fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Eyjan

Ekki allir ánægðir með styttingu vinnuvikunnar á leikskólunum – „Þýðir ekkert að fara í einhverjar skotgrafir og verða pirraður“

Eyjan
Miðvikudaginn 2. október 2024 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stytting vinnuvikunnar kom til umræðu á fundi borgarstjórnar í gær að ósk Kolbrúnar Áslaugar Baldursdóttir, fulltrúa Flokks fólksins. Umræðan varðaði aukið álag á starfsfólk leikskóla eftir að stytting vinnuvikunnar kom til framkvæmdar. Ekki voru fulltrúar minnihlutans og Dagur B. Eggertsson, sem fór með borgarstjórahlutverkið að nýju í fjarveru Einars Þorsteinssonar, sammála um hvernig þetta hafi tekist til þessa.

Kolbrún rakti að styttingin var ákveðin árið 2021 og þá sem liður í kjaraviðræðum. Tveimur sögum fari þó af því hvernig þetta hafi gengið. Á daginn hafi komið í sumum tilvikum sé starfsfólk leikskóla að upplifa aukið álag vegna styttingarinnar, fremur að að upplifa minna álag líkt og stefnt var að. Jafnvel lýsi sumir vanlíðan með fyrirkomulagið.

„Vinnutímastyttingin bættist þá ofan á manneklu og langtímaveikindi sem lengi hefur hrjáð starfsemi leikskólanna í Reykjavík,“ sagði Kolbrún og benti á að dæmi séu um tvenns konar útfærslu á einum og sama leikskólanum þar sem faglærðir taki styttingu út með einum hætti en ófaglærðir með öðrum. Meirihlutinn hafi frá upphafi lagt áherslu á að styttingin mætti ekki hafa í för með sér kostnað fyrir borgina. Kolbrún telur að þetta hafi verið óraunhæfar væntingar enda liggi fyrir að þegar vinnutími er styttur þurfi að mæta því með kostnaði sem til dæmis felst í því að fjölga stöðugildum. Nú sé ljóst að styttingin hafi kostað eitthvað en erfitt hafi gengið að fá svör frá borginni um raunkostnaðinn.

Niðurdreginn yfir svona neikvæðni

Dagur B. Eggertsson taldi Kolbrúnu ræða málið af of mikilli neikvæðni. „Ég verð eitthvað svo niðurdreginn að hlusta á borgarfulltrúann lýsa áhyggjum sínum og vandanum sem verkefnið stytting vinnuvikunnar hefur haft í för með sér,“ sagði Dagur en af máli Kolbrúnar mætti ráða að þetta sé bara ómögulegt. Svör frá starfsfólki segi þó aðra sögu enda segist um 90 prósent þess ánægt með styttinguna. Vissulega séu almennar áskoranir í starfsemi leikskóla sem meðal annars megi rekja til manneklu, veikinda og slíks. En styttingin sé ekki stærsta vandamálið.

Varðandi að styttingin hefði ekkert mátt kosta þá megi rekja til kjaraviðræðna við verkalýðsfélögin þar sem lendingin varð sú að reyna að stytta vinnuvikuna án kostnaðar svo hægt væri að hækka laun meira. Ef styttingin hefði kostað hefðu launahækkanir verið minni. Þegar leikskólastjórar voru um áramót spurðir um framkvæmd styttingarinnar hafi 21 prósent sagt að þetta hafi gengið mjög vel, 42 prósent sögðu frekar vel, 22 prósent hvorki né, 12 prósent frekar illa og aðeins 3 prósent sögðu þetta hafi gengið mjög illa.

Kolbrún furðaði sig á þessum pirring í Degi. Hann hefði sjálfur viðurkennt að það sé hópur sem kallar eftir breytingum. Þessi hópur vill stuðning og jafnvel fjármagn til að framkvæma styttinguna

„Þá þýðir ekkert að fara í einhverjar skotgrafir og verða pirraður og  hneykslaður, að þetta sé svo frábært.“

Besta leikskólakerfi landsins

Andrea Helgadóttir hjá Sósíalistaflokki tók þá til máls en hún sat í samninganefnd Eflingar þegar samið var um styttingu vinnuvikunnar. Þar hafi markmiðið verið að minnka álag á starfsmenn, sem þá þegar var óeðlilega mikið. Stytting væri þá til þess fallin að draga úr álagi með tíð og tíma og skila sér til baka til borgarinnar í aukinni ánægju sem leiddi til færri veikindadaga. Efling hafi vitað að launahækkanir yrðu alltaf takmarkaðar og því komið til móts við það með styttingu til að draga úr álagi á starfsfólk.

Marta Guðjónsdóttir, hjá Sjálfstæðisflokknum, telur að Dagur sé í afneitun hvað varðar stöðuna í leikskólunum. Haustið 2022 hafi 153,7 stöður verið ómannaðar í leikskólunum og haustið 2023 voru þær 148,7.

Árelía Eydís Guðmundsdóttir, hjá Framsókn, þakkaði Kolbrúnu fyrir umræðuna. Hún telur að leikskólakerfið í Reykjavík sé líklega eitt það besta, ef ekki það besta, á Íslandi. Ekki sé  hægt að fullyrða að álag á starfsfólk hafi aukist við að stytta vinnuvikuna en þó hafi álag aukist á stjórnendur og það sé til skoðunar.

Óöryggi og úlfúð

Kolbrún tók fram í annarri ræðu að það þýði lítið fyrir Dag að berja sér á brjóst og halda að allt sé búið þó styttingin sé komin til framkvæmda. Það hafi verið óraunhæft að fara í þetta verkefni án þess að reikna með kostnaði. Nú finni starfsfólk sig jafnvel í þeirri stöðu að fá samviskubit þegar það nýtir styttinguna enda sé mannekla og ljóst að þegar einn fer heim þá aukist álag á þá sem eftir sitja. Samkvæmt nýlegri rannsókn í lokaverkefni við háskólann hafi styttingin valdið togstreitu meðal starfsfólks. Sumum finnist þeir ekki ná að sinna börnunum eins vel og þau vilja og erfitt sé að sjá aukið álag á samstarfsmenn og börn. Skoða þurfi fyrirkomulagið betur og fjölga stöðugildum.

Kolbrún lagði loks fram eftirfarandi bókun:

„Árið 2021 var ákveðið að fara í styttingu vinnuvikunnar. Framkvæmdin hefur ekki verið til góðs fyrir alla. Aðgerðinni var eðlilega fagnað því með styttingu vinnutíma eykst almenn starfsánægja. Því miður hefur stytting vinnutímans valdið auknu álagi á sumar stéttir. Síðan hún tók gildi í leikskólum hefur álag á starfsfólk aukist sem þó var mikið fyrir. Vinnutímastyttingin bættist ofan á þá manneklu og langtímaveikindi sem lengi hefur hrjáð starfsemi leikskólanna í Reykjavík. Mikið ósamræmi er milli leikskóla hvernig styttingin er útfærð sem skapað hefur óöryggi og jafnvel úlfúð. Sums staðar eru um tvenns konar útfærslu að ræða á vinnutímastyttingu á sama leikskóla, annars vegar hjá faglærðum leikskólakennurum og hins vegar hjá ófaglærðu starfsfólki. Á sumum vinnustöðum þarf starfsfólk að taka af styttingunni sinni ef það þarf t.d. að fara til læknis. Það veldur óánægju þegar það gilda ekki sömu reglur fyrir alla á vinnustaðnum. Finna þarf leiðir til að auka samræmingu. Meirihlutinn ítrekaði strax í upphafi að stytting vinnuvikunnar mætti ekki kosta borgarsjóð neitt. Það var auðvitað fráleitt og fullkomlega óraunhæft eins og komið hefur á daginn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað upplýsinga um kostnað en ekki fengið svör frá mannauðs- og starfsumhverfissviði um kostnað við að bæta í mönnunargöt í dagvinnu“

Umræða á fund borgarstjórnar 1. október
play-sharp-fill

Umræða á fund borgarstjórnar 1. október

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Hide picture