Árni Oddur Þórðarson, fyrrverandi forstjóri Marels, þreifar nú fyrir sér með að stofna fjárfestingarsjóð upp á fjóra milljarða króna.
Að undanförnu hefur hann verið í sambandi við ýmsa fjárfesta og kynnt fyrir þeim hugmynd um slíkan sjóð sem hann yrði sjálfur í forsvari fyrir enda með áratuga reynslu af fjárfestingum og margvíslegum viðskiptum. Árni Oddur mun hafa lagt áherslu á að ræða við einkafjárfesta en ekki svonefnda stofnanafjárfesta, þ.e. lífeyrissjóði og sjóði innan banka og fjárfestingarfyrirtækja.
Ekki hefur enn þá komið fram opinberlega hvernig ágreiningi Árna Odds og Arion-banka lauk en bankinn gerði kröfur á hendur honum varðandi uppgjör á skuldum með veði í hlutabréfum hans í Eyri sem er stærsti hluthafinn í Marel. Fram kom að ágreiningur var milli Árna Odds og bankans en ekki er vitað um úrslit málsins.
Takist Árna Oddi að safna fjórum milljörðum í slíkan fjárfestingarsjóð yrði hann öflugur. Ekki þyrfti að koma á óvart þó slíkur sjóður gerði sig gildandi í Marel með hlutabréfakaupum á verði sem flestir sérfræðingar telja að sé nú talsvert undir eðlilegu raunvirði.