fbpx
Fimmtudagur 03.október 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Eyjan
Fimmtudaginn 3. október 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingmenn stjórnarflokkanna þriggja eru sammála um eitt: Að ekki komi til greina að stjórnin sitji áfram eftir kosningar.

Þessa sameiginlegu sýn ber þó að skilja þannig: VG útilokar bara Sjálfstæðisflokk. Sjálfstæðisflokkur útilokar bara VG. Framsókn útilokar hvorki Sjálfstæðisflokk né VG, en útilokar að starfa með báðum samtímis að ári.

Þetta er ærið skondin staða. Eigi að síður er hún umvafin allri þeirri alvöru sem fylgir stjórnskipulegri ábyrgð á málefnum landsins.

Hvað gerist í náttúrunni 20. september 2025?

Það áhugaverðasta við mat þingmanna stjórnarflokkanna á vanhæfni ríkisstjórnarinnar er að það tekur ekki gildi fyrr en eftir kjördag 20. september á næsta ári.

Fram til þess tíma eru engir flokkar betur til þess fallnir að stjórna landinu saman af festu en einmitt þeir sem að eigin mati verða með öllu óhæfir eftir kjördag.

Ef vanhæfnismatið tæki gildi strax ætti stjórnin eðli máls samkvæmt að fara frá núna. Það er ekki á dagskrá.

Í byrjun var því haldið fram að samstarf þessara flokka byggði fremur á vináttu en málefnum. Sú var tíð að ljúf nótt í París varð skáldi tilefni þess að yrkja um það hve hjörtum mannanna svipar saman í Súdan og Grímsnesinu.

Hvað ætli gerist í sjálfri náttúru stjórnmálanna, sem umbreytir því lögmáli í þann mund er sólin hnígur til viðar 20. september að ári?

Í landsstjórninni virkar lýðræðið betur en öndunarvél

Utan við rómantískan sjóndeildarhring þingmanna stjórnarflokkanna er þó engu líkara en ríkisstjórnin sé í öndunarvél af því að hún kemur sér ekki saman um veigameiri mál en hvaða minnihluta stjórn sem er gæti komið fram.

Hitt er að hún hefur ótvírætt umboð kjósenda til að sitja út kjörtímabilið.

Skoðanakannanir sýna hins vegar að margir kjósendur eru nú ósáttir við þá ákvörðun sína.

Vera má að þeir hugsi sem svo að öndunarvélar séu fremur ætlaðar til brúks í heilbrigðiskerfinu en stjórnkerfinu. Lýðræðið virki betur til að blása nýju lífi í gangverk landsstjórnarinnar.

Innviðaráðherra ákveður hversu lengi hjörtun fá að slá saman

Rétturinn til að rjúfa Alþingi er á höndum forsætisráðherra. Í ljósi þess hve hjörtum þingmanna stjórnarflokkanna svipar saman ákváðu leiðtogar þeirra í tilefni af forsætisráðherraskiptum í vor sem leið að beita ekki þessum rétti og sitja út kjörtímabilið.

Fyrir nokkrum vikum tilkynntu nokkrir félagar í VG að þeir myndu leggja til að stjórnarsamstarfinu yrði slitið með ályktun landsfundar fyrstu helgina í október.

Innviðaráðherra brást við með því að tilkynna að hún hygðist ljúka samstarfinu á vordögum með þeim rökum að stjórnarflokkarnir ættu ekki lengur neitt sameiginlegt erindi við þjóðina eftir næstu páska.

Með öðrum orðum: Sú staða er komin upp að formaður VG ætlar að ákveða einhliða hvenær hjörtu þingmanna stjórnarflokkanna hætta að slá saman.

Skuggaráðherra í dómsmálaráðuneytinu

Í vor sem leið treysti dómsmálaráðherra stöðu sína til muna þegar hún tók af skarið um að framfylgja bæri lögmætum ákvörðunum um þá sem sækja hér um alþjóðlega vernd.

Þegar kom að því á dögunum að þetta nýja viðhorf kæmi til framkvæmda krafðist innviðaráðherra þess um miðja nótt að dómsmálaráðherra tæki ábyrgð á því að ganga á svig við lögin. Dómsmálaráðherra féllst á það vegna þrýstings samflokksráðherra.

Í samræmi við yfirlýsingu forsætisráðherra um að málefni útlendinga yrðu eitt af þremur helstu málum á síðast þingi kjörtímabilsins boðaði dómsmálaráðherra ný frumvörp.

Innviðaráðherra tilkynnti þá að það væri ekki stjórnarstefnan. Engin ný mál á því sviði yrðu því samþykkt. Sem sagt: Innviðaráðherra er orðinn skuggaráðherra í dómsmálaráðuneytinu.

Niðurstaðan er þessi:

Innviðaráðherra vill að þjóðin sjái hana sjálfa ná marki í kosningasundinu fyrir páska í réttu ljósi við skuggann sinn.

Þingmenn sjálfstæðismanna eru ekki tilbúnir að standa við bakið á dómsmálaráðherra þannig að hún haldi andlitinu. Önnur markmið þeirra virðast þar af leiðandi ráða því að dómsmálaráðherrann verður að þreyta kosningasundið í skugga innviðaráðherra.

Grasrótin í VG vill svo stöðva skuggasundið strax.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Skoðanakannana-æði

Óttar Guðmundsson skrifar: Skoðanakannana-æði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera!

Steinunn Ólína skrifar: Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kirkjuræningjar

Óttar Guðmundsson skrifar: Kirkjuræningjar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Nú er horfið Norðurland

Steinunn Ólína skrifar: Nú er horfið Norðurland
EyjanFastir pennar
29.08.2024

Svarthöfði skrifar: Hið fullkomna gegnsæi

Svarthöfði skrifar: Hið fullkomna gegnsæi
EyjanFastir pennar
29.08.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Loðna hlið samgöngusáttmálans

Þorsteinn Pálsson skrifar: Loðna hlið samgöngusáttmálans
EyjanFastir pennar
22.08.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Aftur eða aldrei aftur?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Aftur eða aldrei aftur?
EyjanFastir pennar
20.08.2024

Svarthöfði skrifar: Ofdrykkjumenningin á Alþingi skýrir margt

Svarthöfði skrifar: Ofdrykkjumenningin á Alþingi skýrir margt