfallslegum hækkunum á ársgrundvelli.“

Í skriflegu svari við fyrirspurn Eyjunnar vegna þessa segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri: „Gjaldskrárbreytingar liggja fyrir á árinu og er aðgengilegar bæjarfulltrúum.“

Einnig hefur minnihlutinn í Kópavogi gagnrýnt mjög breytingar á gjaldskrá leikskóla bæjarins, en þar leggst umtalsverður kostnaður á þá foreldra sem verða að nýta sér heilsdagsþjónustu.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, fjallar um málið á Facebook-síðu sinni í vikunni. Þar skrifar hann m.a.:

Ég hef verið að kynna mér betur það sem er að gerast í Kópavogi og ég skal fúslega viðurkenna það að ég er gjörsamlega orðlaus. Nú hefur komið í ljós að þau eru ekki bara að vísitölutengja hækkun á leikskólagjöldum sem á að koma til hækkunar ársfjórðungslega heldur virðist vera að flestar gjaldskrár sveitarfélagsins séu tengdar vísitölu með margvíslegum hætti.

Það alvarlegasta er að nú eru Sjálfstæðismenn í Kópavogi flokkur sem kennir sig við að draga úr kostnaði og skattahækkunum á almenning að tengja gjaldskrárhækkanir við hækkun á launavísitölu. Mér vitanlega hefur slíkt ekki þekkst áður, hvorki hjá ríki né sveitarfélögum. Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd koma hækkanirnar oftast til fjórum sinnum á ári, tengdar við launavísitölu, vísitölu mötuneytis eða vísitölu neysluverðs.

Bara til að almenningur átti sig á hvers lags aðför er hér að neytendum í umræddu sveitarfélagi þá hefur neysluvísitalan á síðustu 10 árum hækkað um 49,4% en launavísitalan sem ætíð hækkar meira en neysluvísitalan hefur hækkað um 107,2%. Ef að sama þróun verður næstu 10 ár mun það þýða það að ýmsar gjaldskrár í Kópavogi munu hækka um tæp 60% meira en neysluvísitalan hefur gert.“

Vilhjálmur segir þessa aðferðafræði sjálfstæðismanna í Kópavogi munu „kynda svo hressilega undir verðbólgunni að annað eins hefur ekki sést. Mitt mat er að löggjafinn þurfi jafnvel að grípa inn í þessa vitleysu sem þarna er að eiga sér stað en nú held ég að það sé komið nóg af stjórnarháttum Sjálfstæðismanna sem hafa tekið upp nýtt skattaform sem ekki hefur sést í íslensku samfélagi áður.

Ég held að fjölmiðlar eigi að rýna í hvað þarna er að gerast og spyrja gagnrýnna spurninga, til dæmis bæjarstjóra Kópavogs sem er með launin sín tengd við launavísitölu og fær ekki hækkun einu sinni á ári heldur tvisvar, í janúar og júlí, en slíkar hækkanir þekkjast svo sannarlega ekki í íslenskum vinnumarkaði.“

Fóðra verðbólgudrauginn eins og enginn sé morgundagurinn

Vilhjálmur bendir á að í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á þessu ári hafi ríkið skuldbundið sig til að hækka gjaldskrár ekki um meira en 2,5 prósent á næsta ári og sveitarfélögin lofuðu að gjaldskrárhækkunum yrði stillt í hóf eins og kostur væri á samningstímanum.

Það er hvellskýrt að Kópavogur ætlar algerlega að hunsa þetta loforð og bætir um betur með því að vísitölutengja leikskólagjöld, ekki bara einu sinni á ári heldur fjórum sinnum. Þannig að áhrif hækkunar á vísitölunni leggjast ofan á hverja hækkun með mun verri afleiðingum fyrir barnafólk í Kópavogi.

Eitt er víst að Sjálfstæðismenn hafa ekki nokkurn áhuga á að taka þátt í að berjast við verðbólguna enda gera svona sjálfvirkar vísitöluhækkanir ekkert annað en að fóðra verðbólgudrauginn eins og enginn sé morgundagurinn.“

Hann bendir á að í skýrslu sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar, sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks skipaði 2014 var sérstaklega bent á skaðsemi sjálfvirkni verðtryggingar. Þar segir m.a. orðrétt:

Hópurinn er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að stemma stigu við þeim rótgróna hugsunarhætti verðtryggingar sem einkennt hefur íslenskt hagkerfi umfram flest önnur á undanförnum áratugum. Má þar m.a. nefna sjálfvirkar hækkanir á vörum og þjónustu vegna verðbólgu og ýmsar tegundir verðtryggðra skammtímasamninga, svo sem verktakasamninga og þjónustusamninga. Sama gildir um verðlagshækkanir í opinberum gjaldskrám, m.a. samkvæmt þar til gerðu frumvarpi sem lagt er fram árlega. Slíkar sjálfvirkar hækkanir kynda undir verðbólgu og hækka þar af leiðandi verðtryggðar skuldir með beinum hætti og óverðtryggðar skuldir með óbeinum. Það bitnar svo aftur sérstaklega á heimilunum þar sem þau eru stærstu lántakendur verðtryggðra skulda. Stöðugleiki í þjóðarbúskapnum, sem einkum felst í að sporna gegn verðbólgu umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, er forsenda fyrir jákvæðri hagþróun til framtíðar.“

Eyjan sendi Ásdísi Kristjánsdóttur fyrirspurn um samþykkt breytinganna á gjaldskrá bæjarins og spurði jafnframt hvort hún telji „að vísitölubinding með launavísitölu og tíðar uppfærslur séu í samræmi við hóflega kjarasamninga sem gerðir voru á almennum vinnumarkaði í mars sl. og byggjast m.a. á því að opinberir aðilar stilli gjaldskrárhækkunum í hóf.“

Í skriflegu svari segir Ásdís:

Við fórum þessa leið því við töldum hana mun eðlilegri, og um leið sanngjarnari, í stað hinnar hefðbundnu leiðar þar sem gjaldskrár eru hækkaðar í upphafi hvers árs á forsendum spá um verðlagsþróun, sem oftar en ekki er allt önnur reiknað er með.

Því var þverpólitísk sátt um að fara þessa leið þar sem við erum að fylgja þróun kostnaðar við rekstur bæjarfélagsins eftir á í stað þess að geta til um þróunina fyrir fram, auk þess sem hækkanir eru þá teknar í smærri skrefum í stað þess að taka stærra skref í upphafi árs. Launavísitalan vegur mjög þungt í rekstri bæjarins og því stærsti áhrifavaldur á gjaldskrá hans, enda fyrst og fremst þjónusta á vegum bæjarins. Þannig er sú vísitala sem við horfum til, sérstaklega reiknuð til að endurskoða raunkostnað við þjónustu við bæjarbúa sem felur í sér að þegar samið er um hóflega kjarasamninga á vinnumarkaði þá endurspeglast það í hóflegum hækkunum í gjaldskrá Kópavogsbæjar.

Fyrri leiðin sem við áður og önnur bæjarfélög feta í dag við hækkun gjaldskráa sinna, er að mínu mati einfaldlega úrelt og hentar ekki í samfélagi þar sem laun og verðbólga eru jafnsveiflukennd og hér.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði

Sigmundur Ernir skrifar: Tökum sénsinn í Seyðisfirði
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra

Þorgerður Katrín: Gjaldmiðillinn verður að vera skjól fyrir heimili og atvinnulíf og gefa færi á því að blómstra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Klappir og ICR í samstarf

Klappir og ICR í samstarf
Eyjan
Fyrir 1 viku

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“

Forstjórinn reynir að slá á ólguna innan Sýnar með bréfi til starfsmanna – „Engin umræða hefur átt sér stað í minni tíð um lokun fréttastofu Stöðvar 2“