fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Ólafur blæs gagnrýni Vilhjálms út af borðinu – versta viðskiptaákvörðunin var er Sjálfstæðisflokkurinn seldi hlut borgarinnar í Landsvirkjun á klink

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 8. janúar 2024 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það fer Sjálfstæðisflokknum illa að tala um vonda fjármálastjórn Reykjavíkurborgar, skrifar Ólafur Arnarson í nýjum Náttfarapistli á Hringbraut. Hann bendir á að flokkurinn hafi verið þiggjandi fjármálagreiða, sem ekki standi öðrum til boða, frá bæði borginni og Landsbankanum.

Tilefni skrifa Ólafs virðist að hluta til vera grein eftir Vilhjálm. Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóra Sjálfstæðisflokksins, sem birtist í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag þar sem hann sakar núverandi meirihluta um óstjórn og stöðuga skuldasöfnun. Ólafur blæs þetta út af borðinu og segir Vilhjálm raunar hafa skrifað fjölda svona greina á liðnum árum. Ólafur hefur raunar fjallað áður um það hvernig borgin var ógjaldfær í lok borgarstjóratíðar Davíðs Oddssonar, ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að þáverandi fjármálaráðherra, Ólafur Ragnar Grímsson, lét ríkið kaupa stórt skuldabréf af borginni til að bjarga málum.

Ólafur rifjar upp hvernig Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og meirihlutinn í Borginni urðu við óskum Sjálfstæðisflokksins um að fá að þétta byggð hressilega á lóð sinni við Háaleitisbraut 1, þar sem Valhöll stendur. Breyta þurfti deiliskipulagi og var það gert. „Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa um árabil ólmast vegna stefnu meirihlutans um þéttingu byggðar. Svo skemmtilega vill til að eftir að borgin heimilaði stórfellda þéttingu byggðar við Valhöll, sem hefur leitt til lóðasölu sem skilað hefur flokknum nær 600 milljónum króna, þá hættu borgarfulltrúarnir að gagnrýna stefnu meirihlutans um þéttingu byggðar. Kemur ekki á óvart en er vitanlega broslegt  nánast hallærislegt.“

Ólafur bendir á að með þessum ráðstöfunum hefur fjárhagur Sjálfstæðisflokksins verið styrktur með þeim hætti að hann mun geta yfirkeyrt alla andstæðinga sína með auglýsingum og áróðri í næstu kosningum. „Allir aðrir flokkar eru blankir, flestir reknir með tapi og sumir skuldum vafðir. Það verður því athyglisvert að fylgjast með því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn fer með þessa sjóði sína þegar kemur að kosningum. Víst er að hann mun reyna að rétta hlut sinn en samkvæmt öllum skoðanakönnunum hefur hann tapað miklu fylgi og forystumenn flokksins  eins og reyndar allrar ríkisstjórnarinnar  eru rúnir trausti. Óvíst er að gríðarlegt auglýsingaskrum og áróðursherferðir muni bjarga flokknum en varla mun það skaða.“

Hann veltir því fyrir sér hvort Landsbankinn noti tækifærið nú og láti flokkinn greiða upp lán sem hann hefur haft þar um árabil á alveg einstökum kjörum. „Samkvæmt upplýsingum sem ekki er ástæða til að rengja hefur flokkurinn skuldað Landsbankanum 300 milljón króna lán um árabil. Lánið er óverðtryggt og ber fasta 5 prósent vexti á ári. Engum standa slík kjör til boða. Bankinn ætti að nota tækifærið og láta greiða þetta lán upp áður en farið verður fram á opinbera rannsókn á tilurð lánsins sem er vægast sagt óeðlileg. Hverjir bera ábyrgð á þessari einkennilegu og siðlausu lánveitingu?

Ólafur vitnar í Heimildina um þær miklu tekjur sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft af umræddri lóðasölu. Í Heimildinni birtist einnig ítarlegt viðtal við Dag Eggertsson, fráfarandi borgarstjóra þar sem m.a. kemur fram að hann útilokar ekki framboð til Alþingis. Ólafur telur það ekki koma á óvart og telur að það gæti orðið til að styrkja ásýnd Samfylkingarinnar enn frekar. Telur hann ekki ólíklegt að upp úr því gæti Dagur orðið fyrsti læknismenntaði maðurinn til að gegna embætti heilbrigðisráðherra hér á landi.

 Ólafur rifjar upp að Dagur hefur fjórum sinnum myndað meirihluta í borgarstjórn með ýmsum flokkum og meirihlutastarfið þar hafi einkennst af samdrægni og heilindum, ólíkt því sem tíðkist í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi..

Hann bendir á að Dagur hafi með tölum og rökum hrakið allar dómsdagsspár minnihlutans og þá sérstaklega sjálfstæðismanna um fjármálalega stöðu Reykjavíkur í viðtalinu í Heimildinni. Þar hafi Dagur einni nefnt merkilegar staðreyndir varðandi stjórnsýslu sjálfstæðismanna þegar þeir náðu síðast að láta til sín taka við stjórn Reykjavíkurborgar. Hann nefni sem dæmi þegar borgin seldi eignarhlut sinn í Landsvirkjun í borgarstjóratíð Vilhjálms Þ., en í meirihlutanum með honum voru þá m.a. Hanna Birna Kristjánsdóttir, Gísli Marteinn Baldursson, Þorbjörg Vigfúsdóttir og Kjartan Magnússon frá Sjálfstæðisflokki og svo Björn Ingi Hrafnsson frá Framsókn. Dagur segir í viðtalinu að salan á eignarhlut borgarinnar í Landsvirkjun sé versta viðskiptaákvörðun borgarinnar. Orðrétt segir í viðtalinu: „Það er ljóst að sú ákvörðun, þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ákvað að selja 46 prósent hlut í Landsvirkjun fyrir 27 milljarða króna á þávirði, um 66 milljarðar króna á núvirði, situr mikið í Degi. Ef borgin ætti enn hlut sinn má ætla að hún hefði fengið um 15 milljarða króna í arðgreiðslur á síðustu tveimur árum.”

Ólafur segir að öllum sem hafi vit á viðskiptum og virði fyrirtækja á mörkuðum sé ljóst að virði Landsvirkjunar, miðað við eignir og afkomu, sé ekki undir 1.000 milljörðum króna og þess vegna nær 2.000 milljörðum eins og staðan er nú. „Því er ljóst að þeir sem seldu hlut borgarinnar árið 2007 fyrir smánarfjárhæð ættu sennilega að hafa hægt um sig þegar kemur að rökræðum um fjárhag og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.“

Náttfara í heild má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma

Ole Anton Bieltvedt skrifar: „Fake News“, „Fake Stories“, eru eitt stórfelldasta og hættulegasta vandamál okkar tíma
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?