fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Eyjan

Guðbrandur Einarsson skrifar: Vinnuþrælar verðbólgunnar

Eyjan
Fimmtudaginn 3. október 2024 11:42

Guðbrandur Einarsson þingmaður Viðreisnar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er hreint út sagt kostulegt að hlusta á ráðamenn þjóðarinnar halda því fram statt og stöðugt að hér ríki góðæri og að hagur heimilanna hafi aldrei verið betri. Þennan veruleika kannast íslenskur almenningur ekkert við. Sér í lagi þegar verð á allri nauðsynjavöru heldur áfram að hækka og húsnæðiskostnaður er kominn úr öllum böndum. Enda ráða þar úrslitum þær 14 stýrivaxtahækkanir sem dunið hafa á þjóðinni allt frá því Seðlabankinn lækkaði stýrivexti í 0,75 prósent árið 2020.

Orð seðlabankastjóra

Við það tilefni lét seðlabankastjóri einmitt eftirfarandi orð falla í viðtali við Fréttablaðið:

Verðtryggingin var upphaflega sett á vegna þess að við réðum ekki við verðbólguna. Núna eru tímarnir breyttir. Í fyrsta sinn er það raunverulegur valkostur fyrir heimilin að skipta yfir í nafnvexti og þannig afnema verðtrygginguna að eigin frumkvæði af sínum lánum.“

Þessi orð seðlabankastjóra hafa aldeilis ekki elst vel. Sérstaklega í ljósi þess að þessi sami seðlabankastjóri talar nú fyrir því að heimilin færi sig yfir í verðtryggð lán.

Margir stukku á vagninn á sínum tíma og tóku óverðtryggð lán með föstum vöxtum til einhverra ára. Nú eru þessir lánssamningar hins vegar að losna og flest heimili hafa enga aðra möguleika en að skuldbreyta yfir í verðtryggð lán. Við erum ekki að tala um neinar smá upphæðir í þessu samhengi því þúsundir heimila með heildarlán upp á 600 til 700 milljarða eru í þessari stöðu.

Þrír gjaldmiðlar

Við hér á Íslandi höfum lifað með íslensku krónunni í 100 ár með öllum þeim óstöðugleika sem henni fylgja. Enda gáfust stjórnmálamenn fortíðarinnar upp á henni og tóku upp verðtryggða krónu með svokölluðum Ólafslögum árið 1979. Sú aðgerð skilaði engu nema aukinni verðbólgu sem leiddi svo til þess að menn lögðu niður rófuna að nýju og afnámu verðtryggingu launa árið 1983 til að koma í veg fyrir víxlverkun verðlags og launa.

Heimild til færslu bókhalds og ársreikninga í erlendri mynt var svo veitt í ársbyrjun 2002 og nú er svo komið að hátt í þrjú hundruð fyrirtæki með tekjur upp á margfalda landsframleiðslu gera upp í erlendri mynt. Eftir situr íslenskur almenningur bundinn á klafa hinnar verðtryggðu krónu, eignast lítið sem ekkert og er umvafinn skuldum fram á grafarbakkann.

Verðbólga er leið til að stela af fólki

Hér áður fyrr var krónan notuð til að rýra kaupmátt heimilanna með endurteknum gengisfellingum. Nú er hins vegar skilningur á því að það sé ekki gott. Til þess að koma í veg fyrir of miklar sveiflur á krónunni hefur verið farið í það að búa til svokallaðan gjaldeyrisvaraforða sem kostar okkur tugi milljarða á ári. Við þurfum sem sagt að eiga annan gjaldeyri til þess að verja okkar eigin gjaldeyri.

Fyrir þetta greiðir íslenskur almenningur dýrum dómum og þarf svo í ofanálag að greiða margfalda vexti á við samanburðarlöndin. Sem leiðir til þess að við þurfum sífellt að þræla meira til að ná endum saman og standa skil á sligandi vaxtabyrði. Þessi vandlega skipulagði flutningur fjármagns frá skuldurum til fjármagnseiganda í gegnum verðbólgu og háa vexti er ekkert annað en þjófnaður. Vandamálið við þessa tegund af þjófnaði er að hann er löglegur – samkvæmt bókinni.

Hundakúnstir

Nú hefur Seðlabankinn lækkað vexti og margir virðast líta á það sem ástæðu til að fagna. Í því samhengi er mikilvægt að horfa til þess að verðbólga var fyrir stuttu 6 prósent og stýrivextir Seðlabanka 9,25 prósent. Raunvextir voru því 3,25 prósent og er þá ótalið það álag sem fjármálafyrirtækin leggja á sín lán upp á margar prósentur.

Þegar verðbólga minnkaði í 5,4 prósent þá hækkuðu raunvextir í 3,85 prósent. Nú hafa stýrivextir lækkað í 9 prósent og raunvextir eru því 3,6 prósent eða hærri en þeir voru áður en verðbólgan fór úr 6 í 5,4 prósent. Raunvextir eru því að hækka, ekki lækka.

Í stað þess að hoppa hæð mína yfir langþráðri stýrivaxtalækkun Seðlabankans ætla ég einfaldlega að benda á þá staðreynd að þessar hundakúnstir eru í fullkomnu samræmi við þann efnahagslega sýndarveruleika sem við búum við með ónýtan gjaldmiðil og okurvexti. Það er hinn síendurtekni og nöturlegi veruleiki vinnuþræla verðbólgunnar.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”